03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

64. mál, aðflutningsbann á áfengi

Framsögum. meiri hl. (Sveinn Björnsson):

Jeg hjelt, að háttvirtur framsm. minni hlutans (J. J.) ætlaði að láta sjer nægja með sína skorinorðu ræðu, svo að nú hefði mátt ganga til atkvæða um frv. En jeg sje, að hann er ekki búinn ennþá, og þykir mjer því rjett að segja nokkur orð líka.

Fyrst skal jeg geta þess, að jeg tel líklegt, að nefndin taki til greina bendingu háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) um smáskamtalæknana. Þá þarf að setja í lyfjabúðina. Enn fremur skal jeg benda á, að það er rjett, sem háttv. framsm. minni hlutans (J. J ) sagði, að í 6. gr. frumv. er prentvilla, þar stendur 2: gr. en á að vera 3. gr. Það verður að sjálfsögðu lagað til 3. umræðu.

Háttv. framsm. minni hlutans (J. J.) sagði, að þetta væri kappsmál, og að það væri hyggilegra af meiri hlutanum, að fara rólega í sakirnar og beita ekki kappi. Jeg hefi ekki orðið var við það, hvorki hjer í deildinni nje í nefndinni, að nokkurt kapp hafi komið fram af hálfu meiri hlutans. Enda hefir minni hlutinn viðurkent það, að meiri hlutinn hafi viðhaft alla gætni, og það svo, að minni hlutinn mun ætla sjer að greiða atkvæði með brtt. meiri hlutans. Annars virtist aðalkjarninn í ræðu háttv. framsm. minni hlutans (J. J.) vera sá, að lýsa yfir sinni og annara andbanninga umhyggju fyrir því, að ekkert komi fram í þessu máli, sem gæti orðið þessum ágætu lögum að falli. Hann sagði, að ef farið yrði að breyta lögun- um, mætti eiga það á hættu, að það yrði þeim að falli, og þeir menn bæru ábyrgðina á því, sem með breytingarnar kæmu. Jeg fyrir mitt leyti er ekki hræddur við að bera þá ábyrgð og greiða atkvæði með breytingunum, þótt það skapi einstaka manni óánægju. Hann vildi halda því fram, að við bærum líka ábyrð á auknum brotum á lögunum. Út af þessu vil jeg taka það fram, að ef reyndin verður sú, að þessi lög verði brotin meira en önnur lög, þá er ástæðan til þess sú, að hjer eru of margir menn í landinu, sem prjedika það sýknt og heilagt, að þessi lög sjeu þrælalög, sem engin synd sje að brjóta. Það er ekki rjett af neinum borgara, að hvetja menn til að brjóta lög, hvaða lög sem það eru. Eina löglega aðferðin til að vinna á móti lögunum, er sú, að reyna að fá þau afnumin.

Háttv. framsm. minni hlutans (J. J.) sagði enn fremur, að það, sem sjer gengi til og skoðunarbraeðrum sínum, væri það, að þeir vildu fá reynslu fyrir því, hvort bannlögin væru heppileg eða ekki. Þá reynslu vilja þeir skapa, með því að halda bannlögunum i því formi, sem bannmenn telja óheppilegt. Jeg get ekki fundið fullkomið samræmi i þessari skoðun.

Þá sagði hann, að það væri hart, að taka rauðvínið frá fiskiskútunum. Jeg veit ekki, hvort hann er svo kunnugur lífinu á fiskiskútunum, að hann geti um það dæmt. Jeg veit ekki til, að þar hafi daglega verið haft rauðvín á borð¬um, hvað sem verður hjer eftir. Ef menn hafa viljað fá sjer hressingu i sjó¬volkinu, eins og reyndar líka í land¬volkinu, þá mun það tíðast hafa verið brennivín: Eins og háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.) tók fram, þá er það venjulega talið heppilegast, þegar um mannraunirnar er að ræða, að neyta alls ekki áfengis.

Þar sem háttv. framsm. minni hlut¬ans sagði, að það væri svo vond fæða á, fiskiskipunum, að skipverjum veitti ekki af að bæta sjer það upp með vínnautn, þá er það algjörlega rangt, að minsta kosti að því er snertir togarana. Jeg veit það, að ef hann sneri sjer til útgjörðarmanna, þá myndi hann komast að raun um, að sjómenn á togurunum lifa á mjög góðu fæði.

Jeg ætla ekki i þessu sambandi að fara út í að tala um fjárveitinguna, sem farið var fram á hjer um daginn og minst er á í nefndaráliti meiri hlutans. Það var fullskýrt tekið fram þá, að fram á þessa fjárveitingu væri farið eingöngu í því skyni, að ljetta lögreglustjóranum eftirlitið með því að hafa vörð úti í skipunum. Og upphæðin, sem farið var fram á, 5000 kr., var talin nægileg til þess af kunnugum mönnum, sem jeg treysti betur til að bera skyn á, hvað til slíks eftirlits myndi þurfa, heldur en háttv. framsm. minni hlutans (J. J.), með allri virðingu fyrir kunnugleika hans og góðum vilja.

Loks sagði háttv. framsm. minni hlut¬ans, að það væri varasamt, að kúga menn til að hlýða lögunum. Ef þetta væri rjett, þá leiddi af því, að það væri yfirleitt mjög varhugavert fyrir Alþingi að setja nokkur lög, því að þau hljóta alt af að þvinga þá menn, sem ekki vilja hlýða þeim. Lög eru ekki annað en þvingun á menn til að göra það, sem almenningi er fyrir bestu, að áliti löggjafana. Þegar um önnur lög er að ræða, er það ekki kallað kúgun, þótt lögð sjeu viðurlög við að brjóta þau. En þegar um þessi einu lög er ræða, þá er þetta kallað kúgun. Það er einn þátturinn í tilraununum til að gjöra lögin óvinsæl, en það er ekki rjettmætara í þessu máli heldur en í öðrum lög¬um.

Að endingu skal jeg leyfa mjer að segja það, að þar sem háttv. framsm. minni hlutans (J. J.) segir, að því harðari refsing sem lögð sje við að brjóta einhver lög, því meiri mótspyrnu sæti þau, þá hlýtur að leiða af því, að sje refsingin væg, þá brjóti menn lögin síður. Það er því bein hugsanarjett ályktun af þessari skoðun, að rjettast sje að leggja svo sem 2–10 kr. sekt við að drepa mann. (Jón Jónsson: Það er alt öðru máli að gegna). Það er fjarri mjer, að ætla að fara að bera þetta tvent saman, en jeg vildi að eins sýna fram á, að þetta er hugsanarjett ályktun af þessari skoðun.