30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

120. mál, þingsköp Alþingis

Framsm. meiri hlutans (Jón Magnússon):

Eins og menn muna, urðu alla engar umræður um þetta mál við 1. umræðu, og kom það til af því, að þá var orðinn mjög langur fundur, svo að menn vildu ekki tefja tíma deildarinnar með því að fara að ræða þetta mál. Það var ekki heldur ástæða til að segja mikið um málið þá, því að það er gjörð nokkurn veginn glögg grein fyrir breytingartillögum nefndarinnar á núverandi þingsköpum.

Jeg vil leyfa mjer að minna á það, að í fyrra fóru frá þessari deild breytingar á þingsköpunum, sem nauðsynlegar urðu að álítast, vegna breytingar þeirrar á stjórnarskipuninni, sem þá varð á. Ed. feldi þá málið, og tel jeg það illa farið. Það mátti vel samþykkja frumvarpið eins og það þá kom frá þessari deild og fá það staðfest, en taka síðan upp í ró og næði gagngjörða endurskoðun á þingsköpunum Það þótti lengi ekki sjálfsagt, mikinn part af vetrinum, sem leið, að stjórnskipunarbreytingin yrði staðfest, og því kom ekki neitt frumvarp um þingskapabreytingu frá stjórninni fyrir þetta þing. Jeg skal annars ekki fára mikið út í aðgjörðir Ed. í málinu í fyrra, þótt mjer þyki þær ekki fyllilega rjettar gagnvart þessari deild. Frá Ed. hafa komið mikil störf í þessu máli, og skal jeg þar sjerstaklega tilnefna háttv. 5. kgk. (G. B.). Frá honum eru flest allar breytingarnar. Jeg vænti að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer nefndarálitið og breytingarnar. Það hefir verið útbýtt meðal háttv. þingmanna uppkasti að þingsköpunum, þar sem prentaðar eru með öðru letri breytingar þær, er nefndin stingur upp á, svo að hægra væri að átta sig á nýmælunum. Að öðru leyti skal jeg láta mjer nægja að drepa lítils háttar á breytingar þær á frumvarpinu, sem nú eru fram komnar.

Jeg ætla þá fyrst að minnast á brtt. á þgskj. 554. Eins og getið er um í nefndarálitinu, þótti rjett að taka eiðstaf upp í þingsköpin. Einn nefndarmanna, háttv. þm. Dal. (B. J.) gat þó ekki fallist á eiðstafinn, og hefir hann komið fram með tillögu um að hafa hann öðru vísi en meiri hluti nefndarinnar leggur til. Þetta er auðvitað ekki neitt aðalatriði. Mjer finst eiðstafur sá, er stendur í frv. vera viðkunnanlegri, heldur en í brtt. háttv. þm. Dal. (B. J.) Jeg tel okkar eiðstaf klassískari og hátíðlegri, t. d. orðin: »jeg segi það guði.«

Þá er 2. brtt. á sama þgskj., við 5. gr. Þar vill minni hlutinn, háttv. þm. Dal. (B. J.), ekki láta fresta kosningu, ef efi þykir á, að hún sje lögmæt. Hann telur að hætta sje á, að þessu ákvæði geti orðið misbeitt af meiri hl. gegn minni hluta. Jeg hygg, að þetta sje hreinn misskilningur. Meiri hlutinn getur alveg eins misbeitt valdi sínu í þá átt, að fella kosninguna úr gildi, ef efi þætti á vera. Hitt virðist mjer lakara, ef kosning yrði gjörð ógild, og svo kæmi það síðar fram, að það hefði gjört verið vegna vantandi upplýsinga. Jeg hygg, að það væri ekki rjett, að taka þetta ákvæði burt úr frv.

Þá er 3. tillagan, sem jeg og meiri hlutinn álitum heldur ekki heppilega. Það kom talsvert til umræðu í nefndinni, vegna þess, að í stjórnarskipunarlögunum er ekkert ákveðið um það, hvernig að skuli fara, þegar kosinn er maður á miðju kjörtímabili í stað kördæmiskosins þingmanns, er sæti hefir átt í Ed. Meiri hlutanum þótti rjett, að sá maður, sem kosinn yrði í hans stað, færi líka í sæti hans í Ed. Það kom fram í nefndinni, að þetta gæti orðið til þess, að flokkaskipun yrði eitthvað öðru vísi en ætti að vera; en meiri hlutinn heldur að engin hætta stafi af þessu.

Þá er 4. brtt. við 11. gr. um eitt atriði, sem snertir starfa þann, er skrifstofustjóra er ætlaður. Það er í rauninni ekki mikilvægt atriði. Meiri hlutinn heldur fast við að það sje rjett, að láta hinn fyrirhugaða skrifstofustjóra ráða starfsmenn til þingsins, auðvitað þó með samþykki forsetanna. Þetta er meira en orðabreyting, en vitanlega myndu forsetarnir alt af ráða miklu.

Þá er enn dálítill ágreiningur milli meiri og minni hlutans um föstu nefndirnar. Jeg tel gott, að þessar brtt. eru fram komnar, því að við það skýrist. enn betur, hvað nefndin hafði ætlað sjer. En jeg álít, að rjettast sje, að fastákveða þetta ekki nú þegar, frekara en gjört er í frumv., tel betra að láta reynsluna skera úr. Jeg hygg, að það mætti vel við una, að hafa þrjár fastar nefndir, sem hefðu aðallega að sýsla með atvinnumál landsins. Að minsta kosti er það vel í lagt í samanburði við aðrar greinar landsmálanna. Jeg hygg, að verslunarmálin geti vel komið í samgöngumálanefnd og sjávarútvegsnefnd, jafnvel einnig í landbúnaðarnefnd. Jeg vil þess vegna fyrir hönd meiri hlutans mæla á móti því, að þessi tillaga verði samþykt, en vona að þetta verði tekið eins og það liggur fyrir í frumv. Það er alt af hægt að sníða þetta í hendi sjer, þegar reynsla fæst.

Þá kem jeg að 6. brtt. Þetta aðalágreiningsefnið. Meiri hlutinn hefir viljað stuðla að því, að hægt yrði að halda fjárveitingunum innan hæfilegra takmarka og fá sem mesta festu í fjármál landsins. Þetta virtist oss verða helst með því, að stjórn og fjárveitinganefnd hefði sem mest að segja um út gjaldahlið fjárlaganna. Því var að vísu hreyft í nefndinni, að það væri efasamt, hvort þessi tillaga væri ekki á móti stjórnarskipunarlögunum. En því var afdráttarlaust haldið fram af miklum meiri hluta; að þessi tillaga kæmi ekki í bága við neitt ákvæði í stjórnarskipunarlögunum. Meiri hlutanum þykir mikið unnið með þessari tillögu um 2/5 hluta atkvæða þurfi til þess að brtt:frá einstökum þingmönnum nái fram að ganga í trássi við fjárveitinganefnd. Á síðustu þingum hefir nokkuð verið um þetta rætt, og hefir það aðallega mætt mótstöðu frá þeim, sem ósparari eru á fje landsins, en verið haldið fram af hinum, sem vilja spara.

Þá er að minnast á 7. brtt. Meirihluti nefndarinnar vildi taka upp það nýmæli, að takmarka nokkuð ræðufjölda framsögumanna, með því að ekki er ástæðulaust að álíta, að það sje jafn- aðarlega varið of miklum tíma í umræður hjer á þinginu; sjerstaklega í neðri deild, og ætti því ekki að vera ófyrirsynju, þótt reynt væri að tak- marka það. Yfir höfuð álítur meiri hl. að miklar umræður hjer á þinginu gjöri allajafna fremur lítið gagn, en kosti hins vegar mikið fje -og mikinn tíma. Jeg get ekki skilið, að það sje ekki fyllilega nóg fyrir framsögumann, að tala þrisvar við hverja umræðu máls. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það ber enga nauðsyn til þess, að framsögumaður svari hverjum andmælanda út af fyrir sig. Það mætti kann ske segja, að sama ætti að ganga yfir ráð- herrann, en um hann er nokkuð öðru máli að gegna. Það gæti komið fyrir í umræðunum fyrirspurn eða eitthvað þess konar, sem ráðherra þyrfti að svara þegar.

Áttunda atriðið er um leynilega atkvæðagreiðslu. Jeg býst við; að menn greini á um þetta; sumum finnist ekki ástæða til að vera að fara í launkofa með atkvæðin. En það hefir verið tekin upp .i mörgum greinum leynileg atkvæðagreiðsla og þótt hentugra og í samræmi við að slíkt geti komið fyrir, að þingið kjósi heldur leynilega atkvæðagreiðslu í sumum málum. Meiri hlutinn hefir, að dæmi sumra annarra þjóða, tekið upp ákvæði um þetta. Minni hlutinn vill ekki fallast á þetta. Stórvægilegt, getur þetta atriði ekki talist. Nefndin hefir ekki tekið neina afstöðu í heild sinni gagnvart tillögunni á þgskj. 563, en jeg get fyrir mitt leyti lýst yfir því að jeg tel hana til bóta. Það er eflaust gott og rjett til skýringar, að hverju máli, fylgi skrifaðar upplýsingar og skýringar. Ef haft er á móti því, þá er, það ekki annað en verið er að ala upp leti í mönnum, því að flutningsmaður hvers máls ætti að gjöra sitt til að skýra og reifa málin sem best þegar í upphafi.

Að endingu skal jeg láta þess getið, að úr 53 gr. frumv. átti að falla burtu orðin: »og má hver þingmaður, er vill«. Jeg: spyr háttv. forseta; hvort ekki megi skoða þetta sem prentvillu.