30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

120. mál, þingsköp Alþingis

Pjetur Jónsson:

Jeg á hjer eina brtt., en háttv. framsm. meiri hl. (J. M.) tók henni hlýlega, svo að jeg vona, að hún verði samþykt. Að eins vildi jeg skýra meiningu hennar í fám orðum. Hún er sú, að ætíð fylgi með frumvörpum skýringar eða ástæður flutningsmanna fyrir þeim, öldungis eins og stjórnin er vön að láta fylgja sínum frumvörpum. Það gengur nú svo, að við l. umr. verða oft langar umræður, og stafa þær stundum af því, að þeir, sem andmæla, hafa eigi skilið frumvörpin, eða stefnu þeirra, og gætu þær því sparast, ef skýringar fylgdu frumvörpunum, enda er það oft, að skýringar í ræðum flutningsmanna heyrast ekki eins vel, eða skiljast, og þær myndu hafa gjört, ef þær hefðu verið skrifaðar.

En úr því að jeg stóð upp, þá ætla jeg að minnast á tvö atriði, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) hafði á móti frumv. Í fyrsta lagi er takmörkunin á fjárhækkunartillögum frá einstökum þm. í 32. gr. Jeg varð feginn, þegar jeg sá það nýmæli, og hefði óskað að eitthvert sams konar ákvæði hefði komist inn í stjórnarskrána, en það var nú ekki hægt þegar hún var á ferðinni. Jeg álít það alt annað en heppilegt, að frumkvæðisrjettur um útgjaldahækkanir sje svo óbundinn, sem hann hefir verið hingað til, og helst hefði jeg kosið, að engin fjárhækkunartillaga hefði komist að, sem stjórnin legði á móti.

Í þessu efni ætti mest að binda sig við stjórnina, því hún hefir meiri ábyrgð á því en aðrir, hvernig um fjárhaginn fer. Við þurfum ekki annað en þukla í okkar eigin barm; ef margir ættu að ráða jafnmiklu um útgjöldin á einhverju heimili, þá mundi þar alt lenda í ógengd, sem engar tekjur hrykkju við. Þannig er því og varið á þessu stóra heimili hjer, landsbúinu, þinginu, að það kann ekki góðri lukku að stýra, að hver maður geti kastað inn brtt., sem rugla allan fjárhag landsins, og það á hverju stigi málsins sem er, svo að lítil athugun kemst að.

Jeg lít svo á, sem hver þingmaður mætti vel við það una, að eiga áhugamál sín og síns kjördæmis undir stjórninni, því ef málaleitanirnar eru sanngjarnar, þá komast þær fram á endanum. Þetta er mín reynsla, og eftir þessu hefi jeg hagað mjer.

Hitt atriðið var takmörkun á málfrelsi framsögumanna. Mjer finst það nú vera lítilsháttar atriði, en yfirleitt finst mjer málfrelsi þeirra óþarflega mikið. Jeg væri alveg ánægður með, að það væri ekki umræður nema við eina umræðuna. Yfirleitt væri það heppilegra, að gjörð væri skriflega grein, bæði fyrir frumvörpum og brtt., og síðan greidd atkvæði þegjandi; annars verður úr þessu málaþras, sem flestir eru hættir að hlusta á, eins og sýnir sig nú á þingfundum. Flestir þingmenn una betur við kaffisumbl á »Kringlu«, og salirnir eru tómir undir umræðunum.