30.08.1915
Neðri deild: 46. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

120. mál, þingsköp Alþingis

Framsögum. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Það var ekki rjett hjá háttv. framsm. meiri hl. (J. M.), að jeg hefði farið lítilsvirðandi orðum um fjárveitingavald Alþingis. Þetta er alveg rangt. Jeg talaði einmitt um, að jeg vildi ekki afhenda fjárveitingavald Alþingis í gáleysi hinum og öðrum þingmönnum.

Háttv. framsm. meiri hl. (J. M.) talaði einnig um það; að hætta væri á, að einstök kjördæmi fengju of mikið, ef einstökum þingmönnum væri leyft að koma fram með brtt. Jeg skil þetta ekki. Er ekki hægt að gjöra upp á milli einstakra kjördæma alveg eins fyrir því? Jeg sje enga ástæðu til, að óttast fremur hrossakaup meðal fjörutíu manna en þriggja manna. Mjer virðist miklu fremur vera ástæða til, að óttast hrossakaup innan fjárlaganefndarinnar en innan alls þingsins, og því álít jeg beinlínis hættulegt, að fela fjárveitingavaldið þessum fáu mönnum.

Hv. fram. meiri hl. (J. M.) talaði mikið um og kvartaði undan málæði hjer í þinginu. Jeg get ofurvel skilið það, að þeir, sem ekki geta svarað fyrir sig sjálfir (og meina jeg það ekki til hans), vilji helst að allir aðrir þegi. Mjer finst það alveg nóg takmörkun á málfrelsi manna, sem stendur í núgildandi þingsköpum, að menn mega ekki tala oftar en tvisvar, og jeg vil ekki láta takmarka málfrelsið meir.

Annars er til eitt óyggjandi læknislyf við málæði, og það er það að þegja, bæði um þetta og annað.

Því skal jeg víkja nokkrum orðum að lögskýringum háttv. framsm. meiri hl. (J. M.) um það, þegar þingmaður er kosinn í stað annars: Það stendur ekki í stjórnarskránni, að hann eigi að koma í sæti hins, heldur beint í stað hans, og að fara eftir tillögu meiri hlutana í þessu efni væri því beint stjórnarskrárbrot. Jeg var í stjórnarskrárnefndinni í fyrra, og jeg man það, að það var tilætlunin þar, að nýkosinn þingmaður kæmi í stað þess, sem færi, en ekki í sæti hans.