02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

120. mál, þingsköp Alþingis

Skúli Thoroddsen:

, Jeg hefi leyft mjer að koma fram með nokkrar brtt. við frumv., sem jeg vil minnast á með nokkrum orðum.

Fyrst er þá brtt. mín við 7. gr., þar sem farið er fram á, að niðurlag hennar sje felt burt, þ. e. það ákvæði greinarinnar, að þingmenn skuli einatt hluta um sæti, í fyrsta skifti, er á þing er komið, að kosningum um garð gengnum.

Þetta er ákvæði, sem jeg kunni illa við:

Hingað til hafa þingmenn einatt sjálfir valið sjer sæti, þ. e. hver tekið það sæti, sem hann feldi sig best við, og það gengið vel, eða þó að minsta kosti allþolanlega.

Hina vegar mundi það geta leitt til leiðinda, og óþæginda, ef þingmenn, sem lengi hafa setið í sama sætinu, ár eftir ár, ættu síðan alt í einu að fara að skifta um sæti.

Fjöldi manna er, sem kunnugt er, ekkert, nema vaninn, — vilja eigi breyta til, og sakna þess, sem þeir hafa lengi við búið, og vona jeg því, að háttv. þingdeildarmenn aðhyllist þessa brtt. mína.

Þá á jeg brtt. við 8. gr., sem fer í þá átt, að í stað þess, að embættismenn þingsins sjeu kosnir fyrir allan þingtímann, þá sjeu þeir að eins kosnir til 4 vikna í senn.

Ástæðurnar fyrir þessari brtt. minni eru eigi að eins þær, að mjer er kunnugt um, að á sumum löggjafarþingum eru embættismenn þingsins ekki kosnir fyrir allan þingtímann, en að eins fyrir einhvern ákveðinn tíma, heldur eru ástæður mínar öllu fremur þær, að það getur verið heppilegt, að kosningarnar gildi að eins um styttri tíma, með því að fleiri þingmenn geta þá kynst þeim störfum þingsins, er hjer um ræðir, og haft þá og unað af, að minnast þess, oft síðar, er þeir gegndu því eða því trúnaðarstarfinu á þinginu, og vona jeg því, að þessari brtt. verði vel tekið; það getur ekki leitt neitt ilt af henni, heldur þó dálítið gott.

Þá á jeg enn fremur brtt. við 16. gr., sem teljast mun mega nýmæli, þar sem jeg hefi leyft mjer, að stinga upp á því, að einni fastri nefnd sje bætt við tölu föstu nefndanna, þ. e. svo nefndri lög um bótanefnd.

Jeg skal játa, að nafnið er ef til vill ekki heppilega valið, en jeg hefi hugsað mjer, að verkefni þessarar nefndar ætti að vera í því fólgið, að athuga, hvort lagafrumvarp o. fl., sem fram er borið á þinginu, sje rjett, og ákjósanlegt, er frá siðferðislegu sjónarmiði er skoðað.

Það er skylda hvers einstaklings, að vera sjálfan sig sí og æ umbætandi, sem unt er, þ. e.: að verða æ fastari, og eldheitari á því, að fremja eigi það, sem siðfræðilega rangt er, nje þola, að framið sje. En eins og þetta er skylda einstaklingsins, svo á og hvert þjóðfjelag einatt að stefna að hinu sama.

Eitt af því, sem hvert þjóðfjelag verður því og að leggja afar-mikla áherslu á, það er það, að ekki sjeu sett, nje látin gilda önnur lög, en þau, sem siðfræðilega rjett eru.

Lögin eru, sem kunnugt er, það, sem neytt er til að hlýða, og engan á að neyða, til að fremja það, sem siðfræðilega rangt er, nje til hins, að þola, að það sje framið, eða látið viðgangast.

Jeg skal nú enn fremur taka dæmi máli mínu til skýringar :

Ef slík nefnd, sem hjer er farið fram á, hefði verið til á Alþingi 1913, halda menn þá ekki, að hún hefði tekið í taumana, þegar fram kom tillaga um það, að veita ekki kosningarrjett, og kjörgengi í bráðina, nema fertugum konum og eldri, nje öðrum hinna nýju kjósenda yfirleitt, en þeim, sem sama aldursskilyrðinu fullnægði?

Þingmenn játuðu — og því veittu þeir fertugum konum o. fl. þegar rjettinn — , að siðfræðilega skoðað bæri konum o. fl. kosningarrjetturinn, og kjörgengið, með sömu skilyrðum, sem karlmenn, er notið höfðu rjettindanna, og þó leyfa þeir sjer — þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir — að gjöra þennan greinarmuninn, sem fyrr var um getið.

En myndi þá eigi »lögumbótanefndin«, ef til hefði verið, hafa sagt eitthvað á þessa leið:

Eruð þjer háttv. þingm. þau börnin, að þjer vitið ekki, að tröðkun fræðilega rjettarins fylgir æ siðferðislega ábyrgðin, fyrr eða síðar? Siðferðilega ábyrgðin, sem þjer rekið yður á einhver tíma, ef ekki í þessari tilverunni þá væntanlega í þeirri næstu?

Ef slík nefnd hefði verið til á löggjafarþingum þjóðanna, þá hefði þar og ekki getað verið til lög, sem skipað hefðu mönnum, að ráða á önnur þjóðerni, með hernaði.

Ekki hefðu þá og heldur verið til þau lög, er skipa mönnum að skerða eða hefta sjálfstæði annarra þjóðerna.

Þá hefðu og heldur ekki verið til lög, sem banna fulltíða konum og körlum að neyta kosningarrjettar, og njóta kjörgengis, o. fl. o. fl.

Annars skal jeg geta þess, að jeg hefi ekki borið þessa tillögu fram af því, að jeg — eins og jeg veit þingið skipað — byggist við, að hún næði fram að ganga, heldur af því, að mjer fanst þó rjett, að máli þessu væri hreyft, og að þingmenn fengju, að lýsa á því skoðun sinni, og greiða um það atkvæði.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um oft nefnda tillögu mína, heldur víkja að annarri brtt., sem jeg á við 16. gr.

Hún fer fram á það, að fella burt ákvæðið um það, að engir þingmenn megi sitja á fleirum, en tveim, af »föstu nefndunum«.

Jeg kann illa við það ákvæði, því að jeg hygg, að oft gæti þó staðið svo á, að heppilegt gæti verið, að sami maður ætti sæti í 3–4 nefndum.

Hann gæti verið öðrum svo að mun fremri, að það væri og ákjósanlegt, að hafa hann í fleirum en tveim nefndum.

Auk þess er það og frjálslegra, að hafa það óbundið, og ætla þá þinginu sjálfu, að gæta, sem þörf gjörist, hófs í því, að ofhlaða þó eigi störfum á einstaka þing. menn.

Þá hefi jeg einnig flutt brtt. í þá átt, að ekki skuli fastákveðið, að ekki megi fleiri en fimm, sitja í neinni »föstu nefndanna«.

Það er nú t. d. orðinn gamall siður, að 7 menn eigi sæti í fjárlaganefnd, og væri ilt, að sú regla yrði lögð niður, þar sem fjárlaganefnd hefir einatt mikið verk að vinna, auk þess, hve nauðsynlegt það er, þegar margir flokkar eru í þinginu, að hún sje svo fjölskipuð, að hver flokkur geti komið manni að.