02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

120. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jón Magnússon); Jeg mun halda mjer við brtt. eins og þær liggja fyrir, en ætla mjer ekki að ræða málið í heild sinni. Brtt. nefndarinnar hafa fengið yfirleitt góðan byr í deildinni.

Er þá fyrst að minnast á 1. brtt. á þgskj. 667. Meiri hl. nefndarinnar hefir fallist á hana. Ef þessi brtt. hefði ekki komið fram, mundi nefndin hafa flutt hana. Tillagan gjörir ákvæði greinarinnar skýrari.

Um 2. brtt. á sama þgskj. get jeg sagt, að hún er fremur meinlaus. Það hefir ekki verið hægt að kalla saman nefndina, til þess að taka afstöðu til hennar, en jeg hygg þó, eftir þeirri þeirri niðurstöðu, sem nefndin komst að áður, að hún eða meiri hluti hennar haldi fast við tillögur sínar að þessu leyti. Hún byggir á því, að yfirleitt sje hver þingmaður fær um að hafa framsögu í því máli, er hann fjallar um í nefnd, enda sje hann ritari nefndarinnar í því máli. Og þeir, sem ekki hafa haft sig frammi nú, munu reynast eins færir og aðrir, þegar þeir fá æfingu í störfunum.

Jeg get ekki sjeð neina ástæðu til að fara að samþykkja 3. brtt.; sje ekki, að neitt sje grætt með henni.

Jeg vona, að 4. brtt. verði tekin aftur. Hún er í rauninni um atriði, er búið er að fella áður í deildinni, og verði nokkur breyting gjörð í þessu efni, þá er þó nær að samþykkja brtt. á þgskj. 670.

Þá vil jeg minnast á brtt. á þgskj. 670. Eftir því sem nefndin leit til, þá mundi nægilegt að hafa 5 menn í fjárveitingarnefnd, þar sem störfum fjárlaganefndar nú er skift á milli fjárveitingarnefndar og fjárhaganefndar. Það hlýtur alt af að verða náið samband milli fjárveitingarnefndar og fjárhagsnefndar, svo að breytingin yrði í raun og veru sú, að í stað þess, sem 7 manns hafa átt sæti í fjárlaganefnd yrðu það 10 manns, sem hefðu sama starfið. Jeg er ekki heldur viss um, að betra sje að hafa 7 manna nefndir en 5 manna nefndir, því að í fámennum nefndum vinnast nefndarstörfin fljótara. Að vísu gæti ef til vill verið trygður meiri kunnugleiki í 7 manna nefnd, en þegar skifta á fáum mönnum í margar fastar nefndir, þá er ekki hægt að hafa fleiri en 5 í þeim. Verð jeg því að telja óheppilegt, að gjörð sje breyting í þessu efni.

Um aðrar brtt. get jeg verið stuttorður. Meiri hluti nefndarinnar er þeim öllum meira eða minna mótfallinn.

Jeg verð sjerstaklega að mótmæla 2. brtt. á þgskj. 670, því að verði hún samþykt, þá er mjög dregið úr þýðingu þess ákvæðis, er samþykt var við 2. umr., og fer í þá átt, að hefta nokkuð tillögur einstakra þingmanna til aukningar útgjöldum í fjárlögunum. Viðvíkjandi 3. brtt. skal jeg geta þess, að nefndin hefir ekki beinlínis á móti henni; hún er í samræmi við till. hennar að efninu til, en jeg held að hún fari nokkuð langt; ætti ekki að ná til annars en fjarveru þingmanns frá nafnakalli. Að svipta þingmann dagkaupi sínu, ef hann er fjarstaddur, við hvaða atkvæðagreiðslu sem er, ætla jeg alt of strangt. Það er ekki dæmi til þess um þingsköp nokkurra landa, að þau gangi svona langt, jafn vel þótt þau yfirleitt sjeu mikið strangari.

Þá kem jeg að brtt. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Um brtt. á þgskj. 671 var talað við 2. umr. Nefndin taldi það rjett, að einhver regla væri höfð um sætaskipun þingmanna. Að öðru leyti er það aukaatriði, hvernig því er fyrir komið; væri kann ske rjettara að skipa niður í sæti eftir kjördæmum; hvert kjördæmi hafi ákveðið sæti. Þetta er auðvitað þýðingarlítið, en fyrir nefndarinnar hönd, vil jeg mæla á móti brtt. á þessu þgskj. Um brtt. á þgskj. 682 er ekki ástæða til að fara mörgum orðum. Hin er brtt. við brtt. háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), sem jeg hefi talað um. Verði hún samþykt, þá er mjer sama um þessa brtt., því að þá er ákvæðið sjálft í frumv. orðið lítils virði. Um fyrstu brtt. á þgskj. 673 er það að segja, að það kom til orða í nefndinni, að ástæða væri til þess, að láta starfstíma embættismanna þingsins ekki ná yfir, allan þingtíman. Það á sjer stað sumstaðar erlendis. Samt varð það ofan á, að breyta í þessu efni ekki frá núverandi fyrirkomulagi. Annars er nefndinni þetta lítið kappsmál. Önnur brtt. á sama þgskj. verður nefndin aftur á móti að mæla eindregið á móti. Hún brýtur alveg í bág við tilgang nefndarinnar í niðurskipuninni í fastar nefndir. Hún ætlaðist til þess, að sömu mennirnir. ættu ekki sæti í mörgum nefndum í senn; það gæti orðið til alt of mikillar tafar fyrir nefndarstörfin. Nefndin verður því alvarlega að ráða frá því, að samþykkja þessa brtt. Þá getur nefndin ekki sjeð, að þessi nýja nefnd, er háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) stingur upp á (þgskj. 688), að bætt verði við, muni koma að miklu gagni. Hún verður því að leggja á móti henni og yfirleitt halda fast við þá nefndatölu, er hún hefir stungið upp á, þangað til reynslan hefir sýnt, að þörf sje á fleiri nefndum, sem vel getur auðvitað komið fyrir. En við erum svo fáir og höfum Svo fáum mönnum á að skipa í nefndirnar, að við getum ekki í þessu efni farið eftir nefnda fjölda erlendra þinga, þar sem sumstaðar eru um 20 fastar nefndir eða fleiri.

Jeg get ekki felt mig við eiðstafinn, eins og hann var samþyktur við 2. umr. Jeg hefi því tekið það ráð, að leggja til, að hann yrði feldur burtu úr þingsköpunum og sú skipun látin haldast, sem nú er. Sjerstaklega kann jeg ekki við það orðatiltæki, að þingmenn »inni lögeið«, því að eins og menn vita, þá er hann alt öðru vísi, en eiður sá, er hjer getur. Háttv. þm. Dal. (B. J.) gat um, að eiðstafur meiri hlutans væri óheppilegur, en okkur virðist þessi sýnu verri. Þess vegna er best að vera ekki að vekja deildur um þetta, en hafa það fyrirkomulag, sem nú er, og láta forsetana ráða eiðstafnum.

Þá er brtt. við 11. gr., sem raunar skiftir ekki miklu máli, en nefndin leggur heldur á móti. Hún verður að álíta það heppilegra og til betri undirbúnings undir störfin við þingið, að skrifstofustjóri hafi áhrif á ráðningu starfsmanna við þingið. Vitanlega er það sjálfsagt, að hann ráði öllu um val manna á skrifstofunni, og um aðra starfamenn hygg jeg það sje hyggilegra, til þess að alt sje betur undirbúið, að hann hafi sjeð fyrir þeim að einhverju leyti.