02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

120. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jón Magnússon):

Jeg ætla fyrst að svara háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) út af því, sem hann sagði um fimm eða sjö manna fjárlaganefnd og um takmarkanir í fjárveitingavaldinu. Það liggur í augum uppi, að því hægara er að koma fram fjáveitingum á móti tillögum fjárlaganefndar, sem sú nefnd er færri mönnum skipuð; það er hægara á móti fimm manna nefnd en á móti 7 manna nefnd. Þess vegna var það dálítið með tilliti til þess arna, að nefndirnar hugsuðu sjer, að fjárlaganefndin í Nd. yrði skipuð fimm mönnum.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) vissi vel, að nefndinni var það ljóst, að ef fimm menn ættu sæti í fjárlaganefnd Ed., væri tæplega unt að koma þar fram fjárveitingum gegn vilja hennar. Enda mun það sjaldgæft, að þar hafi fjárveiting hafst fram gegn vilja allrar nefndarinnar, en ef svo hefir komið fyrir, þá sannar undantekningin regluna. En þrátt fyrir það álíta nefndirnar engan skaða skeðan, þótt Ed. bæti ekki fjárveitingum á fjárlögin. Nefndirnar líta svo á, að fjárveitingarvaldið eigi aðallega að vera hjá Nd., og að hlutverk Ed. sje þá heldur að kippa úr heldur en hitt.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) var gramur yfir því, að reynt væri að stemma stigu fyrir einstökum fjárbeiðnum einstakra þingmanna. Allir vita, að öll fjárlögin eru einstakar fjárveitingatillögur. En hvað það snertir, að sumir menn álita eins og verið sje að gefa fjárlaganefndinni fjárveitingavald, þá er það ekki rjett: Hjer er að eins um tillögurjett að ræða og kvalificerað majoritet, sem svo er kallað, fyrir tillögur annara þingmanna en nefndarinnar. Það væri ef til vill full ástæða til þess, að hafa þetta ákvæði miklu víðtækara.

Jeg vil ekki tefja umræðurnar lengur um þetta atriði. Allir háttv. þingmenn hljóta að hafa gjört sjer grein fyrir því, og það því fremur, sem oft hefir verið að því vikið á mörgum undanförnum þingum.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að girt væri fyrir það, að formenn gætu orðið framsögumenn í nefndum. Þetta er alveg rjett. Nefndirnar eru þeirrar skoðunar, að þegar svo er skift niður störfum, sem til er ætlast í frumv., og ekki hlaðið margs konar skrifarastörfum á sama manninn, þá sje ekki til ofmikils ætlast, þótt skrifararnir gjöri sig færa um að hafa framsöguna á hendi, en hins vegar ekki víst, þótt formenn hrifsi til sín framaögu, að þeir sjeu færari um hana en skrifararnir.

Jeg er ekki eins og háttv. þm. Dal. (B. J.), að jeg fari með svívirðingar í garð mótstöðumannanna, eins og hann gjörir hvað eftir annað. Hann var að tala um þá, sem stæðu að baki Marðareiðsins. Jeg hefði talið rjett af forseta að ávíta háttv. þingm. fyrir slík ummæli, sjerstaklega vegna þess, að þau eru sögð móti betri vitund. Háttv. þm. Dal. (B. J.) veit það ofboð vel, að söguritarinn tekur upp eiðstafinn, að eins til þess að sýna, hvernig hann hefir gengið mann frá manni.