02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

120. mál, þingsköp Alþingis

Framsögum. minni hlutans (Bjarni Jónsson):

Ekki mun jeg ganga frá orðum mínum. En ekki lá það í þeim, að meðhaldamenn frumv. væru sama sinnis og Mörður, heldur vitnaði jeg að eins í Njálu, því það vita allir, að eiðstafurinn er þaðan tekinn eftir Merði, í viðskiftum hana og Flosa. Ef þetta á að skiljast sem svívirðing, þá er það af því, að sök bítur sekan, en ekki var sá tilgangur minn: Háttv. framsögum. meiri hl. (J. M.) getur lagt sína skoðun í orðin, þess að hann drótti þó ekki röngu að mótstöðumönnunum.

Jeg skal geta þess út af því, sem jeg sagði, að ekki væri rjett að girða fyrir það, að formenn gætu orðið framsögumenn, að vel getur komið fyrir, að í tilteknu máli sje formaður nefndarinnar sá eini maður, sem vit hefir á málinu. T. d. ef lögfræðingur væri formaður í mentamálanefnd, og lögfræðilegt frumv. væri þar til meðferðar. Þá er auðvitað sá lögfróði maður sjálfkjörinn til framsögunnar.

Háttv. framsögum. meiri hl. (J. M.) sagði, að fjárveitingarvaldið væri ekki lagt í hendur fjárlaganefndar. En því getur hann ekki neitað, að henni er í Nd. veitt neikvæðisvald, og í Ed. fullkomið neikvæðisvald. Það er undarlegt af meiri hlutanum, að telja sjer leyfilegt, að setja slíkt í lög, er svo mjög raskar jafnvægi í atkvæðum manna, svo að þeir, sem ekki eru fremstir í fjárlaganefndar kapphlaupinu, missa af atkvæði sínu. Þótt þetta sje ekki brot á einhverri sjerstakri grein í stjórnarskránni, þá er það brot á anda hennar og almennum jafnrjettishugmyndum.

Háttv. framsögum. meiri hl. (J. M.) sagði, að jeg hefði viljað gjöra lítið úr fjárveitingarvaldi Alþingis. Þetta er ekki rjett, en mjer þótti tillögum um fjárlögin gjört hærra undir höfði en öðrum tillögum. En þetta er að eins bragð hans, sem venjulegt er í kappræðum, og vil jeg ekki ávíta hann fyrir það.

Ef menn á annað borð vilja hafa þetta meiri hluta ákvæðisvald um fjárlögin, þá mæli jeg með því, að samþyktur verði 2. liður á þgskj. 670.

Að svo mæltu get jeg sneitt hjá því, að segja meira, með því að hvorki hafa komið fram nýjar skýringar nje röksemdir í málinu.