02.09.1915
Neðri deild: 49. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

120. mál, þingsköp Alþingis

Framsögum. meiri hl. (Jón Magnússon) :

Mjer kom það ekki á óvart, þó að háttv. þm. Dal. (B. J.) þyrði ekki að standa við aðdróttun sína, og skal jeg svo ekki minnast á það frekar.

Háttv. minni hluti vill, að þingmenn fái að láta vera að greiða atkvæði við nafnakall. Þar hlýt jeg að vera á öðru máli. Jeg verð að álíta það mjög óheppilegt, sem nú er jafnvel farið að tíðkast hjer í deildinni, að ekki greiði 1/3 deildarmanna atkvæði um áríðandi mál við nafnakall. Annarstaðar er það álitin bein skylda, að greiða atkvæði um öll mál, sem nokkru varða, nema gildar ástæður sjeu til. Nefndin leggur mikla áherslu á þetta atriði. Hafi menn ekki áttað sig á málinu, sem fyrir liggur, þá er sjálfsagt af hverjum þingmanni að segja nei, því að það er oftast ábyrgðarminst, að hafa óbreytt það ástand, sem er.