07.08.1915
Neðri deild: 27. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

93. mál, hagnýting járnsands

Flutningsm. (Jón Jónsson):

Mál það, sem hjer liggur fyrir, er nýtt hjer á þingi og allþýðingarmikið. Við, sem höfum gjörst flutningsmenn að þessu frumvarpi, höfum að vísu athugað málið nokkuð, en þó ekki haft tíma til að kynna okkur það eins og skyldi. Skal jeg nú skýra frá því, sem jeg veit um undirbúninginn.

Í fyrra sumar var enskur maður að nafni Lambert á ferð um Fljótsdalshjerað til að leita að járnsandi (volcanic sand). Hann fann engan nýtilegan sand við Lagarfljót, en aftur á móti fann hann járn í sandinum við Jökulsá. Fór hann með henni endilangri alt til sjávar og komst að raun um, að sandurinn var allálitlegur. Fór Lambert svo að kynna sjer, hver yfir landi setti að ráða þar, sem tiltækilegast var að byggja höfn við Hjeraðsflóa, en það var Magnús prestur Blöndal í Vallanesi. Samdist nú með þeim Magnúsi, Þórarni B. Guðmundsson og Magnúsi lögmanni Gíslasyni, að prestur legði til við kirkjustjórnina; að þessi atriði yrði tekin upp í fullnaðarsamninga um lóðarrettindi við Hjeraðsflóa :

1. Leyfi til að gjöra höfn við Unaós og öll nauðsynleg mannvirki, sem standa í sambandi við hafnargjörð þar, þar á meðal :

a) að breyta klöppinni,

b) að sprengja sker og klappir úr ósnum,

c) að grafa niður Selfljótsósinn,

d) að gjöra hafnarkví með hafnarvirkjum þar, og

e) taka sand, grjót, möl o. s. frv. hvar sem er í landareigninni.

2. Leyfi til að fá land til bygginga og annarra nauðsynlegra afnota svo langt upp með Selfljóti, sem þörf er á.

3. Samningurinn skyldi gilda um 50 ár með forgangsrjetti til endurnýjunar að þeim tíma liðnum.

En ekkert ábyggilegt svar fjekkst um eftirgjald eftir lóðina frá sjera Magnúsi. Sömuleiðis hefir hlutafjelagið »Framtíðin« á Seyðisfirði leyft óhindraðan aðgang og afnot af lóð þess á Unaósi með samþykki landeiganda. Þetta verslunarfjelag hefir sem sje haft þar verslunarhús og lóð til afnota.

Enn fremur er samningur fullgjörður um 50 ára leigu á hálfum Lagarfljótsfossi. Í samningnum stendur, að leigutaka sje heimilt að byggja eða láta

byggja aflstöð eða aflstöðvar, verksmiðjuhús eða önnur nauðsynleg mannvirki, og nota til þess, án frekara endurgjalds, landrými það, óyrkt, í landeign Stórasteinsvaðs, er nauðsyn krefur. Enn fremur skal honum heimilt, að leiða aflið um landeignina eftir þörfum. Í brjefinu stendur, að svohljóðandi símskeyti hafi verið sent:

»Landlicence to be obtained. Althing likely Juli August. Other agreements in hand«.

Það er enskt fjelag, sem hygst að vinna sandinn og hagnýta. Það er í London og heitir S. & O. Company. Fjelagarnir heita Simpson og Ovialt. Þeir hafa sent skjöl viðvíkjandi einkaleyfinu til utanríkisráðuneytisins danska, en þau eru ekki enn komin til hins íslenska stjórnarráðs. Til sönnunar því, að þetta sje á rökum bygt, skal jeg með leyfi hæstv, forseta, lesa upp brjef, sem jeg hefi í höndum, til Þórarins B. Guðmundsson frá þessu fjelagi. Það er svona: »Th. B. Guðmundsson.

Dear sir. Refering to our conversation we shall esteem it a favour if you will enquire of the minister of Iceland as to whether our proposals relating to volcanic sand, which we submitted to the Foreign secretary of Denmark last year have yet been disclosed to the government of Iceland. If there have not, we will (if he so advices us) place before the government of Iceland direct the proposals which we made to Denmark.

Yours truly Simpson & Ovialt. Brjefið er dagætt 28. apríl 1915. Maður sá, sem hjer er nú staddur og veitt er einkaleyfi eftir frumvarpi þessu, til að hagnýta sandinn, hefir verið umboðsmaður fjelagsins hjer á landi. Einkaleyfið telur hann nauðsynlegt að fá á þessu þingi. Og þar sem nú er nokkuð liðið á þingtímann og umsókn fjelagsins ekki enn komin hingað, tók Þórarinn B. Guðmundsson það ráð, að sækja um einkaleyfið í sínu nafni, til að geta komið málinu í æskilegt horf fyrir fjelagið. Stofnfje þess segir hann að sje 3 miljónir sterlingspunds. Það hafi fundið nýja aðferð til að búa til stál úr járni og hafi bækistöðvar í ýmsum löndum. Hann segir, að að eins sje ætlast til, að taka sand fyrir utan netjalög í sjó. Sandinn á að soga upp af mararbotni með dælum. Ekkert firma segir hann að sje til, sem hagnýti sand á þennan hátt, annað en þetta eina.

Þessi maður hefir nú tjáð mjer, að hann sje reiðubúinn til að fá bretska konsúlinn hjer til að útvega Alþingi upplýsingar um fjelagið. Hefir hann talað um að fá þær hjá Foreign Office Bank of London eða Bank of England, því að vitanlega verður að byggja allar framkvæmdir í málinu á þessu enska fjelagi.

Nú hefi jeg heyrt á ýmsum þingm., að þeir bera ekki fullkomið traust til Þórarins B. Guðmundsson, og margir þekkja hann alls ekkert. Gæti það spilt fyrir framgangi málsina, og er þó maðurinn duglegur og ötull og vel að sjer og ber gott skyn á fjármál. Það hefir því orðið að ráði, að öðrum manni til, Magnúsi yfirdómslögmanni Gíslasyni á Eskifirði, yrði veitt einkaleyfið með Þórarni. Magnús hefir sent háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) svo hljóðandi símskeyti:

»Tobogi segir þið teljið rjettara jeg sæki um »sandconsession« með honum. Ef þú heldur að það yrði að nokkru liði fyrir málefnið, bið jeg þig undirskrifa umsóknina fyrir mig. Magnús Gíslason«.

Jeg hefi heyrt því fleygt hjer í þinginu, að danskur maður að nafni Steen strup, sje að hugsa um að sækja um samskonar einkaleyfi, og að það, gæti ef til vill verið álitlegra. Til þess að takaaf allan vafa um þetta, skal jeg lesa hjer upp brjef frá þessum manni, sem hann skrifaði í dag Þórarni B. Guðmundsson í viðurvist minni. Brjefið hljóðar svo:

»Hr. Th. Gudmundsen. Herved erklærer jeg ikke at ville søge Konsession paa Vulkan-Sand og ikke at have kendt til dette Sand för De fortalte mig derom.

Svend Steenstrup«.

Þórarinn B. Guðmundsson hefir skýrt mjer frá, að áformað sje að flytja út 1 miljón smálesta af nothæfum sandi, og yrðu tekjur landsjóðs þá eftir frumvarpinu af útfluttum sandi 150,000 kr. auk 4% af ársarði af fyrirtækinu. Þetta væri allálitlegur skildingur. Gæti líka komið til mála að áskilja meira gjald í landsjóð af smálest hverri.

Eins og jeg hefi skýrt frá, eru framkvæmdir allar í málinu miðaðar við Hjeraðsflóa. Auk þessara tekna, sem landsjóður fengi, liggur í augum uppi, hver hagur það væri fyrir Fljótsdalshjerað, ef höfn yrði bygð við Flóann, því að það hefir lengi verið mikið mein Hjeraðabúum, að höfn vantar þar. Það hefir alt af verið talið ókleift kostnaðarins vegna að byggja slíka höfn. Í frumv. er áskilið, að höfnin verði opin til almenningsnota. En nú eru fleiri staðir á landinu, þar sem vinna mætti járnsand, t. d. við Hvítá í Borgarfirði og annað hvort við Ölfusá eða Þjórsá, jeg veit ekki hvort er. Um fleiri staði gæti verið að ræða, þó að það sje órannsakað.

Nú er gjört ráð fyrir því í frumv., að einkaleyfið gildi kringum alt landið. Er það eðlilegt, að áskilið sje, að samkepni sje útilokuð, vegna hins gífurlega kostnaðar, sem fyrirtæki þetta hefði í för með sjer. En þó gæti komið til mála í nefnd, að takmarka leyfið við vissa staði í landinu.

Í sýnishorninu af sandinum við Hjeraðsflóa, er Þór. B. Guðmundsson hefir haft með sjer hingað, reyndist 13,8% járn við efnarannsókn hjer, eftir brjefi frá efnafræðingi Ásgeiri Torfasyni. En þessi sandur var tekinn á landi. Eru líkur til, að meira járnefni sje í sandinum úti á sjó.

Frumvarp þetta er samið í flýti, af því að því þurfti að koma inn í þingið fyrir ákveðinn tíma. En þó að misfellur kunni að vera á því, má laga það í nefnd. Vænti jeg svo; að þetta mál fái sæmilegar undirtektir í deildinni.

Skal jeg leyfa mjer að stinga upp á 5 manna nefnd að umræðunni lokinni.