26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

93. mál, hagnýting járnsands

Framsögum. (Jón Jónsson) :

Í brtt. nefndarinnar eru tvær prentvillur, sem jeg vil biðja háttv. deildarmenn að athuga. Þær eru báðar í niðurlagi seinni brtt.: »fyrirtækisins« fyrir: fyrirtæki og »7%« fyrir: 4%. Þetta verður að sjálfsögðu leiðrjett, ef málið gengur til 3. umræðu.

Nefndin hefir till getað orðið sammála, og leggur til, að frum varpið verði samþykt með nokkrum breytingum.

Nefndinni þótti ekki ráðlegt, að veita einkarjettinn fyrir alt landið, heldur vildi hún takmarka hann við Hjeraðsflóa einan.

Þegar nefndinni hafði komið saman um það, ljet hún falla niður eftirgrenslanir um fjelag það, sem hjer er átt við. Okkur fanst það ekki skifta svo miklu máli, hvernig hagur þess væri, þar sem einkaleyfið var takmarkað við einn stað, og því ekki mikið í hættu lagt. Málið er líka seint á, ferðinni, og svo vaxið, að rjett er að afgreiða það nú frá þinginu, því ef það tefst, þá getur það orðið til þess, að það strandi algjörlega.

Þó að ýmislegt megi segja um málið, eins og það er í garðinn búið, þá vonum við þó, að það geti orðið landinu að gagni, að semja þessi lög. Að því er hættuna snertir, eða hvort nokkuð verður gjört í málinu eða þá á rjettan hátt, þá skal jeg taka það fram, að hæstv. ráðherra hefir látið þess getið við nefndina, að hann mundi ekki veita einkaleyfið, nema hann fengi vissu fyrir því, að eitthvað yrði gjört í málinu, og ættu þessi ummæli hans að vera nægileg til þess, að menn ekki hikuðu ekki við að samþykkja frumvarpið.

Athygli nefndarinnar hefir verið vakin á því, að ekki væri rjett að orði komist í síðari brtt. hennar, þar sem talað er um að borga skuli útflutningsgjald »af hverri smálest, sem út er flutt«. Rjettara væri að segja, að útflutningsgjald skuli greiða af hverri smálest, sem framleidd er. Jeg efast um, að hægt sje að fara í kring um lögin, þó að þetta orðalag verði látið halda sjer, því að eftir því orðalagi verður hver sá, sem flytur út þenna járnsand, að borga útflutningsgjald, hvort sem það er leyfishafi eða einhver annar. En ef það kæmi fram við umræðurnar, að mönnum þætti þetta að einhverju leyti athugavert, þá er. nefndin fús á að taka það til greina.

Það hefir orðið að ráði í nefndinni, að bæta við öðrum manni í 1. gr., sem einkaleyfið má veita ásamt þeim, sem áður er þar til nefndur. Vonar nefndin, að deildin telji það til bóta: Maðurinn er lögfræðingur, og er jafnan talið — hyggilegt, að þannig lærðir menn sjeu við slík fyrirtæki.

Hvað snertir síðari hluta brtt. við 1. gr., þá virtist okkur ekkert geta mælt á móti því, sem þar er ákveðið, því að það verður alt af undir þinginu komið, hvort einkarjetturinn verður frekar veittur en hjer er gjört ráð fyrir. Aftur á móti virtist okkur það fremur vera hvöt fyrir leyfishafana, að starfa eitthvað í málinu, ef þeir ættu fyrir fram víst, að þurfa ekki að óttast hættulega keppinauta, því að það vakir aðallega fyrir nefndinni, að eitthvað verði gjört í málinu. Enda þýðir ekkert að vera að semja lög, ef engin von er um, að þau hafi nokkra þýðingu.

Nefndin hefir lagt til, að færa útflutningsgjaldið af hverri smálest úr 15 aurum upp í 50 aura. Við urðum varir við, að leyfisbeiðandi, hr. Þór. B. Guðmundsson er óánægður með þessa hækkun. Hann segir, að hver smálest af sandinum sje ekki dýr, og þá er ekki nema eðlilegt, að hann setji fyrir sig hvern eyri, sem gjaldið hækkar um, einkum þar sem vinslan á sandinum mun vera afardýr. En hvernig sem það er, þá hefir nefndin orðið sammála um, að láta þetta arka að auðnu. Ef til vill þykir mönnum rjettara, við frekari athugun, að fara hjer einhvern milliveg, og má þá breyta þessu til 3. umræðu.

Þá þótti nefndinni líka vissara að ákveða gjaldið af hverri smálest af útfluttu járni. Vakir þar fyrir henni, að ef til vill verði hægt að vinna járnið hjer, sem æskilegast væri, því að þá hefði fjelagið hjer að sjálfsögðu fastari setu, og yrði sennilega að meiru gagni.

Ekki held jeg, að ástæða sje til að óttast innflutning útlendinga vegna þessa fyrirtækis. Jeg gjöri ekki ráð fyrir, að aðrir starfi en menn, sem mikla þekkingu hafa, en alls ekki neinn tartaralýður.

Jeg sje svo ekki ástæðu til, að fara fleiri orðum um breytingar þær, sem nefndin leggur til að gjöra á frv. Í nefndarálitinu stendur, hvern undirbúning málið hefir fengið. Hann er að vísu ekki mikill, en bendir þó í þá átt, að talsverður hugur sje í fjelagi einu ensku, að fá rjett til að vinna þenna sand.

Að lokum vil jeg mæla með því, að frumvarpið verði samþykt með þeim breytingum, sem nefndin hefir lagt til.