26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1865)

93. mál, hagnýting járnsands

Ráðherra:

Svo fór, sem mig varði, að háttv. framsögum. (J. J.) gæti ekki komið með fullnægjandi svör í þessu máli, enda var ekki við því að búast. Í gær var rætt hjer um mál, sem sjer þekkingu þarf til að dæma um. Nú er um að ræða mál, sem enn meiri sjer þekkingar þarf við, ef menn eiga að geta ráðið málina til lykta á öruggum grundvelli.

Hv. 1. þm. (G.-K. (B. K ) kom fram með ýmsar athugasemdir, sem mjer höfðu ekki komið til hugar, enda brestur mig þekkingu á við hann í þessum efnum, þótt hann því miður sje ekki svo fullkominn, að hann sje fær um að leiða menn í allan sannleika. Vjer erum hjer að fljetta reipi úr sandi, og er oss því skylt að gæta þess, að ekki sje stráð sandi í augu vor.

Háttv. framsögum. (J. J.) sagði, að engin hætta væri á því að veita leyfið, hvernig sem um fyrirtækið færi.

Ekki get jeg verið á sama máli og hann um það. Hugsum oss að fyrirtækið væri gott; þá skiftir miklu, hve nær á því væri byrjað, og hverjum böndum vjer yrðum bundnir. Hjer er að ræða um 50 ára einkaleyfi, og vel getur hugsast, að aðrir, sem færari væru til framkvæmda, yrðu þannig útilokaðir frá verkinu. Jeg játa, að hjer er um að ræða mikilsvert framtíðarmál fyrir hjeraðið og landið, ef það á að koma að því gagni, sem umsækjendurnir, nefndin og þingið gjöra sjer vonir um. En það getur líka orðið humbug og til skaða og skammar þingi og þjóð, því að jeg endurtek það, að mjög varlega er farandi í að gefa slík einkaleyfi, til þess að taka gæði landsins og verðmæti, og útiloka þannig aðra, sem færir væru til framkvæmda.

Háttv. framsögum. (J. J.) taldi það sönnun þess, að fyrirtækið væri gott, að umsækjendur ýfðust við hækkun afgjaldsins. Ef þeir hefðu ekki trú á fyrirtækinu, þá mundu þeir láta sig litlu skifta, hvort útflutningsgjaldið væri hátt eða lágt. En þetta er hinn mesti misskilningur. Það er ekki hægt að gjöra ráð fyrir því, að umsækjendur, nje nokkur Íslendingur, geti komið þessu verki í framkvæmd. Annað liggur því ekki fyrir umsækjendunum en að selja leyfið, sem auðvitað verður misjafnlega seljanlegt, eftir því hversu útflutningsgjaldið er ákveðið og önnur kjör. Þess vegna er það engin sönnun fyrir trú eða vantrú umsækjendanna á fyrirtækinu, þótt þeir reyni til að útvega leyfið með sem bestum kostum.

Jeg er samþykkur háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), um að oss muni veita erfitt að hafa fullkomið eftirlit með fyrirtækinu, og sennilega þarf að ákveða nánara, hvað átt sje við með járnsandi.

Mjer er sagt, að 7% sje prentvilla fyrir 4%, en þá verð jeg að spyrja að því, hvernig því viki við, að leyfishöfum er ætlað að greiða lægra gjald en samkvæmt lögum nr. 57, 1913 var áskilið á Pál Torfason, fyrir einkarjett til saltvinslu.