31.08.1915
Neðri deild: 47. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

93. mál, hagnýting járnsands

Framsm. (Jón Jónsson) :

Nefndin á hjer nokkrar brtt., sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefir játað að væru til bóta. Það hefir verið fundið að því, að það væri ekki getið um það, hvort sandurinn væri hreinsaður eða óhreinsaður. Okkur virðist ekki ástæða til að óttast, að sandurinn verði fluttur út óhreinsaður, því það mundi ekki borga sig, svo lítið sem járnið er í sandinum. Við höfum lagt til, að 5. gr. væri orðuð upp, svo að skýrt væri tekið fram, að gjald væri lagt á það, sem framleitt væri, en ekki það, sem útflutt væri, eins og áður stóð, og enn fremur, að gjald skuli lagt jafnt á járn í stöngum eins og annað, svo ekki sje hægt að komast hjá að borga ákveðið gjaldið af smálestinni.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um brtt. okkar nefndarmanna, en háttv. þm. G.-K. (B. K.) hefir einnig komið fram með brtt., og vildi jeg fara um þær nokkrum orðum. Brtt. hans eru þannig vaxnar, að verði þær samþyktar, þá er frumvarpinu gjörbreytt. Hann vill í fyrsta lagi breyta fyrirsögn frumv. Jeg sje nú ekki mikla nauðsyn á því, en satt að segja finst mjer það ekki skifta miklu máli. Þá vill hann ekki veita einkaleyfið upp á nafn. Mjer finst þessi breyting hans bæði vera ósanngjörn og ónauðsynleg. Þessir menn, sem um er talað að einkaleyfið fái, hafa mest til matarins unnið, enda er það að öllu leyti á valdi ráðherrans, að setja þau skilyrði, sem honum sýnist. Þórarinn hefir barist fyrir þessu máli af miklum dugnaði, og hefir gjört okkur það skiljanlegt, að þetta geti orðið okkur að miklu gagni.

Það stendur á þgskj. 603 grein, þar sem talað er um, að taka eigi sandinn 60 faðma fyrir utan landhelgislínuna. Þetta hlýtur að vera hugsunarvilla, því ekki getum við sett nein ákvæði um það, sem fram fer fyrir utan landhelgislínuna.

Þá hefir háttv. sami þm. (B. g.) talið það nauðsynlegt, að setja ráðherranum skilyrði fyrir því, hve nær hann megi veita þetta einkaleyfi. Það stendur svo hjá honum : »Einkaleyfi þetta skal þó eigi veitt, nema ráðherranum sje afhent greinileg áætlun um, hvernig sandvinslunni skuli fyrir komið, og hvað kostar að koma fyrirtækinu á fót, full trygging fyrir því, að nægt veltufje fáist, til þess að koma fyrirtækinu á fót og að reka það, svo og trygging fyrir því, að fyrirtækið verði sett á stofn samkvæmt áætluninni«. Þetta virðist okkur vera alveg ónauðsynlegt. Ráðherrann gjörir auðvitað allar þær ráðstafanir, sem honum þykja nauðsynlegar. En aftur á móti viljum við hafa ákvæði í frumv. um það, að einkaleyfið verði upphafið, svo framarlega sem fyrirtækið verði ekki komið á fót fyrir vissan tíma.

Þá vill háttv. þm. (B, g.), að önnur gr. falli. burt. Hún er um það, að einkaleyfishafi megi með samþykki stjórnarráðsins framselja öðrum manni einkarjett sinn, eða öðru fjelagi, ef maðurinn eða fjelagið sje heimilisfast hjer á landi. Þetta álítum við líka alveg ónauðsynlegt. Við viljum treysta stjórninni til þess, að samþykkja ekki skiftin, svo framarlega sem hún álítur ástæðu til að óttast illar afleiðingar af því. Aftur á móti getur verið athugavert, að útiloka það, að slík skifti geti átt sjer stað, því það er hugsanlegt, að það gæti orðið til þess, að fyrirtækið kæmist ekki á fót. Nefndin hefir tekið það fram, að hún búist ekki við því, að innlendir menn hafi kraft til þess að hagnýta sjer þennan sand. Jeg hygg, að það sje ekki hægt að hrekja það, og því viljum við ekki útiloka útlendinga frá því, að geta átt þátt í fyrirtækinu. Að gjðra það er alveg sama sem að hætta við fyrirtækið eða fella frumvarpið. Mjer virðist það ekki vera nein ástæða til að óttast nokkuð, þó við samþykkjum þetta frumv.; engin hætta getur stafað af því að neinu leyti. Þetta einkaleyfi nær ekki til nema eins flóa á öllu landinu. Þar er hafnleysi og sandar, en kæmi þar höfn að tilhlutun þessa fjelags, sem hjer er um að ræða, og yrði hún til afnota fyrir nærliggjandi hjeruð, þá gæti það orðið til ómetanlega gagna.

Þá kem jeg að brtt. háttv. þm. (B. K.) við 3, gr. Það er ákveðið svo í frumvarpinu, að verði fyrirtæki þetta eigi komið á fót þegar fimm ár eru liðin frá dagsetningu einkaleyfisins, þá geti ráðherra sagt upp einkaleyfinu með eins árs fyrirvara, svo framarlega sem það sje ekki rekið samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett eru í leyfisbrjefinu. Þessu vill hann breyta þannig, að hægt sje að segja upp leyfinu strax með eins árs fyrirvara, eða það er með öðrum orðum, að breyta þessum sex árum, sem ákveðin eru í frumvarpinu, í eitt ár, svo framarlega sem ekki eru öll skilyrði uppfylt, sem getið er um í frumv. Okkur virtist, að ekki væri ástæða til þessara breytinga, því að þær gætu orðið því til hömlu, að fyrirtækið kæmist á, en annars til lítils eða einskis gagns. Annars leggjum við ekki sjerlega mikla áherslu á þetta, teljum það ekki svo mikils varðandi.

Þá kem jeg að næstu brtt. háttv. þm. (B. K.), við 4. gr. frumv. Í frumv. er það ákveðið, að stjórnarráðið megi hafa nauðsynlegt eftirlit með stjórn og rekstri fyrirtækisins, en þingmaðurinn vill láta það hafa leyfi til að hafa einnig eftirlit með reikningsfærslunni. Við getum fallist á þessa brtt. og álítum, að hún geti verið til bóta.

Þá vill háttv. þingm. (B. K.) einnig breyta 5. gr. frumv. Hann vill láta greiða 50 aura í landssjóð fyrir hverja lest af járnefni því, sem unnið er úr sandinum á landi, en 1 krónu fyrir hverja lest, ef járnefnið er unnið úr sandinum á sjó. Jeg skal játa það, að nefndinni hefir ekki komið til hugar að gjöra ráð fyrir því, að járnið yrði unnúr sandinum á sjó. Okkur hefir skilist svo, að til þess að hagnýta þennan sand, þyrfti svo mikinn vjelaútbúnað, að það væri óhugsanlegt, að mögulegt yrði að komast hjá því að fara með sandinn í land, svo hann yrði unninn. Við höfum því ekki sjeð neina ástæðu til að taka þessa brtt. til greina. Okkur finst hún sje með öllu óþörf, því að vitanlega er frumvarpið alt bygt á því, að leyfishafi fái leyfi til að vinna sandinn á landi. Þessi brtt. virðist okkur mjög barnaleg og alsendis óþörf. Nefndin verður því eindregið að leggja á móti henni.

Brtt. háttv. þm. (B. K.) við 8. gr. teljum við til bóta, og jeg get lýst yfir því fyrir hönd nefndarinnar, að hún getur aðhylst hana.

Nefndin er öll sammála um það, að engin hætta geti stafað af því, að þetta frumvarp fái fram að ganga, og þó það verði samþykt óbreytt.

Jeg gleymdi áðan að geta um brtt. háttv. þm. (B. K.) við 7. gr. Hann vill ekki láta forgangsrjett til einkaleyfis ná til annara staða á landinu; að eins að einkaleyfið nái til Hjeraðsflóans. Okkur virðist engin hætta geta verið á því, að það gæti orðið hagur fyrir landið. Líkur eru miklar til þess, að stórhagur geti orðið að þessu fyrir landssjóðinn; auk þess er ekki hægt að fá þetta einkaleyfi nema með samþykki stjórnarráðsins, og það er vitanlegt, að stjórnarráðið muni gjöra það að skilyrði, að. ákveðin trygging verði sett fyrir því, að ekki verði svik úr þessu öllu saman: Þegar málið er þannig vaxið, þá getum við ekki sjeð, að minsta hætta sje á ferðum.