20.08.1915
Neðri deild: 38. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

52. mál, tún og matjurtagarðar

Þórarinn Benediktsson:

Jeg hefi í rauninni ekki miklu við að bæta. Jeg tel það óhapparáð að stytta tímann. Ástæðuna tók jeg fram áðan, þá, að búnaðarsamböndin hefðu ekki svo mikinn kraft og fje, að þau gætu framkvæmt mælingarnar í flýti, eins og nefndin ætlast til, nema með því, að leggja öll önnur störf sín til hliðar, og það álít jeg mjög óheppilegt.

Það hefir vakað fyrir mjer, að hafa tímann rúman, svo hægt væri að samrýma þetta öðrum störfum búnaðarsambandanna.

Svo var það 10 kr. hámarkið, sem jeg vildi minnast dálítið á. Þetta hámark er ekki ósanngjarnt, vegna þess; hvernig reglum um niðurjöfnun gjaldsins á landssjóð og jarðeigendur er fyrir komið. Það eru ekki svo fáar jarðir, sem eru svo hundraðamargar, jafnvel þótt tún og garðar þar sjeu ekki stærri heldur en á miklu minni jörðum.

Víða á landinu eru jarðir, sem eru metnar afarhátt að hundraðatali, án þess að það standi í hlutfalli við stærð túna eða annars ræktaðs lands. Þannig er dæmi þess á Austurlandi, að einstök jörð er metin svo hátt, að hún er að hundraðatali meira en helmingur þess hrepps, sem hún er í. Á slíkri jörð mundi mælingarkostnaður verða afarhár og ósanngjarn í alla staði. Til þess að fyrirbyggja misrjetti, var hámark sett fyrir því, hve gjaldið mætti stíga hátt á hverri einstakri jörð. Gjöri jeg því ráð fyrir, að háttv. deild sjái, að það myndi verða afaróvinsælt, að hafa ekkert takmark.

Öðru en þessu þarf jeg ekki að svara háttv. framsm. (G. H.)