26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Hannes Hafstein:

Háttv. framsögum. minni hl. (Þ. B.) hefir játað, að starfið, sem hjer er um að ræða, hafi verið bæði mikið og gott. Bein afleiðing af þessu er það, að nú er safnið orðið svo mikið og gott, að það verður mikið starf framvegis að halda því í sama horfi og nú er. En ef starfið á að halda áfram að vera gott, þá þarf að hækka launin, því það er ómögulegt að ætlast til þess, að vel hæfir menn leggi fram alt starfsþrek sitt fyrir þau laun, sem nú eru veitt til þessa starfs.

Það er búið að vinna svo mikið og gott verk þarna, að það má ekki fara í kaldakol; fyrir sakir óhæfilegrar »sparsemi« af þingsins hálfu.