26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Framsm. minni hl. (Þórarinn Benediktsson):

Jeg þarf ekki miklu til að svara, þar sem ekkert hefir komið fram í þessum umræðum frá háttv. meiri hluta fram yfir það, sem stendur í nefndaráliti hans. Háttv. framsögum. meiri hl. (M. Ó.) lagði áherslu á það, að engin vissa væri fyrir því, að tillögur milliþinganefndar yrðu teknar til greina. Jeg skal nú ekkert um það fullyrða, en mjer finst, að vel megi bíða eftir tillögum hennar og velja svo úr þeim. Jeg get enga samkvæmni í því fundið, að skipa nefnd, sem kostar ærið fje, til þess að undirbúa mál undir þingið, og að þingið sjálft taki svo fram fyrir hendur nefndarinnan og fari að slá því föstu, sem nefndin átti að gjöra; tillögur um, þinginu til leiðbeiningar. Jeg vil því leggja áherslu á, að enga, nauðsyn beri til að flýta þessu svo mjög, að ekki megi vel bíða eftir tillögum nefndarinnar: Háttv. framsm. (M. Ó.) lagði áherslu á, að þetta þyldi enga bið. Fór hann hjartnæmum orðum um það, að ekki dygði að láta manninn svelta. Jeg veit ekki vel hverjar líkur eru til þess, að hann svelti þess vegna, að laun hans sjeu svo lág, en ekki þykir mjer það líklegt, vegna þess að mjer er kunnugt um það að hann hefir haft á hendi mikil störf aukreitis og vel borguð. Hann hefir t. d. haft með höndum útgáfu Fornbrjefasafnsins og fengið styrk til þess, bæði frá okkur og danska ríkinu. Enn fremur útgáfu Alþingisbóka, Sögufjelagið og ef til vill fleira. Hann hlýtur því að hafa álitlegar tekjur, þegar alt er talið.

Háttv. framsögum. (M. Ó.) fjölyrti og mikið um, að ekkert lægi fyrir frá mjer í þessu máli, er sýndi, að þetta væri nema; orðin tóm, að jeg viðurkendi, að landsskjalavörðurinn væri góðs verður fyrir vel unnið starf við safnið. Jeg vildi með því, er jeg sagði, viðurkenna, að hann ætti þóknun skilið fyrir vel unnið starf við Landsskjalasafnið, og þess vegna mundi jeg styðja það, að hann fái persónulega launaviðbót í fjárlögunum. Að jeg ekki kem með brtt. um þetta. við 3. umr. þarf engan að undra því jeg álít að það standi öðrum nær en mjer, en jeg myndi samt styðja hana þá ef hún kæmi fram og væri hófleg.

Þá talaði og háttv. framsm. (M. Ó.) um, að nú þegar þyrfti einhver að fara að undirbúa sig, til þess að takast þetta starf á hendur síðar meir. Mig grunar nú satt að segja, að það myndu vera talsvert margir, sem ekki þyrftu neins sjerstaks undirbúningse með, t. d. Hannes Þorsteinsson o. fl. Jeg sje enga þörf á því, að fara nú að stofna þetta embætti, eða hækka laun landsskjalavarðarins, til þess að einhver gæti farið að undirbúa sig undir starfið, þar sem og líka eru: engar líkur til þess, að svo bráðlega þurfi að fara að skifta um mann.

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) kvað álit meiri og minni hluta nefndarinnar fara mjög saman í aðalatriðunum í þessu máli. Þessu neita jeg algjörlega, að því er snertir niðurstöður meiri og minni hlutans, og nægir mjer þar að skírskota til hvers nefndarálits fyrir sig. Sjest þar best, að okkur greinir á um það; sem er kjarni málsins.

Háttv. þm. Dal. (B. J:) kvað ómögulegt að komast af með minni laun en 3000 kr., eins og nú standi. Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvað honum finst í þessu efni, en hann ætti þó að vera sjálfum sjer svo samkvæmur, að hann vildi láta hækka kaup starfsmanna við önnur söfn á landinu. (Bjarni Jónsson: Við tökum þá forngripasafnsvörðinn fyrir næst). Já, jeg átti von á því, að þetta mál mundi ganga með dilk áður en langt líður. Jeg hefi nú ekki miklu fleira við að bæta, en skal þó taka það fram, út af því, því er háttv. þm. Dal. (B. J.) fjölyrti svo um, að þetta væri ekki embætti, heldur að eins sýslan, að ef frumvarpið verður samþykt, þá fæ jeg ekki annað sjeð en að með þessu sje stofnað skjalavarðarembætti. Annars er mjer nákvæmlega sama, hvort þetta heitir embætti eða sýslan.