26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Skúli Thoroddsen:

Án þess, að ætla mjer, að fjölyrða, um málefni það, er hjer um ræðir, vil jeg taka það fram, að jeg mun, við atkvæðagreiðsluna, fylgja tillögum meiri hlutans.

Jeg verð að álíta það í alla staði ósanngjarnt, að landsbókavörðurinn beri úr býtum 3000 kr. fyrir sitt starf; en dr. Jón Þorkelsson fái ekki nema 1800 krónur fyrir sína vinnu, þar sem hvortveggja staðan verður að teljast álíka þýðingarmikil, og vegleg, og starið mjög mjög svipað, er hvor um sig á af hendi að inna.

Jeg get því mjög vel skilið það, að dr. Jón Þorkelsson finni sig órjetti beittan, — telji sig ójöfnuði sæta, og vilji því fá rjettingu máls síns, eða hver myndi: eigi slíkt kjósa, ef í hans sporum væri?

Að hann hefir getað unað við þetta til þessa, stafar að eins af því, að hann er alkunnur dugnaðarmaður, svo að hann — þrátt fyrir annríkið við Landsskjalasafnið — hefir getað gefið sig við öðrum störfum jafnhliða, og átt þess vegna við sæmileg kjör að búa.

Nú er hann á hinn bóginn farinn að komast á elliárin, og er því tæplega hægt að búast við því, að hann geti, sem hingað til, hlaðið að mun á sig af aukastörfum, sjer til lífsframfæris.

Öllum, er til þekkja, er og kunnugt um það, hvílíkur verkmaður hann er, enda myndi og vandfenginn maður í hans stað, ef hann fjelli frá.

Það er því beinn gróði fyrir landið, að haga launakjörum hans svo, að hann geti nú hlíft sjer við aukastörfunum úr þessu, — haga þeim svo, að hann geti nú helgað alla starfskrafta sína þessu eina starfi, sem hann hefir unnið að af svo miklu kappi, að hann má vel telja 2–3 manna maka, enda landinu síst hagur, að neyða hann til þess — og það á gamals aldri — að verða að því — eða þrá — skifta kröftunum, og eiga það þá óunnið eftir, Landsskjalasafninu, og landinu, til ómetanlegs tjóns, ef hann fjelli frá, sem hann var manna færastur, að leysa fljótt, og vel, af hendi.