26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

91. mál, Þjóðskjalasafn Íslands

Framsögum. meiri hl. (Matth. Ólafsson):

Jeg hefi litlu við að bæta. Jeg er algjörlega samþykkur ástæðum þeim, er háttv. þm. N.-Íaf. (Sk. Th.) hafði fram að færa. Maðurinn, sem hjer er um að ræða, er farinn að bila að heilsu, enda orðinn roskinn, og er þess vegna nauðsynlegt, að styrkurinn sje hækkaður við hann, svo að safnið geti notið krafta hans óskertra, það sem eftir er.

Jeg mótmæli því, er háttv. framsm. minni hlutans (Þ. B.) sagði; að til sjeu, menn, sem sjeu færir um að takast þetta starf á hendur undirbúningalaust. Það er enginn slíkur maður til, þótt Hannes Þorsteinsson muni standa næst því, en þó mundi hann engu að síður þurfa undirbúnings við.

Jeg tel það ekki einungis rjett og sanngjarnt, heldur jafnframt hyggilegt, að gjöra þessa stöðu fasta, bæði til þess að umbuna þessum viðurkenda dugnaðarmanni, sem hjer á í hlut, fyrir mikið og vel unnið starf, og til þess að ljetta af honum striti nú, þegar hann er farinn að eldast og lýjast, og einnig til þess að tryggja það, að nýtur maður fáist til að taka við af honum, þegar hana missir við.