19.08.1915
Neðri deild: 37. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

73. mál, Siglufjarðarhöfn

Framsögum. (Matthías Ólafsson):

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem stendur í nefndarálitinu. Eins og það ber með sjer, hefir nefndin ekki getað fallist á, að nú, þegar rjétt engu er varið til að gjöra hafnir, sje lagt tiltölulega stórfje til hafnargjörðar á þessum stað, sem hvorki verður sagt um, að miði til þess, að auka framleiðslu, nje að draga úr hættum. En til þess að hjálpa viðkomandi mönnum til að koma fyrirtækinu á fót, vill nefndin leggja til, að landsjóður ábyrgist, ekki að eins það, sem farið var fram á að hann ábyrgðist, heldur einnig þá upphæð sem farið var fram á að hann legði beinlínis til, með öðrum orðum, að landsjóður ábyrgist 150 þús. kr., sem áætlað er að fyrirtækið muni kosta. Það er talsverður munur á því, hvort landsjóður ábyrgist lán til góðs fyrirtækis, eða hann leggur beinlínis fram fje til þess.

Jeg get ekki fallist á, að það sje á rökum bygt, sem haldið er fram í athugasemdunum við þetta frv., að sjálfsögð gróðsvon sje fyrir landsjóð af þessu fyrirtæki. Og meiri hluti nefndarinnar hefir líka skoðun á því og jeg. Í þessum athugasemdum er gengið út frá því, að tolltekjur landsjóðs aukist um 12 þús. kr. við það, að bryggjan verði bygð. Jeg get ekki sjeð, að þetta sje rjett. Jeg hygg, að ekki sje hægt að sanna, að fleiri skip sæki til Siglufjarðár, nema þau dragist þá frá öðrum stöðum á landinu. Og landsjóði má standa á sama hvort tolltekjurnar innheimtast á Siglufirði eða á Hjalteyri, eða jafnvel á Vestfjörðum, Væri það sannað, að þetta fyrirtæki gjörði það að verkum, að skip sæktu til Siglufjarðar, sem ella kæmu ekki til landsins, þá væri öðru máli að gegna. En svo er annað. Þó að eitthvað fleira af Norðmönnum kæmi hingað til síldveiða, væri það þá endilega hagur fyrir landið? Væri ekki betra að þeir kæmu alls ekki? Á þeirri skoðun er jeg að minsta kosti. Jeg álít, að ekki sje vert að greiða fyrir því, að fleira þyrpist hingað af útlendum vörgum, til þess að hremma björgina frá börnum landsins.

Annað mál er það, að þetta fyrirtæki mundi verða mjög arðberandi fyrir við

komandi hjerað, og með það fyrir augum er rjett að landsjóður styrki það, til þess að koma því á fót.