03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

3. mál, kosningar til Alþingis

Sigurður Sigurðsson:

Eins og háttv. þingmenn hafa sjeð, hefi jeg komið fram með brtt. við frv. á þgskj. 722 og 724.

Brtt. á þgskj. 722 fer fram á það, að kosning hinna landskjörnu alþingismanna fari fram sama dag og hinar almennu kosningar. Jeg hefi sett kjördaginn l2. júní, en legg þó ekki áherslu á þann dag; mjer er sama hvort það er 12. júní, 12. júlí eða 3. júlí 1916. Jeg er fús til samkomulags um að breyta deginum. Hitt er mjer áhugamál, að báðar kosningarnar fari fram sama dag.

Jeg hefi flutt þessa tillögu fyrir þá sök, að jeg tel hana miða í sparnaðaráttina, sem sje að nota ekki nema einn dag til kosninganna í stað tveggja. Og verður það alls ekki lítið, sem sparast með því sje alt tekið með í reikninginn.

Mjer skildist það vera aðallega tvent, sem háttv. framsm. meiri hlutans (J. M.) hafði á móti því, að kosning landskjörinna þingmanna og almennu kosningarnar færu fram á sama tíma. Fyrst það, að slíkt mundi brjóta í bág við bráðabirgða ákvæði stjórnskipulaganna, og í öðru lagi að ef kosningarnar færu fram á sama tíma, þá gætu ekki þeir, sem í kjöri væru við landskosningarnar, gefið kost á sjer í kjördæmunum, ef þeir fjellti við landskjörið.

Jeg get ekki sjeð að það komi að nokkru leyti í bága við stjórnarakrána, þó kosið sje sama daginn, og hitt atriðið virðist mjer horfa svo við, að sá sem staðið hefir á lista við landskosningar og fallið, að hann þá eigi enga lagalega eða siðferðislega kröfu til að fá að bjóða sig fram í einstökum kjördæmum. Þeir sem falla, geta þá ekki boðið sig fram við kjördæmakosningar, og er það í mínum augum kostur, og þetta mælir einmitt með, að láta báðar kosningannar fara fram á sama degi, auk þess sem við það sparast mikið ómak og fje.

Um hina brtt. mína á þgskj. 724 skal jeg geta þess; að hún miðar að því sama og hin, að kosningar landskjörinna og kjördæmakosinna þingmanna fari fram á sama degi framvegis, sem sje hinn lögákveðna kjördag, 1. vetrardag. En við þetta er þó að athuga, að þingrof ruglar kjörtíma þjóðkjörinna þingmanna, svo mjer er þessi tillaga ekki eins föst í hendi og hin.

Áður en jeg sest niður vildi jeg víkja fáeinum orðum að brtt. minni hlutans á .þgskj. 685 Jeg er þakklátur háttv. minni hl., að því leyti sem hann er

sammála mjer um, að báðar kosningarnar verði látnar fara fram sama dag, eins og brtt. hans og miða til. En jeg er honum ósamþykkur um, að heppilegt sje, að breyta hinum lögboðna kjördegi, sem nú er 1. vetrardagur. Þegar kosningalögin voru áður til meðferðar hjer í deildinni, var einmitt mikill ágreiningur um, hvaða dagur skyldi vera kjördagur. Eftir mikla umhugsun og bollaleggingar, komust menn að þeirri niðurstöðu, að 1. vetrardagur mundi þægilegastur kjördagur öllum almenningi. Jeg held að 1. júlí sje ekki hentugur kjördagur. Þá er mikill anna tími hjá öllum þorra manna, svo að þeir munu eiga bágt með að hverfa frá störfum sínum til að sækja kjörfund.

Jeg verð að mæla á móti því, að farið sje nú að breyta kjördeginum. Hins vegar vænti jeg að tillaga mín um kosningarnar 1916 nái fram að ganga. Fari báðar kosningarnar fram sama daginn, dreifist ekki áhugi manna í þessu efni, svo sem verða mundi, ef landskosning færi fram á öðrum tíma.