03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

3. mál, kosningar til Alþingis

Framsögum. minni hlutans (Guðm. Hannesson) :

Jeg get verið fáorður, því að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir sagt flest af því, sem jeg ætlaði að nefna.

Það, sem fyrir mjer er aðalatriðið, er, að kosningarnar fari báðar fram sama daginn. Jeg hefi bent á það í nefndarálitinu, að það væri hæpið, að sveitabændur sæktu kjörfund, ef kosningar landsþingmannanna færi fram á öðrum tíma en hjeraðskosningarnar. Mundi það þá leiða til þess, að landskjörið lenti að mestu leyti í höndum bæjarbúa.

Jeg heyri menn ekki halda því fast fram, að þetta komi í bág við ákvæði hinnar nýju stjórnarskrár Mjer virðist í þessu efni ekki vera hægt að fara eftir öðru en orðum hennar, og þau koma, eftir íslensku máli, á engan hátt í bág við þetta fyrirkomulag, sem minni hlutinn heldur fram. Mjer virðist til nokkuð mikils ætlast, að taka svo mikið tillit til pólitísku flokkanna í landinu, að vinna það fyrir 3 menn, að ómaka alla þjóðina til kosninga; og það að óþörfu. Það er ofmikið í sölurnar lagt, enda ekki víst, að það komi að tilætluðum notum, því ósjaldan mundi það fara svo, að þeir, er fallið hefðu við landskjör, mundu líka falla í hjeraði; — menn vilja ógjarna láta nota sig fyrir varaskeifu. Það er heldur ekki lítils virði, að kosningar fari fremur sjaldan fram, því að þær kosta ekki litla tímatöf fyrir marga, og allur sá, undirróður, sem þeim fylgir, hefir lítið gott í för með sjer.

Hvaða dag kosningarnar fara fram, er mjer ekki kappamál. Jeg tók til 1. júlí, en að öðru leyti legg jeg ekki mikla áherslu á það.