03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

3. mál, kosningar til Alþingis

Sveinn Björnsson:

Við erum nú að stranda á fyrsta skerinu, sem landskosningarnar hafa sett á leið okkar. En við því verður ekki gjört, og auðvitað sjálfsagt að reyna að gjöra hið besta úr öllu. Jeg skal geta þess, að jeg felli mig betur við tillögur minni hlutana í þessu máli.

Háttv. 2. þm. Rvk. (J. M.) áleit það stjórnarskrárbrot, að láta landskosningar og kjördæmakosningar fara fram samdægurs. Jeg held, að það sje nokkuð hart til orða tekið, og skal jeg í því efni vísa til orða sjálfrar stjórnarskrárinnar, er lúta hjer að. Þar stendur:

»Almennar óhlutbundnar kosningar skulu fara fram sem fyrst eftir hlutfallskosningar, og ekki síðar en innan ársfjórðungs«.

Jeg skal játa, að orðalagið bendir til þess, að eitthvert millibil sje milli kosninga, en það er ekki tekið jafn skýrt fram eða berlega bent á millibil eins og í öðrum tilfellum, t. d. eins og þegar maður fellur, að ótvírætt sje hægt, að draga þá ályktun, að millibil skuli vera. Og þar sem orðalagið heimilar, að kosningarnar fari fram stuttu á eftir landskosningum, þá má vel hugsa sjer það og haga því þannig, að kjördæmakosningar fari fram sama dag að loknum hlutfallskosningum.

Jeg hefi heyrt það flutt sem aðalástæðu fyrir því, að hafa millibil á milli kosninga, að maður, er fallið hefði við landskjör, gæti boðið sig fram í einhverju kjördæmi. Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) lagði afarmikla áherslu á þetta. Hann hjelt að samþykt brtt. minni hl. geti leitt til þess, að ljelegir menn yrðu hafðir í boði við landskosningar. Fyrst er nú þess að geta, að flokkaskiftingin hjer á landi er svo öflug, að hver flokkur er nokkurn veginn viss með að koma einhverjum frambjóðenda sinna að. Menn verða að eiga það við sjálfa sig, hvort þeir vilja eiga það á hættu að falla. En svo er þess að gæta; að þingmenn eru ekki nema 40 alls, svo að ólíklegt er, að hjer á landi sjeu svo fáir hæfir menn, að ókleift væri að fá sætin samt vel skipuð. Jeg verð því að líta svo á, að þetta atriði megi ekki vega meira en hin miklu vandkvæði, er millibil milli kosninga hefir í för með sjer.

Jeg mun því greiða brtt. minni hl. atkvæði í von um það, að frumv. verði við næstu umr. breytt eins og þörf er á.