03.09.1915
Neðri deild: 50. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Jón Magnússon):

Jeg veit það, að ýmsir háttv. þm. hafa tilhneigingu til þess, að láta hvorar tveggja kosningarnar, landskjörið og kjördæmakosninguna, fara fram sama dag. Einn þingmaður komst svo að orði við mig, að hjer væri að vísu um stjórnarskrárbrot að ræða en bætti því við, að svo væru lög sem hafa tog og sýnist mjer þetta ætla að sannast á háttv. samþingismanni mínum (S. B.). Jeg hefi látið uppi skoðun mína á málinu og geng ekki frá því, að jeg tel þessa tillögu vera andstæða stjórnarskránni því að engin meining væri í því að segja að landskjörið skyldi fara fram á undan kjördæmakosningunni, ef hvorar tveggja mættu fara fram sama daginn.

Forseti leitaði leyfis til afbrigða um brtt. 722 og 724, of seint fram komnar, og voru þau leyfð og samþykt.