07.09.1915
Neðri deild: 53. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

92. mál, fasteignamat

Framsm. (Sveinn Björnsson):

Þetta frv. er komið frá háttv. Ed. Nefndin, sem skipuð var í málið hjer í deildinni, hefir athugað það á nokkuð mörgum fundum, og mun mjer vera óhætt að segja, að það var einróma vilji nefndarmanna, að reyna að koma frv. fram á þessu þingi. Nefndin hefir þó ekki treyst sjer til, að ráða deildinni til að samþykkja frv. óbreytt. Hún hefir því borið fram nokkrar brtt. á þgskj. 762, og er aðalbreytingin fólgin í því, að 4 nýjum greinum er bætt inn í frv. Þeim er bætt inn sumpart af því, að Ed. hefir ekki gjört ráð fyrir því, að varamenn kæmu í stað matsmanna, ef aðalmatsmenn fötluðust frá starfi sínu algjörlega. En þetta áleit nefndin nauðsynlegt, að stæði í lögunum. Að öðru leyti eru þessar nýju greinar fram komnar, vegna þess, að í frv. er á ýmsum stöðum vísað til yfirskattanefndar sem nokkurs konar yfirmatanefndar, án þess nokkuð sje til tekið um það, hvernig sú nefnd sje skipuð og hvernig starfi hennar skuli fyrir komið. Jeg gjöri ráð fyrir því, að Ed. hafi ætlast til, að þessi nefnd fjelli undir þær yfirskattanefndir, sem þegar eru til í hverri sýslu, en munu víða ekki hafa starfað í mörg ár. Þær nefndir hafa aðallega átt að hafa það starf með höndum, að athuga kærur út af tekjuskatti, en það er svo óskylt því starfi, sem yfirmatanefndunum er ætlað, að rjett þótti að hafa sjerstakar nefndir til þess.

Að öðru leyti á 3. brtt. og sú 4. við það, að nefndin vill leggja til, að metið verði sjerstaklega, ekki einungis hús, heldur öll önnur mannvirki. Nefndin gjörir ráð fyrir, að það geti komið þeir tímar, að þetta mat verði lagt til grundvallar fyrir skattaálögum. Jeg fyrir mitt leyti hefði helst óskað, að ekki hefði verið sett inn, að meta skyldi sjerstaklega mannvirki þau, sem gjörð hefðu verið síðustu 10 árin, heldur mannvirki yfirleitt, hvort sem þau væru eldri eða yngri. En það varð að samkomulagi í nefndinni, að ráða deildinni til að samþykkja þetta þannig lagað: Annars er gjörð svo glögg grein fyrir þessu máli öllu í nefndarálitinu, að það er óþarfi fyrir mig, að fara frekar orðum um það. Þó vil jeg geta þess, að í 4. gr. hefir slæðst inn prentvilla. Þar vantar orðið »og« á undan orðinu »mannvirki«. Ef menn bera þetta saman við sjálfa greinina, þá sjá menn fljótlega, að þetta á svo að vera.