25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1137 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Framsögum. meiri hl. (Magnús Kristjánsson) :

Það fór með þessa nefnd eins og ýmsar fleiri nefndir hjer í þinginu, að hún klofnaði. Þetta var í rauninni ekki svo þýðingarmikið, vegna þess, að það var að eins einn maður, hv. þm. V.-Sk. (S. E.), sem varð viðskila við nefndina, en hitt er verra, að klofningurinn hefir orðið til þess að tefja málið. Meiri hluti nefndarinnar lagði álit sitt fram fyrir hjer um bil hálfum mánuði, en áliti minni hlutans var útbýtt nú á fundinum; er því ekki gott að átta sig á málinu í svip. Þó verður maður að reyna það.

Jeg hefi litlu að bæta við það, er jeg tók fram um málið við 1. umræðu, og það, sem í nefndaráliti meiri hl, stendur. Þó skal jeg minnast örlítið á undirbúning málsins og lögin sjálf frá 1907, og þær breytingartillögur, er fram hafa komið við frumvarpið.

Það eru um 20 ár síðan að þessu máli var hreyft hjer á þingi, og var þá öllum ljóst, að hjer var um stórmál að ræða, en árangur varð enginn fyr en 1907. Þá báru tveir þingmenn fram frumvarp til laga um þetta mál. Það var Jón heitinn frá Múla og jeg. Stjórnin lagði þá einnig fram frumvarp um málið, er var undirbúið með aðstoð sjerfróðra manna. Málið var sett í 7 manna nefnd, og vandað valið. Í nefndinni voru hæstv. núverandi forseti Nd. (Ó. B.), hv. núverandi 2. þm. Rvk. (J. M.), hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), Stefán Stefánsson, þáverandi þm. Skagf., Stefán Stefánsson, þingm. Eyf., og yfir höfuð vel valið til nefndarinnar, nema ef jeg ætti að undantaka sjálfan mig. Nefndinni var umhugað að koma málinu í sem best horf, og gjörði hún sjer mikið far um, að nota alt það besta úr báðum frumv., sem fyrir lágu. Þessar tilraunir nefndarinnar hepnuðust svo vel, að þingið samþykti einróma tillögur hennar, og síðan hafa engar aðfinslur komið fram við þau lög, heldur að eins umkvartanir yfir því, að lögin komi ekki til framkvæmda.

Aðalatriði laganna frá 1907 eru þau, að hús í kaupstöðum og kauptúnum, er hafa fleiri en 300 íbúa, er skylt að vátryggja í fjelaginu. En áhættunni er skift þannig, að fjelagið taki ekki ábyrgð á meiru en 2/3 hlutum, eigendur beri ábyrgð á 1/6, og hlutaðeigandi sveitarfjelag eða bæjarfjelag á 1/6 hluta. Þannig er reynt að deila ábyrgðinni eftir föngum. Enn fremur er gjört ráð fyrir, ef stærri óhöpp koma fyrir, að fjelagið sjálft borgi ekki út alt tjónið af eigin ramleik, heldur er þá ætlast til sameiginlegrar tryggingar af öllum, er vá- tryggja í fjelaginu, þannig, að leggja megi á þá aukagjald, er ekki nemi þó meira en helming af iðgjöldum þeirra það ár.

Enn fremur er á það að líta, að landssjóður á að ábyrgjast með 600,000 kr. að fjelagið standi í skilum. Auk þessa er eitt ákvarði til frekari tryggingar, en það er það, að fjelaginu er gjört að skyldu, að endurtryggja hjá erlendum fjelögum allar þær upphæðir, er nema meira en 10,000 kr. vátryggingargjaldi af húseignum og 7,500 krónum og þar yfir af lausafje.

Nú hefi jeg lýst aðalatriðum laganna frá 1907. Og þó að tryggingin sje allörugg, þá hefir fjelagið ekki enn tekið til starfa. Eru nú liðin 8 ár síðan lögin voru samþykt, og mun nú flestum koma saman um, að ekki megi öllu lengur við það una, að þau sjeu einungis sem dauður bókstafur. En það, sem hefir verið mestur Þrándur í Götu, er það, að endurtryggingu hefir ekki fengist enn sem komið er.

Við flutningamenn litum svo á, að ekki sje í ofmikið ráðist, þó að þingið felli í burtu úr lögunum endurtryggingarákvæðið, og ljeti lögin ganga í gildi án þess. Nefndin vildi tryggja fjelagið sem best, svo að ekki kæmi fyrir þau slys, sem fjelagið gæti ekki staðist; hefir hún því mikið rætt um hvaða leiðir væru farandi, til þess að koma fjelaginu á stofn, án þess að auka áhættuna nokkuð, frá því sem lögin gjöra ráð fyrir. Allir í nefndinni hafa verið þeirrar skoðunar, að ef endurtrygging fengist, gæti fjelagið tekið til starfa; á því einu hafi strandað hingað til. Nefndin hefir lagt svo til, að óhætt væri að koma fjelaginu á, þótt endurtrygging fengist ekki fyrst í stað, en hins vegar hefir hún gengið út frá., að óðara og fjelagið tæki til starfa, þá falli þessi þröskuldur, og erlendu brunabótafjelögin sjái sjer ekki annað vænna en að sæta þeim boðum, er þau hafa átt kost á, og jafnvel sækjast eftir að fá endurtryggingu, er um annað væri ekki að ræða framar. Fyrir þessum möguleika er gjört ráð í breytingartillögum meiri hlutana.

Jeg gjöri nú ráð fyrir því, að jeg þurfi ekki að útlista þær mikið, því að þingmenn hafa að sjálfsögðu gjört sjer þær kunnar, en jeg get þó ekki gengið fram hjá þeim, án þess að minnast á þær fáum orðum.

Breytingartillögur þær, er nefndin kom fram með, gjöra enga verulega efnisbreytingu á frumvarpinu. Í stað endurtryggingar, eins og áður var ætlast til, þá, er nú gjört ráð fyrir, að það sje alveg látið laust fyrst um sinn, hvernig það ræðst, eftir að fjelagið hefir tekið til starfa; en hins vegar, ef endurtrygging er fáanleg, eins og nefndin býst fyllilega við, þá skal fjelagsstjórninni skylt að sæta því. En það, sem aðallega dregur úr allri áhættu, er það, að nefndin takmarkar að miklum mun lausafjártryggingu, með því ákvæði, er hún setur, að samanlögð vátryggingarupphæð lausafjár, Sem trygð er í fjelaginu, nemi aldrei meiru en 1/5 af samanlagðri vátryggingarupphæð húsa í fjelaginu, og engin ein vátryggingarupphæð lausafjár nema meira en 2000 kr. Þetta hefir mikla þýðingu, því jeg geng út frá, ef þetta ákvæði hefði ekki verið sett, þá myndi lausafjárupphæðin í fjelaginu hafa orðið hærri en húsatryggingar, en af því stafaði miklu meiri áhætta.

Með þessu tvennu, er jeg nú hefi drepið á, takmörkun á lausafjártryggingu og tryggingarskilyrðinu, áleit nefndin að siglt væri fyrir hættuleg sker, er mest væri að óttast.

Þetta eru aðalbreytingarnar, og hinar flestar eru afleiðingar af þessum. 1., 3., 4. og 5. breytingartill. lúta allar að því sama, að takmarka áhættuna eins og frekast væri unt, og nú hefir verið tekið fram. 6. breytingartillagan er að eins orðabreyting um niðurjöfnun aukagjalds. Nefndinni þótti því betur farið á þann hátt, og vonast til, að það mæti ekki mótspyrnu. 8, brtt. er til þess, að ljetta óeðlilegri kvöð af vátryggjendum, er nefndinni þótti ekki viðeigandi að stæði í lögunum.

Jeg ætla nú að láta hjer staðar numið viðvíkjandi þessu, en víkja máli mínu að nefndaráliti minni hlutana.

Það verður ekki annað sjeð en minni hlutinn sje að mestu leyti sömu skoðunar, og að hann vilji, að fjelagið geti tekið sem fyrst til starfa. En þó er geigur í honum út af því, að hjer sje í of mikið ráðist, af því að ekki er sýnt með tölum, að ekki geti að borið stórslys, er komið geti fjelaginu í fjárvandræði. Þetta er aðalatriðið í nefndaráliti minni hlutans. Þetta er að vísu hugsanlegt, en út frá reynslu manna í þessu efni, Síðan land bygðist, er þessi mótbára óhugsandi. Hefði þetta fjelag verið stofnað fyrir 50 árum, myndi það ekki hafa orðið að tjóni fyrir landið, heldur er óhætt að fullyrða., að fjelagið ætti nú í sjóði mikið sje, þótt brunar hafi verið talsverðir í seinni tíð. En þar sem brunahætta engu síður fer stöðugt minkandi með bættri húsagjörð, nýtísku slökkviáhöldum, vatnsveitu og lögum, er gjört hefir verið til tryggingar, er ekki hægt að hugsa sjer svo stórvægilega bruna, að fjelaginu ætti að vera það ofvaxið með ábyrgð landssjóðs.

Þau dæmi, er minni hluti nefndarinnar kemur fram með, eru að einstökubrunar, er fyrir kunni að koma, verði svo gífurlegir, að ekki verði fje fyrir hendi til að bæta tjónið, t. d. að allur Akureyrarbær brenni, en hús þar eru virt á 1½ miljón króna. Jeg verð að láta þá skoðun í ljós, að slíkt er alveg óhugsandi, enda er háttv. framsögum. minni hlutans (S. E.) svo kunnugur þar, að hann getur ekki haldið þessu fram í alvöru. Því að það er ekki hugsanlegt, að meira geti brunnið þar en ¼ hluti bæjarins, en hins vegar, af þeim ástæðum, er jeg nefndi áður, bættum skilyrðum, til þess að draga úr brunahættunni, myndi aldrei brenna þar svo mikið.

Þá vill háttv. minni hl. halda því fram, að bruninn, sem varð hjer í Rvík í vor, sje sönnun fyrir mikilli brunahættu. En eins og drepið er á í nál. meiri hl., þá er hættan auðvitað hvergi meiri en hjer, bæði vegna þjettbýlisins og gasveitunnar. Jeg hygg, að flestir muni vera samdóma um það, að bruninn hjerna í vor hefði aldrei orðið nándar nærri svo mikill sem hann varð, ef ekki hefði verið hjer gasið. En nú er ekkert þorp hjer á landi, sem myndi detta í hug að koma á hjá sjer gasveitu, því að bæði er hún dýr, og svo er þessi reynsla, sem fengin er við hana, næg til þess að fæla menn frá henni.

Þriðja ástæða háttv. minni hl. er sú, að það sje varhugavert, að slengja svo mikilli ábyrgð á landssjóð og sveitarfjelögin. Jeg þykist ekki þurfa að ræða þetta öllu meira en jeg hefi þegar gjört. Jeg mintist á það, bæði við 1. umræðu og áðan, að sú ábyrgð getur ekki talist neitt óvenjulega stórvægileg. Og þar sem verið er að tala um að ekki megi ráða þessu til lykta; án þess að spyrja þjóðina, þá getur slíkt alls ekki komið til mála, þar sem vjer höfum nú þegar átt þessi lög í 8 ár, og aldrei hafa nokkur mótmæli gegn þeim eða óánægja með þau komið fram úr nokkurri átt, svo að mjer sje kunnugt, heldur einmitt þvert á móti.

Síðasta ástæðan gegn frumv., og jeg veit ekki hvort það á að vera sú mesta, er sú, að það hljóti að vera þinginu ofvaxið, að ganga frá þessu máli nú. Mjer finst það nú vera að gjöra helsti lítið úr þinginu, ef það á ekki að vera fært um að gjöra svo litla breytingu á lögum, sem voru jafn vel og gaumgæfilega undirbúin, sem þessi, og allir hafa líka verið ánægðir með, ef þau að eins gætu komist í framkvæmd, Jeg held að það sje sæmilegast að sleppa alveg annarri eins ástæðu og þessari hún fellur óðara um sjálfa sig.

Jeg mun svo ekki segja mikið meira að sinni. Jeg býst við að fá tækifæri til að tala aftur, þegar háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) hefir lýst sinni skoðun. En áður en jeg setst, ætla jeg þó að geta þess, að þótt þetta þing hafi að vísu starfað margt, og sjálfsagt haft nóg að gjöra, þá hefir það þó ekki enn þá átt kost á, því miður, að afgreiða neitt verulegt stórmál; en þetta, sem hjer er um að ræða, er stórmál, og sómi fyrir þingið að fá hrundið því í framkvæmd. Og það má varla minna vera en að þingið gangi frá einu máli, sem öllum kemur saman um að miði drjúgum í þá átt, að efla fjárhagalega og menningarlega velmegun þjóðarinnar. Og þetta mál er sjerstaklega vel til þess fallið, að því verði ráðið til lykta einmitt nú, því að í framtíðinni má ganga að því vísu, að hvert stórmálið reki annað, sem lítt eru undirbúin enn þá, og verður þá ekki ljettara að fást við alt í einu. Nú liggur t. d. bráðlega fyrir að stofna innlent lífsábyrgðarfjelag, og væri þá gott, að þetta yrði komið á undan. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að þessu sinni.