25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Yfirleitt er þetta fyrirkomulag í Baden það líkasta, sem jeg hefi sjeð því, sem þetta frv. gjörir ráð fyrir, og virðist þá ástæða til að athuga nánar, hvernig það er framkvæmt þar, og hvernig það hefir gefist. Jeg er fullviss um það, þrátt fyrir staðhæfing háttv. meiri hluta í gagnstæða átt, að hjer er um svo stórt mál að ræða, að þingnefnd, sem auk þess er mörgum öðrum störfum hlaðin, hefir ekki getað rannsakað það svo sem nauðsynlegt hefði verið, til þess að byggja mætti á því. Þess vegna tel jeg rjettast að þetta stórmál sje ekki samþykt nú, heldur vísað til stjórnarinnar til frekari aðgjörða, og vildi jeg þá jafnframt leggja til, að stjórnin fengi sjer til þess aðstoð sjerfróðra manna. Má vera að það kostaði eitthvað, en þegar eins mikið er í húfi og hjer, þá má ekki horfa í það, enda gæti sá maður eða þeir menn, sem við það fengist, þá jafn framt rannsakað ýmsa aðra ábyrgðarstarfsemi, því að við getum tæpast með lokuðum augum horft á það lengur, hvað missist út úr landinu til vátryggingarfjelaga, sem halda mætti hjer heima, ef málin væru rannsökuð skynsamlega. Jeg sje það líka, að hjer er komin fram í þinginu þingsályktunartillaga um að rannsaka annars konar ábyrgðarstarfsemi, og vona jeg því, að háttv. deild taki vel undir það, að jeg leyfi mjer hjer með að koma fram með rökstudda dagskrá svo hljóðandi:

Í trausti til þess, að stjórnin útvegi sjer sjerfróða aðstoð, til að íhuga skilyrði fyrir innlendri ábyrgðarstarfsemi, þar á meðal brunabótastarfsemi, og leggi frumvarp þar að lútandi fyrir næsta Alþingi, ef fært verður, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.