25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Framsögum. minni hl. (Sig. Eggerz):

Jeg skal reyna að fara eina fljótt yfir sögu og jeg get.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að það væri ekki annað en grýla, sem jeg sagði, að svo framarlega sem brunatjón yrði meira en það, er landssjóðsábyrgð og sveita, að viðbættri ábyrgð brunabótasjóðs næmi, þá væri það siðferðisleg skylda landssjóðs að svara út þeim skaða, þar sem menn einmitt hefðu trygt í fjelaginu í trausti til þess, að landssjóður stæði bak við. Jeg verð að mótmæla því, að jeg sje að reyna að hræða þingið með nokkurri grýlu. En hitt hefi jeg talið mjer skylt, að vekja eftirtekt manna á annmörkunum, er á frumv. væru.

Hjer er sjerstaklega um það að ræða, hvort menn óski þess, að landssjóður tæki þessa áhættu á sínar herðar, því að allir hljóta að vera sammála um það, að hjer er um áhættu að ræða. Yfirleitt lít jeg svo á, að Alþingi eigi að halda sjer sem mest fyrir utan öll áhættuspil. Það má vera, að sumir haldi því fram, að áhætta landssjóðs sje takmörkuð við þær 800 þús. kr., er hann ábyrgjist fyrir fjelagið. Það er að vísu rjett, að það lítur svo út á pappírnum, en ef tjónið, sem fjelagið bíður, nemur meira en það getur svarað til, og meira en þessum 800 þús. kr., þá held jeg því fram — og sú hlýtur að verða raunin á, — að landsheillin krefjist þess, að landssjóður hlaupi undir bagga.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að þótt það væri rjett, að þetta fyrirkomulag þektist ekki í öðrum ríkjum, þá sannaði það ekki, að Ísland gæti ekki tekið þetta að sjer. Þetta er vitanlega rjett, en sje það rjett, að þetta fyrirkomulag þekkist ekki annarstaðar, þá liggur það í hlutarins eðli, að því meiri ástæða er fyrir okkur, að athuga nákvæmlega, hvort óhætt sje að leggja út á þessa braut. Það er svo alt af, að þegar um einhverja nýbreytni er að ræða, þá þarf einmitt nákvæma yfirvegun um það, hvort hún sje til heilla. (Matthías Ólafsson: Menn hafa stundum dregið það svo lengi að setja ofan, að þeir hafa ekki komist á flot þann daginn). Það er alveg rjett, en menn hafa líka stundum ýtt á flot, og aldrei komist til lands. Og það er mikið spursmál, hvort það sje rjett, að vera mjög fljótur á sjer, einkum þegar um fjárhag landsins er að ræða.

Háttv. þingmaður (M. Ó.) færði það sem ástæðu fyrir sínu máli, að þetta þing hefði látið svo lítið eftir sig liggja, að það ætti nú að afgreiða þetta mál. Jeg get verið honum sammála um það, að margt af því, sem þingið hefir gjört, væri betur ógjört; en þá því að eins verður úr því bætt, að þetta fyrirtæki sje Svo vel undirbúið, að það geti farið heppilega af stað, en um það er einmitt deilan.

Háttv. þingmaður (M. Ó.) gat þess til stuðnings sínu máli, að í hans hjeraði hefði verið brunabótafjelag. Þetta fjelag hefði, þegar hann fór úr hjeraðinu, átt 10 þús. kr. í sjóði. Það er mikið gott, en sú athugasemd fylgdi líka með, að á því tímabili hefði ekkert hús brunnið í hjeraðinu. Ef gjört væri ráð fyrir þessu, þá væri alt öðru máli að gegna, en það er ekki hægt, því að brunahættan vofir alt af yfir; stundum eru brunarnir sjaldgæfir, en oft afartíðir.

Því hefir verið haldið fram, að það dragi úr brunahættunni, að samkvæmt lögunum er nokkuð af áhættunni í sjálfsábyrgð, og er talið, að það muni fækka íkveikjum.

Jeg hefi átt tal við samábyrgðarstjórann um þetta, og hann hefir sagt, að ekki væri eins mikil trygging fólgin í sjálfsábyrðinni og margir ætla, af þeirri ástæðu, að virðingarnar eru oft mun hærri en eðlilegt er. Athugasemdir í líka átt hefi jeg heyrt hjá fleiri mönnum, sem um þessi mál hafa fjallað. Og reynslan sýnir ómótmælanlega, að virðingarnar eru oft of háar.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var að tala um, að hjer hefðu menn fengið snaga til að hengja hatt sinn á. Þessi orð tek jeg ekki til mín og yfirleitt þykist jeg hafa hagað svo orðum mínum, að ekki sje ástæða til að bregða mjer um, að jeg vilji koma fyrirtæki þessu fyrir kattarnef. Ágreiningurinn er að eins fólginn í því, að minni hlutinn vill fá sjerfræðing til að rannsaka málið og fela stjórninni framkvæmdir þess, eins og jeg mun víkja að síðar, þegar jeg svara háttv. framsögum. (M. K.).

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) sagði, að annað hvort væri, að leggja árar í bát, eða leggja landssjóði fyrirtækið á herðar. Jeg held, að þetta sje ekki rjett álitið. Víðast hvar í öðrum löndum mun ábyrgðarstarfsemi rekin af fjelögum, en ekki af ríkjunum. Það er vel hægt að hugsa sjer það, að hægt sje farið af stað og að landssjóður taki ef til vill einhvern þátt í fyrirtækinu, þótt ekki sjeu lagðar árar í bát.

Háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) og háttv. framsögum. (M. K.) tóku það fram, að brtt. nefndarinnar drægju úr áhættu landssjóðs. Jeg er samþykkur því, enda var jeg samferða háttv. samnefndarmönnum mínum í að leggja til þeirra sumra. En þótt svo sje, þá fylgir sá böggull skammrifi, að þetta fjelag tekur ekki að sje ábyrgðir, sem ríður ekki hvað síst á; yfirleitt má segja, að verslunarstjettin hafi ekkert gagn af þessu fjelagi. Þetta dregur að vísu úr áhættunni, en dregur líka að mun úr gagninu. Jeg vil skjóta því fram, að eins til athugunar, hvort ekki muni hætta á því, að þegar landsjóður hefir tekið að sjer minni háttar tryggingar, þá muni hin fjelögin skorast undan að taka að sjer hinar stærri. Háttv. framsögum. (M. K.) benti á., hve fjelögin væru gjörn á að koma með hótanir, eins og líka kom fram á þinginu 1912, þegar lög voru sett um það, að ábyrgðarfjelögin skyldu setja tryggingu fyrir starfsemi sinni. Þá varð hinn mesti úlfaþytur í fjelögunum. Og sá úlfaþytur var því valdandi, að hætt var við að heimta trygginguna, af hræðslu við að fjelögin mundu leggja hjer niður alla ábyrgðarstarfsemi, og var þó auðsætt, að tryggum fjelögum var ekki tjón í því, að láta verðbrjef liggja hjer til tryggingar starfseminni. En úr því að fjelögin gjöra úlfaþyt út af ekki stærra atriði, er þá ekki hugsanlegt, að þau segi sem svo: »Fyrst þið takið af okkur húsatryggingar og smærri lausafjártryggingar, þá kærum við okkur ekkert um þær stærri«, sem þó auðvitað eru eins nauðsynlegar fyrir þetta land og hinar.

Jeg hjó eftir því orðalagi hjá háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), að hann vonaði, að landssjóður tapaði ekki á þessu; auðvitað vonum við það allir, en það er verst, að á slíkri von er ekki hægt að byggja.

Sami háttv. þm. sagði, að það væri. ómannlegt að afgreiða málið með rökstuddri dagskr. Mjer finst ekki rjett, að viðhafa þessi orð. Ef það er rjett, að hjer sje um allmikla áhættu að ræða, þá álit jeg ráðlegt, að hraða ekki málinu svo, heldur kunna fótum sínum forráð. Hitt væri ómannlegt, ef ekkert frekara væri að gjört, en jeg vænti þess, að ef dagskráin verður samþykt, þá útvegi hæstv. ráðherra sjerfræðing til að rannsaka málið og yfirleitt hafi heimild til að fá sjer þá aðstoð, sem hann álítur þurfa til þess að hrinda málinu áfram eftir föngum.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) mintist á skilyrðin fyrir endurtryggingunni. Jeg get slept að svara því, og skírakotað til svara míns til háttv. 2. þm. Rang. (E. P.).

Hv. 1. þm. Rvk. (S. B.) skaut því til mín, hvort jeg mundi verða því fylgjandi, að veitt yrði fje í fjárlögunum til rannsóknar annarri ábyrgðarstarfsemi. Jeg get lýst því yfir, að mjer er sönn ánægja að því, að styðja viðleitni hana í þessa átt.

Háttv. framsögumaður meiri hlutans (M. K.) þótti það ósamræmi hjá mjer, að jeg væri þakklátur flutningsmönnum þessa máls, en legði þó til, að frumv. væri ekki afgreitt nú. Jeg býst við, að jafn greindur maður, sem hann er, sjái brátt, að hjer er alls ekki um ósamkvæmni að ræða. Minni hlutinn álítur stóra þörf á því, að taka málið á dagskrá og að flutningsmenn eigi, með því að hafa ýtt við málinu, miklar þakkir skildar, hvernig sem málinu annars reiðir af.

Um lausafjártrygginguna get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt, að áhættan er að vísu minni, en stór ókostur, að verslunarsjettin verður með þessu útilokuð.

Háttv. framsögum. (M. K.) gat þess, að jeg hefði ámælt meiri hlutanum fyrir það, að hafa ekki útvegað skýrslur um brunatjón. Ef jeg hefði ámælt meiri hlutanum, þá hefði það náð til allrar nefndarinnar, og því minni hlutans líka. En nú voru orð mín að eins svo, að jeg taldi óheppilegt, að nefndin hefði ekki haft fyrir sjer skýrslur um brunatjón; hitt var ljóst, að hvorugur hlutinn gat útvegað þær skýrslur. Og þetta, að skýrslurnar vantar, er eitt af því, sem veldur því, að jeg vil vísa málinu til stjórnarinnar.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) þótti of hátt í lagt, að gjöra reksturskostnaðinn 10 þús. kr., og færði það til, að ákveðinn tími yrði hafður til viðtöku iðgjalda. Það getur nú verið fremur ókostur en kostur að hafa tímann ákveðinn, að minsta kosti fyrir þá, sem við fjelagið skifta. En annars gjöri jeg ráð fyrir, að hvorugur okkar geti í bili sagt nákvæmlega um, hvað kostnaðurinn muni nema miklu.

Háttv. framsögum. (M. K.) veik því til mín, að fremur væri ástæða til að ámæla stjórninni heldur en nefndinni fyrir aðgjörðir í þessu máli. Jeg ámæli ekki nefndinni og ekki stjórninni heldur, þótt ekki hafi hún útvegað þessar skýrslur. Jeg skal taka það fram, að jeg var að hugsa um að hreyfa þessu máli, en átti svo stutta setu sem ráðherra, að mjer var það ekki unt, og auk þess önnum kafinn allan þann tíma. Jeg tók við ráðherraembætti í júlí byrjun og stóð þá Alþingi yfir; eftir það hafði jeg að eins 3 vikur þangað til jeg fór á konungsfund, og úr þeirri utanför kom jeg ekki fyrr en seint í desembermánuði, og sat þá nokkra mánuði svo, að jeg bjóst jafnan við stjórnarskiftum. Þegar það er enn athugað, að á mjer hvíldu matvörukaup landssjóðs, undirbúningur á fjárlagafrv. og fleiri frv., auk þess sem jeg gat búist við að fara frá á hverri stundunni, þá var ekki eðlilegt, að jeg fitjaði upp á fyrirtækjum, sem stórvægileg mega teljast, enda talið svo yfirleitt, að bráðabirgðaráðherra eigi að eins að rækja venjuleg störf, sem til falla. Þetta var mjer því ókleift, þótt mjer þætti leitt að geta ekki hrundið áfram málum, sem jeg hafði áhuga á. Þetta segi jeg ekki af því, að jeg sakni ráðherraembættisins, heldur af því, að jeg sakna þess, að hafa ekki getað komið því farm, sem jeg vonaði, að gæti orðið þessari þjóð til gagns.

Háttv. framsm. (M. K.) kom með ýms dæmi til að sýna það, að svo framarlega sem menn hugsuðu alt af um áhættuna, væri lítilla framkvæmda von; hann nefndi t. d. að menn þyrðu ekki að ráðast í búskap, af því að rollurnar gætu farist úr pest o. s. frv. Það er rjett hjá háttv. þm., að mannlegu lífi er svo háttað, að vjer verðum að taka á oss ýmsar áhættur. En þótt menn sjeu í engum vafa um það, að þeim sje persónulega óhætt að leggja út í eitthvert fyrirtæki, þá álít jeg, þegar um landssjóð er að ræða, að aðalreglan eigi að vera sú, að spekúlera aldrei á nokkurn hátt með fje landssjóðs. Fyrir landssjóða hönd mega menn aldrei segja: Vogun vinnur og vogun tapar. Frá landssjóði á að halda allri áhættu, sem hægt er að forðast.

Háttv. framsm. (M. K.) fórust orð á þessa leið, að jeg hefði ekki haft viðleitni til að bjarga málinu í örugga höfn. Jeg hefi nú eins og flestir verið önnum kafinn alt þingið, en jeg hefi þó reynt að hugsa mjer, hvernig heppilegast mundi að koma þessu máli fyrir, og hefi nú vikið nokkuð að því í nefndarálitinu. T. d. hefi jeg bent á fyrirkomulag, eins og það er í Baden, sem jeg skýrði frá í fyrri ræðu minni. Það fyrirkomulag er svo, að ríkið ber enga áhættu og leggur ekki fje í fyrirtækið, en umsjón hefir ríkið með því og innheimtu iðgjalda., sem er svo fyrir komið, að allir húseigendur greiða eftir niðurjöfnun skaðann af brununum. Sá galli hefir þótt á þessu fyrirkomulagi, að iðgjöldin hafa verið mjög mishá árlega, alt eftir því, hvað skaðarnir hafa orðið miklir. Þetta fyrirkomulag og önnur er ástæða til að athuga, og því vil jeg fela málið stjórninni til rannsóknar.

Að öðru leyti hafi jeg ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál. Jeg skal að eins endurtaka þá yfirlýsingu, að fyrir mjer vakir alls ekki það, að draga úr því, að vátryggingar komist í innlendar hendur, heldur hitt, að ekki sje rasað um ráð fram í slíku stórmáli og varlega sje farið í það, að binda landssjóð við slíkt mál. En á innlendar hendur á málið að komast.