25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Ráðherra:

Jeg skal ekki tala langt um þetta mál. Jeg verð að játa það, að mig brestur þekkingu til að tala um það að gagni.

Jeg tek undir með þeim, sem sagt hafa, að frumv. væri ekki eins glögt og skyldi, þar sem um er að ræða innskot í lögin. En samt má samþykkja það nú með brtt., og sjá, hvernig það tekur sig út eftir 2. umr.

Ef það yrði að ráði, að vísa þessu máli til stjórnarinnar, þá væri nauðsynlegt að heimila henni eitthvert fje, til þess að rannsaka málið; því vitanlega hefir stjórnin ekki meira vit á þessu máli en aðrir, og öll rannsókn önnur en þessi, sem jeg mintist á, yrði bara kák.

Annað mál er það, ef stjórninni yrði heimilað fje til það rannsaka og undirbúa stofnun lífsábyrgðarfjelaga, þá gæti hún látið sömu mennina einnig rannsaka þetta mál. Jeg get tekið undir með háttv. framsm. minni hl. (S. E.), að það er ekki von að stjórnin hafi rannsakað málið hingað til. Stjórnin getur ekki á neinn hátt komið þessu máli í framkvæmd, fyrr en hún fær nægilegt fje. Það dugar ekki að skipa stjórninni að gjöra þetta eða hitt, og heimila henni ekki neina fjárveitingu til þess.