25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Matthías Ólafsson :

Mig langar til, að bæta nokkrum orðum við það, sem jeg hefi áður sagt. Það, sem okkur greinir á um hjer í deildinni, er það, hvort við eigum að setja eða ekki setja. Gestur Pálsson segir einhversstaðar frá mönnum, sem voru að setja bát. Þeir lágu fram á bátinn og nokkrir sögðu: »Jæja, eigum við að setja?« »Jú, ættum við ekki að setja?« sögðu sumir. Þeir þrefuðu um þetta lengi vel, en settu ekki bátinn að heldur. Að endingu kom ólag og tók bátinn úr höndum þeirra og braut hann í spón. Jeg vona að endirinn verði ekki hjá okkur sá, að bátinn okkar flæði í þessu máli hjer í deildinni, en jeg er viss um það, að brunatryggingabátinn flæðir, ef við erum alt af að rannsaka, en finnum aldrei neitt. Annars er það einkennilegt með suma háttv. þingm. hjer í deildinni, að þeir eru óðfúsir á að láta rannsaka sum mál upp aftur og aftur, en önnur mál er ekki komandi við, að þeir vilji láta rannsaka á nokkurn hátt. Get jeg þar bent á meðferð járnbrautarmálsins hjer í deildinni. Mjer virðist þetta, mál vera svo undirbúið, að við munum tæpast græða mikið á að bíða lengur. Ef við verðum fyrir skaða í byrjun, jæja, þá það, þá höfum við rekið okkur á — af skaða verður maður hygginn — og við vitum þá betur en áður, hvað við eigum að laga.

Háttv. framsm. minni hl. (S. E.) óttast það mjög, að húsavirðingarnar verði hafðar svo háar. Jeg óttast ekki mjög, að svo verði; minsta kosti mundu þær ekki hækka við það, að innlendir menn hefða eftirlit með virðingargjörðunum, Öðru máli er að gegna með ástandið, eins og það er nú. Nú virða menn sjálfir húseignir sínar út um landið, og vátryggja þær svo í útlendum fjelögum. Með þessu er beinlínis lokkað til glæpa, því flestum stendur á sama um þó útlendu fjelögin tapi. Jeg er viss um, að hugsunarháttur margra manna mundi breytast við það, að innlent fjelag kæmist á stofn. Hjer er annara alveg óskiljanleg þessi hræðsla manna við það, að við töpum á því, að vátryggja eignir okkar sjálfir. Af hverju halda menn, að útlendu ábyrgðarfjelögin vilji taka að sjer að tryggja eignir okkar fyrir brunahættu? Það er auðvitað af því, að þeim er það stór gróðavegur.

Það var spurt að því áðan, hvort landssjóður eigi að fara spekulera. Má jeg þá slá fram annari spurningu : Hve nær gjörir landssjóður nokkuð, sem ekki er spekulation? Auðvitað aldrei. Þegar þingið veitir fje úr landssjóði til einhverra fyrirtækja, þá fylgir því alt af nokkur áhætta: Við vitum ekki nema svo kunni að fara, að fjárveitingarnar verði að engum notum.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) lagði skynsamlega og rjett til þessara mála. Hann finnur til þess, hvílík hörmung það er, að láta það viðgangast, að ár eftir ár streymi stórfje út úr landinu til þessara ábyrgðarfjelaga, í stað þess að stofna innlent ábyrgðarfjelag, sem landið mundi græða mikið fje á., að minsta kosti svo framarlega, sem ekki bæri því tíðari og meiri óhöpp að höndum.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) áleit, að önnur ábyrgð ætti að ganga fyrir þessari, nefnilega ábyrgð á skipum, því að það myndi borga sig betur. Jú, það er mikið rjett, en það er ekki svo að skilja, að flutningsmennirnir hafi ekki athugað þetta. Flutningsmenn vildu fara til málsaðilja og vita, hvað þeir legðu til þessa máls. Við kölluðum því helstu útgjörðarmenn hjer á fund okkar, og bárum þetta undir þá, en þeir kváðust þá ekkert hafa um málið hugsað. Lofuðu þeir að kalla saman fund meðal útgjörðarmanna, til þess að ræða málið. Eftir sex vikur fengum við svo svar frá þeim, og hverju ætli þeir hafi svo svarað? Jú, viti menn, svarið var á þá leið, að þeir álitu málið ekki tímabært. Það er því ekki annað sýnna en að hundruðum þúsunda verði ausið út úr landinu mörg ár enn í þessu skyni. Þó farið verði að spyrja landsmenn um þetta, er ekki við því að búast, að þeir geti, fremur en við, sagt hvað rjett er í þessu máli.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hjelt, að það væri heppilegast, að hlutafjelag byrjaði á þessum tryggingum með ábyrgð landssjóðs, og skildi jeg hann svo, að með því móti teldi hann það gróðaveg. Mjer er ómögulegt að skilja, hvernig þetta ætti fremur að vera gróðafyrirtæki fyrir einstaka menn, heldur en fyrir landssjóðinn. Eins og jeg hefi áður tekið fram, munu útlendu ábyrgðarfjelögin ekki hafa haft skaða á ábyrgðunum. Þau sæktu naumast eins mikið eftir ábyrgðum, eins og þau gjöra, ef þau hefði skaða á því.

Jeg vona, að háttv. deild láti nú þetta mál ganga áfram, ekki einungis til 3. umræðu, heldur og til efri deildar. Það má ekki lengur dragast, að hefjast handa í þessu máli, því að hvert árið, sem líður, án þess nokkuð sje í þessu gjört, er bláber skaði fyrir landið.

Jeg verð að leggja mikla áherslu á það, að það er hreinn og beinn álitshnekkir fyrir okkur, að hafa ekki tekið þetta mál upp, því að það getur ekki heitið sæmilegt fyrir fátækt land, að fleygja frá sjer árlega stórfje í erlend gróðafjelög, í stað þess að stofna nú innlent ábyrgðarfjelag, sem landið gæti stórgrætt á.