25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Framsögum. meiri hl. (Magnús Kristjánsson):

Það er að eins örlítið, sem jeg ætla að leggja til málanna í þetta sinn. Jeg var farinn að vona, að jeg kæmist hjá því að standa upp aftur, en úr því að það gat ekki orðið, skal jeg lofa því, að vera stuttorður.

Okkur framsögumönnunum hefir tekist að tala nokkurn veginn hógværlega um þetta mál að þessu, en háttv. framsögumaður minni hlutans (S. E.) fór að hitna töluvert í ræðulokin. Þó vona jeg að sá hiti líði bráðlega hjá.

Jeg skal leyfa mjer að byrja á að athuga nokkuð ræðu hans. Hann bygði mikið á því, að hjer vantaði algjörlega sjerþekkingu í þessum efnum, og sagði, að það væri óforsvaranlegt, að gjöra nokkuð í málinu áður en sjerþekking væri fengin. En þetta er ekki allskostar rjett; vegna þess, að við undirbúning þessa máls fyrir þingið 1907 leitaði stjórnin upplýsinga til bestu sjerfræðinga, sem kostur var á, ekki hjer á landi, heldur erlendis, og það hjá mönnum, sem ekki voru á nokkurn hátt viðriðnir hin útlendu ábyrgðarfjelög, sem hjer starfa. Stjórnin mun hafa snúið sjer til þessara manna einmitt af þeirri ástæðu, að hún hafi búist við, að hætta gæti verið á., ef hún leitaði til þeirra manna, sem á einhvern hátt væru riðnir við þau fjelög, sem hafa okrað á okkur, að þeir myndu gjöra alt hugsanlegt til að stuðla að því, að sú skoðun ríkti hjer framvegis, sem gjörði það að verkum, að við flytum sofandi áfram í þessu máli, eins og sumir álíta nú heppilegast.

Jeg ætla að geta þess hjer, að það hefir komið fram töluverður misskilningur á nefndarálitinu og brtt., og furðaði mig það stórlega, því að það er ekki einasta háttv. framsm. minni hl. (S. E.), sem á þessu hefir flaskað, heldur og ýmsir fleiri. En það eru í rauninni ekki veruleg atriði. Þeir halda því fram, að því sje slegið föstu í nefndar- áliti meiri hlutans, að iðgjaldið eigi að vera 1/2%. Það er mjög fjarri því, að svo sje, en þar er að eins bent á, að það myndi ekki vera mjög óvarlegt að hafa þetta gjald, og það var álit nefndarinnar, að gjaldið ætti að vera eitthvað lægra en það hefir verið hjá hinum útlendu fjelögum.

Háttv. frsm. minni hl. (S. E.) hefir lagt mikið upp úr fyrirkomulaginu á Þýskalandi, þar sem hann segir að ríkið hafi ekki annað með þetta að gjöra en að innheimta gjöldin. Jeg er ekki viss um að þetta sje rjett skýrt frá. Mjer er það óskiljanlegt, hvers vegna ríkið ætti að hafa á hendi innheimtu fyrir einstaka menn. Mjer finst háttv. frsm. minni hl. (S. E.) ætti ekki að draga þetta fram sem fyrirmynd. Mjer skilst á honum, að þessi þjóð ætti að vera sjálfri sjer nóg í flestu, og þá ekki síður í þessu en öðru. Jeg verð nú að segja það, að með því fyrirkomulagi, sem hjer er gjört ráð fyrir, álít jeg, að frumv. sje forsvaranlega undirbúið, eins og það liggur fyrir. Hann vildi gjöra mikið úr áhættunni, en að því er það snertir, skal jeg í bráðina láta mjer nægja að vísa til þeirra orða, sem hv. 1. þm. G.K. (B. K.) viðhafði fyrir skemstu.

Þá mintist háttv. framsm. minni hl. (S. E.) á það, að það gæti komið fyrir, að hætta stafaði af því, að útlendu fjelögin neituðu að taka lausafjártryggingar, ef innlent fjelag hefði húsatryggingarnar. Jeg gjöri nú ekki mikið úr því. Jeg býst við, ef einhver innlendur maður yrði svo lítilþægur, að vilja skifta við þessi útlendu fjelög, þá tækju þau því með þökkum. En viðvíkjandi því, sem hann sagði, að það væri óforsvaranlegt, að spekúlera með landssjóðinn á þennan hátt, verð jeg að segja, að jeg álít að honum hafi ekki verið full alvara, heldur hafi hann ekki hugsað út í það, að þetta getur ekki talist »spekúlation«, þótt landsmenn verði losaðir við að búa undir einokun í fjöldamörg ár. Við nánari athugun vænti jeg, að hann sjái, að þetta nær ekki nokkurri átt hjá honum. Sje jeg svo ekki ástæðu til að vera að eltast við þetta lengur; en áður en jeg setst niður, skal jeg víkja að því, að jeg er þakklátur háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf í málinu. Jeg get ekki betur sjeð en að þær hafi gengið eingöngu í þá átt, að styðja málstað meiri hlutana, enda þótt hann benti á aðra aðferð, sem honum þykir hagkvæmari, en jeg fyrir mitt leyti get fallist á að sje betri, nefnilega þá aðferð, að stofna sjestakt hlutafjelag, sem landssjóður leggi þó til stórfje. Jeg hygg, að það væri undir öllum kringumstæðum eðlilegast, eins og gjört er ráð fyrir, með því fyrirkomulagi, sem hjer er stungið upp á, að hver einstaklingur nyti hagnaðar eftir hlutdeild sinni, og bæri um leið áhættuna í rjettu hlutfalli við aðra.

Hátttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sýndi fram á það með rökum, að öll þau útlendu ábyrgðarfjelög, sem hjer hafa starfað, hafi stórgrætt, svo að þau hafi ekki þurft að leggja fram nema lítinn hluta hlutafjárins, vegna þess, að innborguð iðgjöld hafa nægt til að standa straum af útgjöldunum. Þetta eru svo mikilsverðar upplýsingar, að jeg vænti, að allir geti nú sjeð, að hjer er ekki ógætilega af stað farið. Eitt þótti mjer undarlegt í ræðu háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), þegar hann kveðst kunna illa við sameiginlega ábyrgð fyrir vátryggingunni. Ef jeg man rjett, þá kunni hann ekki illa við þetta, þegar veðdeildarlögin voru síðast á ferðinni. Þá áleit hann þetta fyrirkomulag gott, því að það gæfi brjefunum meira gildi í útlöndum. Þá mintist sami háttv. þm. á það, að ef til vildi væri rjettast að láta innlenda skipaábyrgð ganga fyrir. Jeg álit þó, að rjett sje að láta í þessu efni fyrst um sinn nægja með Samábyrgðina, sem er góður vísir til skipaábyrgðarfjelaga. Hvað þetta innlenda ábyrgðarfjelag snertir, álít jeg, að með stofnun Samábyrgðarinnar sje stigið stórt spor í rjetta átt, því að jeg verð að álíta, að áhættan sje meiri á sjó en landi, og var því rjett að byrja á skipaábyrgðinni, og sjá hvernig sú tilraun gengi áður en lengra væri farið.

Jeg hefi lofað að vera stuttorður, og þótt margt hafi verið tekið fram, sem jeg hefði viljað svara, þá er jeg nú svo gjörður, að jeg vil ekki tala lengur nje oftar en nauðsyn krefur, og skal hjer því staðar numið.