25.08.1915
Neðri deild: 42. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

62. mál, stofun Brunabótafélags Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi lengi verið þeirrar skoðunar, að öll ábyrgðarfjelög ættu að vera innlend, og jeg vænti þess, að það geti komið fram í umræðunum um þingaályktunartillögu þá, sem er hjer síðar á dagskrá.

Hjer er nú deilt um það eitt, hvort hyggilegt sje, að gjöra breytingar á lögunum frá 1907, áður en rannsókn sje gjörð. Mín skoðun er sú, að við getum óhræddir sett innlend vátryggingarfjelög á stofn, og það undir eins, og það af þeirri einföldu ástæðu, sem einhver af flutningamönnum frumv, sagði — jeg held það hafi verið háttv. þm. Ak. (M. K.), — að óðara en hjer eru komin á stofn innlend vátryggingarfjelög og hætt verður við, að vátryggja í þeim erlendu, þá takast þau endurtrygginguna á hendur, og verða fegin. Það er því varla trúanlegt, að ef innlend fjelög yrðu sett á stofn, að ábyrgðin kæmi landinu í koll á þeim stutta tíma, frá því fjelögin tæku til starfa og þar til endurtryggingin fengist. Hjer virðist því, að verið sje að togast um keisarans skegg. Jeg mun því greiða atkvæði með frumvarpinu, en það byggist þó á því, að þingsályktunartillagan verði samþykt, svo að rannsókn verði gjörð áður en til framkvæmda kemur, en jeg skil einnig, að sú rannsókn verði hafin sem allra fyrst.