29.07.1915
Efri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

53. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Framsögumaður (Karl Einarsson) :

Frumvarp það, sem hjer liggur fyrir, er stjórnarfrumvarp og er fram komið vegna þess, að nauðsyn þótti að breyta lögunum um atvinnu við siglingar. Hefir það frv. þegar verið hjer til 2. umr. og verið vísað til 3 umr. Og ef þau lög ná fram að ganga, þá er nauðsynlegt að breyta lögunum um Stýrimannaskólann á þann hátt, sem hjer er farið fram á. Nefndin hefir athugað frv. og finnur ekkert að athuga við efni þess, og yfirleitt ekkert við það að athuga að öðru leyti. Að eins hefir nefndin komið fram með brtt. í þá átt, að setja íslensk orð í staðina fyrir orðin inclination og deviation, sem notuð eru í frumvarpinu, þó þannig, að útlendu orðin sjeu látin fylgja með innan sviga, til skýringar. Sumir nefndarmenn líta reyndar svo á, að þetta sje ekki til verulegra bóta fyrir íslenskt mál og geti jafnvel valdið ruglingi. Jeg vil benda á að orðið segulskekkja í 3. gr. má ekki standa, því að það orð er haft í annari merkingu anarsstaðar; er þar ósamræmi í frumvarpinu. Vona jeg að deildin samþykki þessa breytingu. Svo er brtt. á þgskj. 127 um að fyrir deflectorsins komi afhvarfsmælisins, en jeg held að það orð sje ekki heppilegt og geti valdið misskilningi. 4. breytingartillaga er að eins orðabreyting. Vona jeg að deildin samþykki frumvarpið og breytingartillögur nefndarinnar.