29.07.1915
Efri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

53. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Karl Finnbogason:

Eins og háttvirtur framsm. (K. E.) tók fram, er nefnd ekki sammála um það, hvort rjett sje að setja þau íslensku orð, sem stungið hefir verið upp á, í stað hinna útlendu. Í nefndinni komu fram tvær skoðanir um að, hvort rjett væri að taka útlend orð inn í málið eða ekki. Sumir hjeldu því fram, að rjettast væri að taka útlendu orðin hiklaust inn í málið og gjöra enga tilraun til að íslenska þau, aðra en þá, að leyfa þeim að ryðja sjer til rúms. Aðrir hjeldu því fram, að rjettara væri að finna íslensk orð og setja þau í lögin og láta útlendu orðin fylgja innan sviga til skýringar, til þess að komist yrði hjá misskilningi. Meiri hluti nefndarinnar samþykti þær breytingartillögur, sem nefndin nú hefir komið fram með, en ekki brtt. á þgskj. 127, sem þó er alveg sama eðlis. Tel jeg sjálfsagt, að hún verði samþykt, ef þær verða samþyktar, en að öðrum kosti feld. Ef afhvarf verður sett í staðinn fyrir deviation, er sjálfsagt að setja afhvarfsmælir í staðinn fyrir deflector, því að deflector er ekki annað en verkfæri til að mæla með deviationina. Jeg fyrir mitt leyti tel það sjálfsagða skyldu þingsins að semja lögin á íslenska tungu, og þess vegna eigi að taka upp íslensk orð yfir öll ný hugtök, sem lög mæla fyrir um. Hitt tel jeg jafn sjálfsagt, að útlendu orðin fylgi fyrst — í svigum —, svo enginn þurfi að misskilja, það, sem mælt er fyrir um.

Vona jeg að háttv. deild verði okkur tillögumönnum sammála og samþykki breytingartillögurnar.