10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Bjarni Jónsson:

Það hefir orðið tíðrætt um það, á þessu þingi, hvernig ástandið sje í landinu. Það væri að bera í bakkafullan lækinn, að bæta nokkru við það. En eitt af því, sem komið hefir fram við það tal, er rjett, og það er það, að einstakir hlutar þjóðarinnar sjeu illa staddir, þeir sem ekki lifa af föstum og háum launum eða hafa ekki neina framleiðslu. Einkum er það þó verkalýður þessa lands. Það er áreiðanlegt, að í Reykjavík og öðrum kaupstöðum er fjöldi manna, sem ástæða er til að ljetta undir, af því að bæði útlendar og innlendar vörur eru í svo gífurlega háu verði. Það er því fremur ástæða til þessa, þar sem viðurkent er, að aðrir flokkar manna í landinu sjeu flestir mjög vel stæðir. — Full ástæða væri til þess, að gefa þeim frest til borgana í veðdeild. En því miður verður erfitt að finna form fyrir því, því að varla er ráðlegt, að gefin sjeu út sjerstök lög um almennan gjaldfrest; þótt það væri nauðsynlegt, þá myndu ýmsir vera því mótfallnir.

Jeg hefi alt af verið því andhverfur, að þingið skelti skolleyrunum við öllum ráðstöfunum viðvíkjandi þessu misæri. Jeg hefi viljað, að stjórn og Velferðarnefnd væri veitt heimild til þess, að sjá þessum mönnum fyrir vörum með hæfilegu verði,og þó ekki með því, að kyrsetja innlendu vöruna, eða leggja óeðlileg og há gjöld á hana. Það er ekki gott að koma því heim og saman, svo að vit sje í.

En landstjórnin á að stuðla að því, að til sje nóg af erlendri vöru í landinu, svo að ekki þurfi að teppa útflutning á íslenskum vörum, sem eru nú í háu verði. Landið á að kaupa sjálft vörur, og gjöra samning við kaupmenn, að þeir birgi sig að vörum, þannig, að allir landshlutar hefðu nóg að bíta og brenna, svo að öllu væri borgið, þó að samgöngur stöðvuðust.

En það var þó langt frá því, er hjer í þessari háttv. deild var rædd tillaga til þingaályktunar um kaup á erlendum matvörum, að því máli væri vel tekið. Það var út frá því gengið, að skipagöngur hingað til lands gætu ekki tepst. »Djúpir eru Íslands álar«, sagði tröllkonan, og eins hygg jeg að Velferðarnefndinni myndi finnast, ef hún ætti að vaða þá, og bera kornið heim, þegar skipin eru ekki lengur fáanleg.

Ef einhverjar innlendar vörutegundir þarf að stöðva, t. d. kjöt og fisk, þá gengi sjálfsagt langur tími í samninga og kaup á vörunni.

Það er nú á valdi stjórnarinnar hvor leiðin er farin, hvort heldur a,ð innlenda varan er kyrsett og keypt handa landsbúum eða keyptur er forði útlendrar matvöru. En hvor leiðin sem farin er, þá þarf stjórnin að hafa fje með höndum, er þingið hefir veitt í því skyni. Annað hvort lánsheimild, ef lán er hægt að fá, eða tekjur. Þetta kostar fje, og því þarf að afla landssjóði fjár á einhvern þann hátt, er ekki ríður í bág við almenna skynæmi og rjett.

Nú eru hjer fram komnar tvær stefnur, til þess að afla landssjóði fjár með nýjum tekjugreinum önnur stefnan er útflutningstollur. Jeg skal nú geta þess fyrst og fremst, að alment sjeð eru útflutningstollar þeir örgustu tekjustofnar, sem til eru, og ef þeir standa lengi, þá hljóta þeir ætíð að hepta framleiðsluna á einn eða annan hátt. Þetta er líka viðurkent af menningarþjóðunum, og vitlausastir af öllu verða þeir þó í harðæri, því að þeir hitta jafnt ríka og fátæka, og þótt alt af sje ranglátt að leggja gjaldabyrðar á fátæklinga, þá er það þó verst, þegar neyðin kreppir að.

Fyrir nokkrum dögum var nú riðið allgeist úr hlaði hjer í deildinni með frv. í þessa átt, sem var svo úr garði gjört, að eftir því átti tollurinn að hækka því meira hlutfallslega., sem varan, er hann hvíldi á, lækkaði í verði. Nú snerust menn örðugir gegn þessu. Einkum voru bændur margir því mjög andvígir, og svo jeg, frá almennu sjónarmiði, af því að jeg taldi það ranglátt og óviturlegt.

Eins og menn muna, var það frv. svo felt, og Velferðarnefndin vildi segja af sjer, en var svo beðin í sameinuðu þingi allra náðarsamlegast að taka að sjer starfið aftur. En vitanlega hefði enginn af þeim, sem feldu frv., farið svo harkalega í sakirnar, ef þeir hefðu ekki álitið sjálfa stefnuna, eða grundvöll frv., alveg óhafandi.

Þess vegna varð jeg að skilja þá svo, sem þeir væru með öllu mótfallnir þeirri meginreglu, sem frv. þetta bygðist á, sem sje að útvega tekjur með tolli á útfluttum afurðum, og þó, sjerstaklega í hörðu ári. Þess vegna var ekki laust við, að það kæmi mjer kynlega fyrir sjónir, þegar mjer er sýnt frv. á sama grundvelli, frumv., sem þá hafði verið tekin ályktun um af öllum flokkum, nema oss Sjálfstæðismönnum. Það er ekki laust við að vera kynlegt, segi jeg, þegar menn eru alt í einu orðnir fylgjandi sömu stefnunni, sem þeir börðust áður svo hart á móti. Því að stefnan er sú sama í báðum þessum frumvörpum, þótt hið síðara sje hóti sanngjarnara, þar sem hún leggur þó ekki tollinn nema á verðhækkun.

Jeg sagði, að stefnan væri hin sama, og það getur engum blandast hugur um, þótt henni sje ekki eins harkalega beitt í þessu frv., sem nú liggur hjer fyrir. Og hver er hún þá? Ef jeg ætti að nefna hana í einu orði, þá yrði það líklega nýyrði, en það mætti gjarnan festast við hana, og það er fátækra flátta. Hjer er verið að flá fátæklingana. Auðvitað er ekki unt að gjöra að svo, að það komi ekki um leið nokkuð niður á hinum efnuðu, en aurarnir eru engu síður fyrir það teknir úr vösum hinna fátæku, og látnir — hvert? Jeg skal koma að því seinna.

Það tjáir ekki að stagast á því, að nú fái menn hærra verð en ella, vegna stríðsins, og þakka því það, að vjer tórum, því að ef tekjurnar verða samt ekki nógar, þrátt fyrir háa verðið, hvað á þá að gjöra? Taka af bændum það, sem þeir mistu í fyrra, eða hvað? Er það hjálpræði Alþingis í örðugu árferði, að taka eyrinn af einum fátækum handa öðrum fátækum í besta lagi, eða þá bara beint í landssjóð? Nei, þegar einhver flokkur þjóðarinnar verður verr úti en aðrir, þá á hann ekki að fá hjálpina úr vasa hinna fátæku, heldur þeirra., sem betur eru staddir. Það er eina rjetta leiðin, og það er alveg sama, hvort hinir bágstöddu eru verkamenn í kaupstað eða bændur í sveit, og alveg sama, hvort maður heitir framleiðandi eða ekki, hvort hann er fiskimaður eða iðnaðarmaður, ef þörfin er annars vegar. Það er engu meiri ástæða til að leggja toll á fiskinn sjómannsins en á skóna, sem skósmiðurinn selur, þegar menn vita, að báðir eru illa staddir. Það eru efnamennirnir, sem styrkurinn á að koma frá, og þess vegna hefi jeg líka borið fram frumvarp um tekjuskatt um stundarsakir, til hjálpar í misærinu. Jeg verð nú sá eini af nefndarm., sem verð því fylgjandi, og hefi fyrir löngu sent frá mjer brtt. og nefndarálit, en meiri hlutinn hefir enn ekki gjört neitt að því, þótt hann hefði auðvitað ekki þurft að skrifa meira en svo sem 2–3 línur.

Jeg veit nú ekki hvort hjer er á ferðinni þetta vanalega þingbragð, að sitja á málunum, eða eitthvað annað verra, en jeg skora á hæstv. forseta að heimta það, að þessir menn gjöri skyldu sína, og láti uppi álit sitt um mál, sem þeir hafa verið kosnir til að athuga. Og eitt atriði var það í mínu frv., sem einnig ætti að vera í þessu, og það er ákvæði um það, að fje það, sem ætlast er til að landssjóði græðist við það, megi verja í ákveðnu skyni, hjálpa þeim mönnum til að fá vörur, innlendar og útlendar, við þolanlegu verði, sem ekki eru framleiðendur. Hjer í þessu frumv. er ekkert ákvæði um það, hvernig fjenu skuli varið á eftir, eins og hv. framsm. svo viturlega tók fram, og mætti því þess vegna gjöra við það hvað sem vildi, t. d. sökkva því öllu í Miklavatnsmýrina. Það væri dáindis ánægjulegt að kasta þessu fje t. d. í einhvern af þessum ónýtu vegum, sem vagnarnir sitja fastir í strax á næsta ári, eins og t. d. Eyjafjarðarbrautin var, þar sem vagninn hans Magnúsar á Grund sökk upp á mið hjól, svo að ná varð honum upp með járnköllum. Til slíkra ráðstafana má nota þenna skatt, sem kreistur er undan blóðugum nöglum manna. Ætli það væri ekki dálítið viðkunnanlegra, að ákveða, eina og gjört var í mínu frv., að þetta fje skuli ganga til þess, og þess eins, að jafna misæri það, er nú stendur yfir, og það af fjenu, sem ógoldið kann að verða, þegar fram úr því raknar, skuli aldrei verða innheimt. Þetta frv. sem hjer er um að ræða, er ekkert annað en nýr tollur, sem á að lauma á bæði sveitabúskap og sjávarútveg, og það er ekki einu sinni látið svo lítið, að segja, að þetta sjerstaka gjald eigi að vera til þess að hjálpa mönnum til að standast dýrtíðina. Það er auðvitað tilætlunin undir niðri, að þetta verði fastur skatttur, og það er ekki til neins fyrir neina Farisea, að berja sjer á brjóst og segja, að það sje ósatt.

Jeg er nú ekki svo »samvinnuþýður« maður, að jeg fáist til að greiða því atkvæði í dag, sem jeg taldi ranglátt og óhæft fyrir 5 dögum, og það ekki frekar fyrir það, þótt því hafi verið breytt dálítið að búnaði til, svo að það sje ofurlítið minna ranglátt nú. Og mjer kemur það á óvart, að allir, sem feldu hitt frv., skulu ekki standa saman í einum hóp að því, að fella þetta líka, og eins hitt, ef landsmenn fá ekki að frjétta nokkurn veginn greinilega ástæður allar, sem að þessu liggja. Jeg ætla ekki að fara að rekja þær hjer, en seinna kann jeg að leyfa mjer það. Það er hvort sem er orðið til hneykslis, alt þetta bags þingsins, þar sem útflutningstollur er fyrst feldur frá 2. umr. með mikilli grimd, en þó verða úrræðin þegar til kemur, engin önnur en — útflutningstollur.