29.07.1915
Efri deild: 18. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

53. mál, Stýrimannaskólinn í Reykjavík

Eiríkur Briem:

Það getur verið gott, sem háttvirtur síðasti ræðumaður hjelt fram, að setja íslensk orð sem víðast í stað útlendra orða, en hitt er þó meira um vert, að íslensk tunga sje töluð og rituð eins og vera ber. En það er algengt að menn, sem ekki geta tekið sjer í munn orð eins og kílómeter, blygðast sín ekki fyrir að láta orð stýra skökkum föllum.

Þegar Stýrimannsskólinn var settur á stofn fyrir 25 árum voru orðin inclination og deviation notuð í lögunum. Þetta eru sjerstök hugtök fyrir þá menn, sem þessa fræðigrein læra, en alþýða manna notar aldrei þessi orð. Jeg get því ekki sjeð að þessi orð verði íslenskri tungu til lýta. Það mætti bera sömu ásökun fram gagnvart Snorra Sturlusyni og Sturlu Þórðarsyni eins og borin er fram á móti þeim mönnum, sem vilja halda þessum útlendu orðum. Forfeður okkar hafa tekið upp fjölda af útlendum orðum, t. d. þegar kristni kom til landsins, eins og orðin biskup, prestur og fleiri orð. Jeg hefi jafnvel heyrt, að öll orð, sem byrja á p, sjeu af útlendum uppruna. En þetta hefir ekki skemt málið. Annað, sem mælir á móti að taka upp þau nýyrði, sem hjer er farið fram á, er að þau eru ekki heppilega valin. Jeg vil taka til dæmis orðið segulhalli. Það getur verið gott orð út af fyrir sig, en það þarf að sjást um halla frá hverju er að ræða. En hjer er engin bending um það frá hverju halli. Sama máli gegnir um orðið afhvarf. Þar er engin bending um frá hverju hvarfið er.

Jeg sje því ekki annað, en að þessi orð sjeu meiningarlaus og því alls ekki bóta. Annars má hver hafa sína skoðun á þessu. En ef þeir, sem þykjast styðja íslenska tungu með þessu, geta ekki notað orð eins og deflector, hvernig geta þeir þá notað orð eins og t. d. pólstjarna? Því á ekki að kalla það heimskautsstjörnu ?