10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Guðmundur Eggerz:

Jeg verð að segja það, að mjer finst bekkirnir nokkuð þunnskipaðir hjer, þegar þó slíkt vandamál er fyrir hendi, sem nú er á dagskránni. Það er haft fyrir satt, að nú ætli sumir að kyngja, ekki gömlum, heldur nýjum upptuggum sínum. Jeg ætlaði með nokkrum orðum að láta í ljós skoðun mína á gjörðum Velferðarnefndar, áður en jeg vík að frumv. Eins og menn muna, kom nefnd þessi hjer um daginn með frumvarp, þess efnis, að leggja útflutningstoll á helstu íslenskar afurðir. Var áætlað, að tollur þessi mundi nema 900 þús. kr. Frumvarp þetta fór þannig fyrir þeim háu herrum, að það var felt frá nefnd og annari umræðu. Jeg á ekkert útistandandi við þessa menn, sem í nefndinni sitja. Um daginn greiddi jeg atkvæði á móti frumv., vegna þess, að jeg vil ekki, að 900 þús. kr. tollur eje að óþörfu lagður á aðalatvinnuvegi landsins. Það vakti raunar ekki heldur traust hjá mjer á nefndinni, að hún flutti þetta frumvarp. Um sama leyti kom einnig frumv. frá háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.), þar sem hann sýnir, hvernig ætlast sje til að fje þetta verði notað, hvernig þessum 900 þús. eigi að úthluta. Bændur eiga að fá 80 kr., en fjölskyldumenn í kaupstöðum 40 kr. Eru það uppgrip fyrir vel efnaða bændur.

Þetta felda frumvarp er nú gengið aftur, og mjer er sagt, að það hafi nú örugt fylgi hjer í deildinni, enda þótt það sje nákvæmlega sama frumv., sem þeir feldu um daginn. Og það má furðanlegt heita, að sömu mennirnir, sem um daginn feldu frumv., skuli nú vera alveg umsnúnir, svo að þeir greiða nú atkvæði með því.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) var á móti þessu frumv. um daginn, vegna þess, að hann vildi ekki hafa toll á þessum afurðum. Þetta frumv, hefir því ekki aflað sjer fylgis á öðru en því rugli, sem fór fram um þetta mál í sameinuðu þingi hjer á dögunum. Mjer er líka sagt, að frumv. hafi fæðst af þeirri »Comediu«. Þá lögðu 4 nefndarmenn niður störf sín, en gengu þó jafnframt um milli manna, til að beiðast endurkosningar. Og jeg verð að segja, að mjer fanst þessi endurkosning nóg uppreist fyrir nefndina, enda þótt frumv. væri ekki samþykt.

Það er nú eiginlega nauðsynlegt að taka það fram, hvernig þetta frumvarp hefir fæðst. Það hefir gengið milli allra flokka, nema þess flokks, sem jeg stend í kosningasambandi við, og þó, held jeg að þeim háu herrum, sem flytja þetta frumv., hefði verið betra að koma til flokks okkar með þessa frumvarpsnefnu sína, svo að eitthvað hefði verið hægt að laga hana.

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) hefir komið fram með brtt., sem bætir þetta frumvarp mikið. Hann hefir á einum eða tveimur tímum betur sjeð gallana á þessu frumv., heldur en þeir háu herrar, sem lengi hafa gengið með það. Jeg segi þetta að eins til þess, að sýna fram á, að það er ekki rjett, að gjöra slíkt mál og þetta að flokksmáli.

Jeg slæ því föstu, að Velferðarnefndin er ekki lengur nefnd, sem hugsar um almenna heill alls landsins, heldur hápólitísk nefnd, sem ekki hugsar um annað en að berja fram flokksmál.

Jeg sný mjer svo að frumvarpinu. Við sáum ekki þetta frumv., fyrr en í nótt og morgun, svo að enginn tími hefir verið til að athuga það. Það er hart, að málið skuli vera tekið til umræðu svona alveg undirbúningslaust. Mjer og öðrum þykir óeðlilegt, að leggja á framleiddar vörur í landinu. Hingað til hefir gjald einungis verið lagt á fisk og hvalaafurðir. Jeg er algjörlega á móti þessari stefnu í skattalöggjöfinni. Hefði þó ekkert að athuga við gjaldið á hvalaafurðum, því að þar áttu útlendingar í hlut. Ef þetta frumvarp verður samþykt, þá er enginn vafi á því, að þessir skattar leggjast seint niður; því að þeir menn, sem nú greiða atkv. með því, munu og síðar ljá atkvæði sitt til framhaldandi útflutningsgjalds á kjöti og smjöri.

Þeir segja., að þetta frumv. sje nauðsynlegt, vegna þess, hve lítið fje er fyrir hendi í landssjóði; en það er nú einmitt það kynduga við það, að þeir litlu peningar, sem inn mundu koma samkv. þessu frumv., eru ekki ætlaðir til að bjarga landinu, heldur nefndinni.

Ef gjald þetta kæmi á allar vörur, sem framleiddar væru hjer á landi, mundi það verða nálægt 370 þús. kr.; og sýnist mjer ekki ráðlegt, að breyta öllum skattafrumvörpum og allri tolllöggjöf þess vegna. En í ár mun þetta gjald ekki verða nema um 60–80000 kr., fyrir þá sök, að mikið af fiski er þegar flutt út og öll ull, nema haustull.

Þótt ekki hafi jeg haft mikinn tíma til þess að gagnrýna frumvarpsónefnu þessa, hefi jeg þó í flýti gjört samanburð nokkurn á sjávarútvegi og landbúnaði.

Útvegsbóndi,sem heldur úti mótorbáti, verður að greiða aukið útflutningsgjald, um 1 kr. á skippundi. Setjum svo, að báturinn fiski 140 skpd., þá er gjaldið 140 kr., og nú ber þess að geta, að salttonnið kostar yfir 50 kr. og steinolía er afar dýr.

Hins vegar greiðir bóndi, sem slátrar 35 dilkum, ekki meira gjald en kr. 3,50. Jeg hefi áætlað, að hann selji 3½ tn. af kjöti. Sjá nú ekki allir, að gjaldið kemur ekki rjettlátlega niður á þessi tvö heimili. Og geta má þess, að slátrið er að öllu leyti gjaldlaust.

Þá sagði háttv. flutningsm. (P. J.), að tryggastur væri skatturinn af kjöti. Það mætti líka segja, að sá skattur væri einna minstur, og tryggastur er hann minsta kosti ekki í ár, því að nú er búið að selja mikið af kjöti. (Jóhann Eyjólfsson: Það er ekkert kjöt komið út enn). Það er ekkert kjöt komið út enn, segir háttv. þm. Mýr. (J. E.) en jeg veit, að t. d. Sláturfjelagið er búið að selja það mesta af sínu kjöti, og mjer er kunnugt um, að kaupmenn fyrir austan eru einnig búnir að selja mikið kjöt.

Jeg vil endurtaka þetta um ullina, að ástæðan til þess, að hún er í svo háu verði nú, er sú, að eftirspurnin hefir verið svo mikil, af því að það hefir átt að flytja hana til Þýskalands. En nú er ullin orðin bannvara, og mun hún því ekki verða í svo afskaplega lega háu verði að ári. Mjer er kunnugt um, að það hefir verið neitað að taka ull til flutnings, nema trygging fengist fyrir því, að hún yrði ekki flutt úr landi í Danmörku.

Þetta frumvarp er ekki til gagns fyrir neinn, því að eins og háttv. flutnm.

(P. J.) sagði, er það nauðalítið, sem það gefur landssjóði í aðra hönd. Ef vörurnar lækka í verði að ári, þá fær landssjóður ekki 5 aura. Svo vil jeg tala það fram, að ef svona skatta ætti að leggja á, þá væri miklu hreinlegra, að leggja eina krónu á hvert skipund t. d.

Jeg vona, að menn sjái, að þetta frv. er aðallega komið fram hjer í deildinni af pólitískum ástæðum.