10.09.1915
Neðri deild: 56. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1230 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Skúli Thoroddsen:

Jeg tel rjett að geta þess, að frv. þetta er ekki sömu tegundar, sem frv. það, er »Bjargráða«eða »Velferðar«-nefndin svo nefnda leyfði sjer að bera upp hjer í deildinni, og sem jeg taldist þá einn flutningsmannanna að, þó að jeg væri því andvígur.

En ástæðan til þess, að jeg — þótt andvígur frumvarpinu væri — gjörðist þá einu flutningsmanna þess, var — eins og jeg hefi þegar áður skýrt frá hjer í deildinni — bæði sú, að sjást átti, að frumvarpið væri borið fram að vilja »Velferðarnefndarinnar«, og hin, að nefnt útflutningsgjaldsfrumvarp lá fyrir fullsamið, enda gjörði jeg þá og ráð fyrir, að bæta mætti það þá og í nefnd, sem þyrfti, eða þó nota það, sem tilefnið, er kæmi hreyfingu á málið, þ. e. um tekjuaukningu landssjóðnum til handa, á þinginu.

Á hinn bóginn lýsti jeg því og þegar yfir hjer í deildinni, er nefnt útflutningsgjaldsfrumvarp var rætt, að jeg teldi rjettara, að miða útflutningsgjald, ef á yrði lagt, við verð vörunnar, en við þunga hennar, með því að útflutningsgjald, er eigi miðaði neitt við verðið, yrði ósanngjarnt, og ranglátt, ef varan fjelli í verði, þótt sanngjarnt mætti álítast, er við óeðlilega hátt, og al-óvanalegt, verð á vörunni væri miðað.

Háttv. þm. V.-Sk. (S. E.) ljet í ljós, að hann óttaðist, að gjald það, er nú um ræðir, yrði fast gjald, úr því að það væri einu sinni á komið, en hjer getur ekki orðið um áframhaldandi fast útflutningsgjald að ræða, með því að frv. er sjálffallið úr gildi, — hættir að gefa landssjóðnum tekjur, jafnskjótt, er varan fellur á verði, og jafnvel áður en hún kemst niður í það verð, sem alment hefir þó verið talið óvanalega hátt, þar sem hún nær þá og eigi upp fyrir það, sem einatt er gjaldfrjálst, þ. e, eftir frumvarpinu.

Að því er útflutningagjaldið af sjávarafurðunum snertir, eins og gjört er ráð fyrir því í frumv., vil jeg og benda á, að mjer finst upphæðin, sem gjaldfrjáls á að vera, töluvert of há, er jeg miða við það, sem alment hefir þó verið talið óvanalega hátt verð, og væri því ef til vill ástæða til þess, að færa gjaldfrjálsu upphæðina niður um 10–15%.

Gjaldfrjálsa upphæðin, eftir frv., er nú kr. 92,80 á mál fiski, en kr. 83,20 á smáfiski, hvert skipund. En að undanförnu hefir það þó verið talið alveg óvanalega hátt verð á málfiski, ef hann hefir staðið í 80–85 kr. skipundið, og á smáfiski, ef verðið hefir verið 60–65 kr. skipundið.

En þó að jeg líti nú svona á málið, hefi jeg þó ekki flutt brtt. um lækkun á gjaldfrjálsu upphæðinni, enda hafa að frumvarps smíðinni unnið þeir menn, sem gott vit hafa á málinu, þ. e. hv. þm. Ak. (M. K.) og háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), enda ber þess nú og að gæta, að kol, olía, o. fl., sem til útgjörðar þarf, er nú í hærra verði, en venjulegt er, og öflun sjávar-vörunnar því töluvert dýrari en verið hefir á undanförnum árum, og á það mun þá og hafa verið litið, sem og rjett var, er gjaldfrjálsa upphæðin var til tekin.

En þó að þessu sje nú þannig farið, vona jeg, að háttv. flutningsmenn taki þetta atriði þd til athugunar, því að það er óviðkunnanlegt, ef svo væri á litið, sem hærra gjald væri af landsafurðum en sjávarafurðum, — eða sjávarafurðunum talið hlíft, á samanburði við afurðir landbúnaðarins. —

Leitt væri og, ef svo færi — og væri, með þó nokkrum rökum kent því, hve mikið var gjaldfrjálst, hvað sjávarútveginn snertir — »leitt, ef svo færi«, að ekkert hvíldi að lokum á sjávar-afurðunum, nema vana-útflutningsgjaldið en ný-tollurinn þó áfram á land-afurðunum.

Þá sje jeg og, að háttv. flutningsm. hafa slept sumu, sem nefnt er í lögunum frá 4. nóv. 1881, eins og niðursoðnu fiskmeti, sundmaga, hrognum og laxi, og stafar það þá líklega af því, að þeir hafa litið svo á, sem hjer væri um svo lítið að ræða, að ekki munaði um toll af þessu.

Út af ummælum háttv. 2. þm. S.-M. (G. E.) mótmæli jeg því gagngjört, hvað mig snertir; að það sjeu pólitískar ástæður, sem til grundvallar liggi, að því er útflutningsgjaldið, sem hjer um ræðir, snertir, enda er mjer vel kunnugt um það, að þegar frv. var rætt í »Bjargráða«— eða »Velferðara-nefndinni, sunnudaginn 5. sept. þ. á., var það eingöngu það, að sjá landssjóði fyrir tekjum, sem til grundvallar lá.

Að öðru leyti endurtek jeg og, að það var alveg rjett hjá háttv. 2. þm. Rang. (E. P.), eins og jeg einnig vjek að í ræðu minni um daginn, að sem stendur, eru engin vandræði eða neyð í landinu, en þetta getur, á hinn bóginn, að borið á hverri stundu, og ríður þá á því, að vjer sjeum ekki varbúnir, og því tel jeg það mjög vel farið, er bændastjettin á þinginu hefir nú og orðið til þess, að fylgja því fram, að landssjóður fái tekjur á þann hátt, sem til er ætlast í frumvarpinu.

Óska jeg því að lokum, að frv. gangi greiðlega og friðsamlega gegnum þingið, þótt nú sje nokkur hávaði hjer í deildinni um sum atriðin.