11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

150. mál, bráðabirgðaverðhækkunartollur

Flutnm. (Pjetur Jónsson):

Jeg skal reyna að tefja ekki tímann of mikið með umræðum, en jeg er knúður til að gjöra nokkrar athugasemdir, fyrst til skýringar frumv. og síðan um breytingartillögurnar.

Það verð vörunnar, sem leggja á til grandvallar, er verðið fob, frítt um borð, án þess að dreginn sje frá nokkur innanlandskostnaður. Aftur á móti ef varan er ekki seld þannig, það er að segja fob, heldur cif, þá dregst frá kostnaður við hana, eftir að hún er komin í skip, svo sem flutningskostnaður, sjóábyrgðargjald, miðlarakostnaður, umboðslaun o. s. frv. Þetta er ekki tekið upp alveg tæmandi í 2. grein, en jeg tek þetta fram til leiðbeiningar fyrir þá, sem framkvæma eiga lögin.

Þá er 3. grein. Það hefir verið vikið að því, að gjaldfrjálsa verðið væri sett nokkuð hátt, og gjaldið því afar stopult fyrir landssjóð. Það er auðvitað ákaflega mikið undir því komið, að hið háa verð á vörunum haldist, hverjar tekjur landssjóður fær, samkvæmt frumvarpinu. Í sjálfu sjer er þetta rjett athugað. En það er annað mál, hvort rjett sje, að lögin nái til annars hluta verðsins en þess, sem er beinn gróði. Það ætti ekki að vera, og því er verðið ekki of hátt, vegna þess, að framleiðslukostnaður hefir aukist mjög mikið. Þar að auki vil jeg gjöra þá athugasemd, að það er búið að hafa mikið fyrir því, að koma sjer saman um verðið. Ef farið verður að breyta því í einstökum atriðum, er jeg hræddur um, að erfitt verði að ná samkomulagi aftur. Tíminn er nú orðinn naumur, og því verður að hraða málinu sem mest, og því ekki heppilegt að fara að raska því verði, sem menn hafa komið sjer saman um.

Það hefir líka komið til orða að hafa gjaldið stighækkandi, eftir því, hve mikil bein verðhækkun væri, og það væri rjettlátast. Eins og jeg tók fram við 1. umræðu, er að eins lítið tillit tekið til aukins framleiðslukostnaðar, og þess vegna var rjettlátt að hafa gjaldið stighækkandi, og þá lágt á þeirri verðhækkun, sem að eins mætir hækkandi kostnaði. En með því hefði útreikningur, innheimta og öll framkvæmd laganna skapað ýms vafamál og orðið svo umsvifamikið, þegar jafnframt þess er einnig gætt, að hjer er að eins tjaldað til einnar nætur með þessu gjaldi.

Þá hefir það einnig verið fundið að frumv., að innheimtulaunin væru of lág, 2%, og er það líklega rjett athugað, því þótt innheimtulaunin yrðu sæmileg, eins og verðið er í augnablikinu, þá yrðu þau það ekki, þegar verðið lækkaði, þar sem það er sama fyrirhöfnin við það að reikna gjaldið út, hvort sem verðið er hátt eða lágt. En af því að lögin eiga að gilda svo stutt, er vonandi að gjaldheimtumenn láti þetta ekki á sjer festa, enda hefi jeg ekki heyrt neinn af þeim gjaldheimtumönnum, sem á þingi sitja, tala um það.

Þá er 6. gr. Hún ræðir um það; hvernig eigi að reikna það verð, sem til grundvallar er lagt, þegar varan er ekki seld áður en hún er flutt út, eða skýrslur eru ófullnægjandi að einhverju leyti. Jeg hygg, að engin vandræði þurfi að verða úr þessu, því að lögreglustjórum mun það jafnan kunnugt, hvað hver vörutegund er seld fob í viðkomandi hjeraði eða kaupstað, og getur miðað við það, ef hann verður að ákveða verðið. Það er svo venjulega að þótt eitthvað af vörunni sje sent óselt út, þá er jafnframt eitthvað selt fob, og þótt gjaldheimtumenn hafi ekki verðið á útflutningsstaðnum, þá geta þeir miðuð við verðið á nálægum stöðum. Það getur því aldrei orðið hætta á því, að hægt verði að draga undan svo miklu nemi af því, er menn græða við að selja ekki fob; heldur erlendis.

Þá kem jeg að brtt. flutningsmanna. 1. og 3. brtt. er að eins lagfæring á handritinu. Það, sem þær hljóða um, fjell úr, þegar frumv. var prentað upp. 2. liður á þgskj. 909 er fram kominn fyrir bendingu frá kaupmönnum hjer í bæ. Þegar útflytjendur, sem ekki eru jafnframt framleiðendur, hafa keypt vöruna áður en lög þessi ganga í gildi, þá legst á þá aukagjald, er þeir hafa ekki gjört ráð fyrir. Þetta gjald viljum við að sje afturkræft af framleiðendum, svo framarlega, sem því verður við komið. Það er samkvæmast tilgangi laganna, að þessu sje hagað á þenna hátt. Auðvitað verður ekki við því gjört, að undantekningar geti orðið, svo að þetta gjald náist ekki aftur hjá framleiðendum, en við höfum viljað gjöra það, sem við höfum getað í þessu. En vera má, að það komi ekki útflytjendum að haldi, nema í þeim tilfellum, að þeir sjeu ekki búnir að borga vöruna. Við þetta atriði er brtt. frá háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.). Honum virðist sem í okkar tillögu felist ekki það tilfelli, að milligöngumaður sje milli framleiðanda og útflytjanda. En okkur virðist óþarft að vera að blanda þessu inn í lögin, þar sem það er skýrt tekið fram, að gjaldið eigi að lenda á framleiðendum, þegar því verður við komið. Þeir verða að koma sjer saman í þessu efni, millimennirnir, ef þeir eru fleiri en einn, og tilfellin geta ekki orðið mörg.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt, sama háttv. þm. (B. K.) á þgskj. 904. Fyrstu brtt. gjöri jeg ráð fyrir, að hann taki aftur, þar sem nefndin hefir komið með sama konar brtt. Um hinar brtt. er það að segja, að eins og jeg tók fram í gær, þá vildum við flutningsmenn ekki blanda inn í frumv. neinum ákvæðum um ráðstafanir á tekjum þeim, er landssjóði áskotnuðust við lögin; þær rynnu bara beint í landssjóð. Þegar svona er áliðið þingtímans, þá gæti svo farið, að slík ákvæði gætu sett frumv. í hættu, vegna þess, að ágreiningur gæti orðið um ráðstöfun teknanna, þótt samkomulag væri um gjaldið sjálft. Svo er opinn vegur að koma því með þingsályktunartillögu, að ráðstafanir þær verði gjörðar, er brtt. ræðir um. Sama er um lánsheimildina í síðustu brtt. að segja, það mætti koma því að í sambandi við eitthvert dýrtíðarfrumv., eða sem sjerstakri tillögu. Nefndin verður því að leggja á móti þessum brtt.

Skal jeg svo ekki orðlengja þetta meir. Það væri æskilegt, tímans vegna, að frumv. gæti gengið sem tafarminst gegnum þingið.