26.08.1915
Neðri deild: 43. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

109. mál, skipun dýralækna

Framsögum. minni hl. (Guðm. Hannesson):

Jeg vil sem minst tala um einstök atriði þessa frumv., heldur alment, enda er það grundvöllurinn, sem skiftir mestu. Það hlýtur að vera öllum ljóst, að þetta mál er algjört stefnumál, þar sem ekki kemur einungis til greina stofnun þessa eina embættis, heldur það, hvort stofna skuli dýralæknastjett í landinu. Eftir því, sem mjer skilst, þá hefir vakað fyrir háttv. meiri hluta, að fá fjórðungsdýralækna. En mjer skilst, að hjer sje einungis um tvent að ræða. Annað er það, að til sje í landinu 1–2 dýralæknar, landsdýralæknar, er gefið geti stjórninni allar nauðsynlegar upplýsingar um dýralæknamál, og hafi svo umsjón með þeim framkvæmdum, er gjörðar verða til að verjast dýrakvillum, og svo það, sem mest er um vert, fylgist með öllum framförum í dýralækningum í útlöndum og leiðbeini alþýðu að hagnýta þær, sem hjer mættu aðgagni koma. Öllum þessum kröfum ætti að vera sæmilega fullnægt með þeim tveim læknum, er við höfum nú. Jeg get því ekki sjeð neinn vinning í þessu tilliti í því, að fara að bæta við nýjum manni. Þó hann sje nú nýr af nálinni, eldist hann líka á fám árum, og óvíst, að hann fylgist þá betur með en hinir, sem fyrir eru. En sje nú hin stefnan tekin, að koma upp hjeraðadýralæknum, þá er það ljóst, að það eykur útgjöld landsins um ekki minna en 50,000 kr. á ári, þegar læknar eru skipaðir í sjálfsögðustu hjeruðin. (Bjarni Jónsson: Hvernig er þetta í öðrum löndum?). Í öðrum löndum? Því víkur alt öðru vísi við. Gripir eru miklu dýrmætari þar en hjer, í hærra verði. Auðvitað getur oft verið mikils vert hjer á landi, að geta bjargað ágætis hesti eða afbrags mjólkurkú, en slíkt eru þó undantekningar. Stórtjón þau, er bændur bíða hjer á landi, eru innifalin í farsóttunum, er geisa meðal kvikfjenaðarins, til dæmis bráðapestin, eins og tekið er fram í nefndaráliti minni hlutans.

Hvað það stórtjón snertir, er þessar drepsóttir valda, þá væri sannarlega mikið fje borgandi til, ef hægt væri að koma í veg fyrir þær. En menn færast ekki feti nær því, að vinna bug á þessum kvillum, þó dýralæknum væri fjölgað. Slíkt er helber ímyndun. En það var þetta, er vakti fyrir mönnum þegar dýralæknalögin voru samþykt í fyrstunni, Menn stóðu þá uppi ráðalausir gagnvart þessum drepsóttum, og hugðu, að fjölgun dýralækna væri einhlítt ráð gegn þessu tjóni. Við höfum allir sjeð þess dæmi nú, hvernig bæst hefir úr því, að svo miklu leyti sem það hefir tekist. Bráðapestin var til skamms tíma ólæknandi sjúkdómur. Dýralæknarnir gátu ekkert aðhafst. Loks kom danskur vísindamaður fram á leiksviðið, er tekur til að rannsaka orsök veikinnar, og er hún var fundin, hvernig mætti verjast veikinni. Slík rannsókn var vandasöm og ekki annars meðfæri en vísindamanns, sem þaulvanur var slíkum störfum og hafði öll nauðsynleg tæki til þeirra.

Nú, þegar hann hefir rutt brautina, þá fyrst komu dýralæknarnir að haldi, og þó að eins sem milligöngumenn milli hana og manna út um landið, til þess að kenna þeim að fara með meðalið. Jeg átti nýlega tal um þessa fjölgun dýralækna við fróðan mann í þessum greinum. Það var einungis eitt atriði, er hann lagði áherslu á, að ætti að verða til þess að fjölga dýralæknum, og það var kjötskoðunin. Hann áleit það hættulegt fyrir kjötmarkað vorn, ef dýralæknar væru ekki látnir skoða alt kjöt, er útflutt væri. Allir heilvita menn hljóta nú að sjá, hversu lítilsvert atriði þetta er í þessu tilfelli. Austfirðingafjórðungur væri alveg jafn illa settur eftir sem áður. Bændur slátra þar á svo mörgum verslunarstöðum, og ekki getur dýralæknirinn verið alstaðar nálægur í sláturtíðinni. Og óhugsandi væri, að ætla sjer að láta eitt kauptúnið bíða eftir öðru, þannig, að byrjað yrði t. d. á Vopnafirði, og svo haldið á Suðurfirðina í röð. Bændur gætu ekki beðið með sláturfje sitt, hversu sem viðraði að haustinu, og þetta myndi þá reynast óframkvæmanlegt. Jeg skal fúslega játa það, að kjötskoðun er ekki starf hjeraðslækna, en þeir geta gjört það, alveg eins og dýralæknar, ef þeir eru samviskusamir menn. En annars skal jeg endurtaka það, sem stendur í nefndaráliti minni hlutans, að jeg hygg, að mjög lítil eða nálega engin sýkingarhætta stafi af íslensku kindakjöti. Berklaveiki er afar sjaldgæf í fje, þó hún sje algeng í nautgipum, og heilnæmara kjöt get jeg varla hugsað að sje til en af íslenskum dilkum, sem alið hafa aldur sinni uppi á fjöllum og aldrei í hús komið.

Jeg vil ekki lengja umræður frekar um þetta að sinni. En jeg tek það fram aftur, og bíð menn vel að athuga, að hjer er ekki að ræða um stofnun eina embættis út af fyrir sig, heldur um stofnun fjölda embætta, hjeraðsdýralækna, að hjer er að ræða um stórmál, er dregur þungan dilk á eftir sjer.