09.09.1915
Neðri deild: 55. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

134. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis-og sýslunnarmönnum landssjóðs

Framsm. (Þorleifur Jónsson) :

Eins og hæstv. forseti benti á, er meinleg prentvilla í 2. gr. frumv., og vænti jeg, að hún verði leiðrjett sem allra fyrst af skrifstofunni.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á brtt. háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) á þgskj. 834. Þótt nefndin hafi ekki haft mikinn tíma til að athuga hana, held jeg að mjer sje óhætt að segja það fyrir nefndarinnar hönd, að hún getur ekki fallist á brtt. Hún fer fram á það, að allur eftirlaunasöfnuðurinn, eða þeir af honum, sem ekki hafa 1000 kr. eða meira, skuli fá dýrtíðaruppbót, eins og starfsmenn og sýslunarmenn landssjóðs. Fyrst og fremst álít jeg nú, að þetta sje algjörlega fyrir utan verksvið þessa frumv., því að ákvæði frumv. eiga að eins við starfsmenn þá, sem eitthvað vinna í þarfir landsins. Með fram er þetta gjört með tilliti til þess, að fylgja dæmi »prívat«-vinnuveitenda í landinu, sem á ýmsan hátt ljetta undir með starfsmönnum sínum meðan dýrtíðin stendur. Landssjóður er vinnuveitandi þessara starfsmanna, sem hjer er um að ræða, og þeir eiga ekki aðgang að öðrum en landinu. Þetta á ekki að vera neinn almennur sveitarstyrkur fyrir fólk. Væri svo, ætti það að ná til allra þeirra, sem við bág kjör eiga að búa á landinu, svo að brtt, getur ekki samrýmst ákvæðum frumv. Nefndin dró talsvert úr hinum upphaflegu ákvæðum frumvarpsins og fækkaði nokkuð þeim, sem þessarar uppbótar áttu að njóta. En ef þessi brtt, yrði samþykt, bættist við um 116 s svo að hjer er ekki um neitt smáræði að tefla. Jeg skal gjarnan játa það, að sumt af þessu fólki er langt frá því að vera efnað, en þess má þó geta, að sumir þeir menn, sem lág hafa eftirlaun, eru mjög vel efnaðir menn, og væri það óneitanlega hálfandkannalegt, að vera að veita slíkum mönnum dýrtíðaruppbót. Jeg skal t. d. minna á þann sýslumanninn, sem lægst hefir eftirlaunin. Það er öllum vitanlegt, að hann er vel efnaður maður. Eins má benda á einn prest, sem er talinn sterkríkur maður, en hefir mjög lág eftirlaun. Jeg get ekki betur sjeð en að það væri mjög óviðfeldið og í alla staði ósæmandi, liggur mjer við að segja, að veita þessum mönnum dýrtíðaruppbót. Eins er um ýmsar embættismannaekkjur, sem að vísu hafa ekki ekki há eftirlaun, en er vel borgið, par sem þær búa hjá hálaunuðum börnum sínum, svo að ef tillagan næði fram að ganga, þá yrði þetta dýrtíðarstyrkur handa nokkrum hálaunuðum embættismönnum. Það getur ekki komið til nokkurra mála, að samþykkja slíkt.

Yfir höfuð er ekki þörf á því, að eyða miklum tíma til að tala um þetta. Nefndin er því mótfallin, að þetta ákvæði komi inn í frumvarpið, og skorar alvarlega á deildina að fella brtt. Væri um bágindi að ræða meðal þessa fólks, mætti sjálfsagt finna veg til að bjarga því á annan hátt.