12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

95. mál, stofnun Landsbanka

Björn Kristjánsson :

Mjer þykir rjett að taka það fram, svo að þingmenn viti það, að þetta frumvarp er ekki fram komið eftir óskum Landsbankastjórnarinnar. Frumvarpið hefi jeg alla ekki sjeð fyrr en einum eða tveim dögum eftir þingsetning. Þess vegna kemur frumvarpið alveg flatt upp á bankastjórnina, enda kennir í því ókunnugleika, sem komast hefði mátt hjá, ef borið hefði verið undir bankastjórnina, því að enginn veit hvar skórinn kreppir, nema sá, sem ber hann á fætinum. Bankastjórunum er allra manna kunnugast um það, hvers bankinn þarfnast, og hvers þar er ábótavant.

Þetta frumv. miðar að því, að auka við einum bankastjóra, sem sje lögfræðingur. Jeg skal taka það fram, að aldrei hefir staðið á því, að fá lögfræðilega aðstoð í bankanum, enda hefir þess ekki þurft, því báðir bankastjórarnir eru vanir samningum. Við innheimtu hefir verið hafður lögfræðingur með 900 kr. árakaupi. Auk þess er annar endurskoðandinn skýr lögfræðingur, og hefir hann aldrei fundið neina galla á samningum, sem stafi af þekkingarleysi okkar bankastjóranna.

Jeg skil því ekki, hver þörf er á því, að bæta lögfræðingi við í bankastjórnina. Þótt það sje títt við banka erlendis, að lögfræðingar eigi sæti í bankastjórn, þá er þess að gæta, að þar eru yfirbankastjórarnir ekki starfandi; þeir eru einskonar »toppfígúrur«, en starfið hvílir að mestu á skrifstofustjórunum,sem jafngilda bankastjórum hjer. Aftur á móti hjer við bankana þurfa bankastjórarnir að starfa. Skilyrðið fyrir því, að geta stýrt banka hjerlendis, er það, að maður sje annað hvort bankavanur eða verslunarfróður og vanur verslun. Lögfræðing höfum vjer ekkert við að gjöra í bankastjórn. Það, sem Landsbankann vanhagar fremur um, er korreapondent, en hann er ekki að fá meðal hjerlendra manna, fyrir þau laun, er bankarnir geta boðið, enda hefir Íslandsbanki orðið að taka til þess útlendan mann. Það þyrfti að vera maður, sem bankastjórnin getur sagt upp, eina og öðrum starfsmönnum.

Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að 2. gr. frumv. felur í sjer óheppileg ákvæði. Þar stendur, að ráðherra skipi bókara og fjehirði og víki þeim frá, að fengnum tillögum bankastjórnar. Áður voru þeir skipaðir »eftir tillögum« bankastjórnar, og varð stundum hark úr þessu ákvæði áður. Eftir þessu frv. er þá bankastjórninni ætlað minna vald en áður. En það gefur að skilja, að ef bankastjórnin má ekki ráða þessa menn og víkja þeim frá, þegar henni þykir þörf, þá er henni gjört það ómögulegt að stjórna þeim. Jeg álít nauðsynlegt, að bankastjórnin skipi þessa menn, enda er það í samræmi við þá reglu, að bankastjórnin hefir skipað stjórn útibúanna, síðan þau komust á. Það er hollast, að stjórn, sem stjórna á starfsmönnunum, skipi þá alla, enda er svo og í Íslandsbanka. Þetta er samhuga álit allrar bankastjórnar Landabankans, og hún hafði samið frumv. í þessu efni, alveg í gagnstæða átt þessu frumv.

Eftirlit af stjórnarinnar hálfu með bankanum er nægilega trygt með því, að landstjórnin skipar bankastjóra og annan endurskoðanda, þingið gæslustjóra og hinn endurskoðandann. Auk þess getur stjórnin hve nær sem vill gripið inn í og athugað plögg bankans.

Yfirleitt verð jeg að álíta þetta frv. þess eðlis, að það geti skaðlaust beðið þetta þing. Auðvitað þætti okkur bankastjórunum gott, að ljett væri á okkur störfum. En samt þykir okkur of mikið að verja 6000 kr. árlega til manns, sem þó alls eigi mundi geta ljett á okkur störfum.