12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

95. mál, stofnun Landsbanka

Hannes Hafstein :

Jeg er samþykkur því, sem hæstv. ráðherra lagði til í niðurlagi ræðu sinnar, að sjerstök nefnd verði kosin til að fjalla um þetta mál.

Þegar nefndin var kosin á síðasta fundi, til þess að fjalla um peningamálin, var búist við því, að til hennar yrði vísað fleiri sams konar málum, ef fyrir kæmu. En að því er þetta frumvarp snertir, þá er þar ekki um eiginlegt peningamál að ræða; heldur lýtur frv. að stjórnarfyrirkomulagi opinberrar stofnunar, er undir landstjórnina lýtur beinlínis.

Jeg er samdóma því, að frumv. þurfi athugunar við, og tel það þannig lagað, að þörf sje á sjerstakri nefnd. En með því að sumir háttv. þingdeildarmenn munu ekki vera undir það búnir, að kjósa sjerstaka nefnd í málið að þessu sinni, vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, hvort honum virðist ekki ástæða til að taka frumv. út af dagskrá í dag, því fremur, sem ekki mun vera mikið fundarefni fyrir deildinni næstu daga.