12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

95. mál, stofnun Landsbanka

Ráðherra :

Jeg skal leyfa mjer að svara háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) fám orðum. Hann var að tala um stofnun, sem væri eins stór og Landsbankinn, og þar með svaraði hann háttv. þm. Dal. (B. J.) að því leyti, að hjer er þá ekki að ræða um svo »litla grýtu«, sem hann vildi halda fram.

Þá sagði hann, að það væri mjög óheppilegt, að pólitíkin hefði áhrif á Landabankann. Já, jeg skal játa það, að það væri mjög óheppilegt, ef Landsbankinn stæði undir pólitískri bankastjórn. Hann sagði enn fremur, að öll afskifti landsstjórnarinnar af bankanum hefðu verið pólitísk. Þessu verð jeg að mótmæla. Jeg verð að álíta, að það hafi t. d. ekki verið pólitísk ráðstöfun, þegar hann, 1. þm. G.-K. (B. K.) var gjörður að bankastjóra við Landabankann. Eða vill hv. þm. kann ske halda því fram?

Um innlausn seðlanna skal jeg ekki segja margt. Jeg nefndi að eins þetta til dæmis um það, að mönnum þætti bankastjórninni geta verið mislagðar hendur í ráðstöfunum sínum, að hún skyldi fara að hætta þessu, úr því að það var nú einu sinni orðinn siður, að leysa inn seðlana fyrir »pari« í Landmandsbankanum. Og um rökin, sem háttv. þingmaður þóttist hafa flutt fram fyrir þessari ráðstöfun, en enginn þekkir nú, veit jeg það, að margir bankamenn í Kaupmannahöfn hafa ekki getað fallist á þau. (Björn Kristjánsson: Altjend þó Landmandsbankinn). Landmandsbankinn veit, að Landsbankinn er »solvent« og að bankastjórnin hefir hagað sjer fávíslega í þessu efni, en það er ekki víst, að allir aðrir viti það jafnvel.

Háttv. þm. (B. K.) taldi þess enga þörf, að einn af bankastjórunum sje lögfræðingur. Þótt nú svo sje, sem hann hjelt fram, að fyrirkomulagið, eins og það er, hafi ekki valdið neinu verulegu klandri hingað til, þá mun hann samt ekki geta neitað því, að bankastjórarnir hafa oft orðið að fresta málum, af því að þeir hafa þurft að leita til lögfræðinga með þau, og það lái jeg þeim ekki. Jeg veit, að þeir eru, eða að minsta kosti vilja vera, gætnir menn, sem ekki rasa fyrir ráð fram.

Um endurskoðendurna er það að segja, að þeirra athugasemdir koma ekki fyrri en eftir 5, svo ef það vildi til, að bankastjórnin hlypi á sig, þá væri of seint að byrgja brunninn, þegar barnið væri dottið ofan í. Annars veit jeg ekki betur en til sje dómsúrskurður fyrir því, að þeir sjeu að eins töluendurskoðendur.

Það virðist auðsætt hverjum manni, að það er ekki nóg, að bankastjórar hafi að eins vöru- og verslunarþekkingu, þó því sje við bætt, að þeir kunni að láta starfsmenn sína hlýða sjer. Þetta síðastnefnda byggist nú á alt öðru, á lagni mannanna, og er þekkingunni óviðkomandi, enda hafði jeg ekkert orð sagt í aðra átt og veit ekki annað en alt sje í allgóðu lagi í bankanum hvað það snertir.

Háttv. þm. (B. K.) var enn að tala um þennan útlenda »Korrespondent«, svo að jeg noti það orð, þótt jeg játi það rjett hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að það sje brjefaskrifari á íslensku. Hann sagði í því sambandi, háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að hjerlendir menn þektu ekki erlend viðskifti. Það er nú svo. Rökrjett afleiðing af því yrði sú, að þá þyrftum vjer að fá oss útlenda bankastjóra, því að þeir þurfa þó að þekkja inn í erlend viðskifti. En jeg trúi nú ekki þessu.

Þar sem háttv. þm. (B. K.) var að bjóðast til þess, að fara frá bankanum, ef þingið vildi svo, þá verð jeg að segja það, að þetta er talað út í bláinn. Þingið skipar ekki bankastjóra við Landsbankann, heldur stjórnin. Hann ætti því að bjóða stjórninni upp á að fara, ef hún vildi, en eigi þinginu. Stjórnin hefir ekkert um það sagt, að hún vildi hann frá bankanum. Að minsta kosti getur þetta frumv. ekki verið gjört, til þess að koma honum burtu þaðan, þar sem það miðar einmitt að því, að ljetta af honum bæði störfum og ábyrgð, og ætti hann því síst að fælast það, einkum þar sem jeg veit, að hann hefir ákaflega mikið að gjöra. Hann hefir oft talað um það sjálfur hjer á þingi og annarstaðar, og hverjum dettur í hug að efast um, að hann segi það satt?