12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

95. mál, stofnun Landsbanka

Sveinn Björnsson:

Jeg skal ekki vera margorður um þetta mál, sem mjer virðist muni fá mjög viðunanleg úrslit hjer í deildinni, þótt eigi verði samþykt frumvarp stjórnarinnar.

Mjer finst jeg ekki geta annað en látið í ljós undrun mína á því, hve lítilfjörlegum augum sumir háttv. þingdeildarmenn líta á þá hugmynd stjórnarinnar, að einn bankastjóranna sje lögfræðingur. Þetta er alls eigi ný hugmynd, eins og bent hefir verið á. Og auk þess, er ekkert eðlilegra, en að stofnun, sem þarf svo oft að ráða fram úr spurningum lögfræðislegs efnis, þar sem mikið er í húfi, hafi í stjórn sinni hæfan lögfræðing, mann, sem leggur til lögfræðisþekkinguna og um leið ber ábyrgð á ráðstöfuninni.

Sumum leikmönnum hættir við að líta of smáum augum á lögvísindin. Ef þeim hefir á lífsleiðinni tekist að komast fram úr einhverjum meira eða minna lítilvægum atriðum, sem lög koma við, hættir þeim við að telja sig »færa í flestan sjó«, eins færa og þá, sem varið hafa fjölda bestu ára æfinnar til vísindamentunar á því sviði, mentunar, sem ekki fæst af engu, og er einmitt ætluð til að gjöra menn hæfa til að ráða fram úr því, sem fyrir kemur í lífinu og ekki er beinlínis tilgreint í texta laganna. Lögin eru að eins regla, og lífið er, eins og við vitum, miklu fjölbreyttara en svo að fáein lagaorð geti tekið í sig öll þau fyrirbrigði, sem orðið geta í lífinu.

Jeg hygg einnig, að það sje mjög víða í heiminum talið heppilegt, að lögfræðingar sjeu í stjórn banka. Til dæmis vil jeg nefna, að í öllum stærri bönkunum dönsku munu lögfræðingar eiga sæti í stjórn þeirra, og um Þjóðbankann danska mun beint vera fyrirskipað að einn bankastjóranna skuli vera lögfræðingur. Jeg nefni dæmið frá Danmörku, af því mörgum mun það kunnugt.

Úr því að jeg stóð upp á annað borð, ætla jeg að minnast lítið eitt á nefndarálitið.

Það gleður mig, að nefndin hefir tekið upp þá skoðun, og heldur henni fram hjer í deildinni, að vjer þurfum að fá reyndan bankamann, til þess að koma peningamálum landsins í viðunandi horf. Það gleður mig, að nefndin hefir hugsað sjer, að taka nú ærlegt skref í þá átt, að gjöra úr Landabankanum nýtan og öflugan banka, sem fullnægt geti þörfum landsins, eins og þær nú eru orðnar. Á því er enginn vafi, að bankinn þarf mikilla endurbóta við, ef hann á að fullnægja rjettmætum kröfum landsmanna. Jeg tek það fram, að jeg er hjer ekki að ásaka bankastjórnina, heldur að finna að fyrirkomulagi bankana.

Þessi banki er veðdeildarbanki, sparisjóður, verslunar- og viðskiftabanki, fasteignalánabanki o. s. frv., alt í einni samsteypu með 750 þús. kr. starfsfje upprunalega. Veðdeild bankans gefur út brjef, sem ekki eru seljanleg. Þegar menn koma til að fá lán út á fyrsta veðrjett í jörðum sínum eða öðrum fasteignum, fá þeir ekki peninga, heldur brjef, sem enginn vill gefa þeim peninga fyrir. Verslunar- og viðskiftaþörfinni, eins og hún hefir aukist á seinni árum, getur bankinn alls ekki fullnægt með þeim fáu krónum, sem hann hefir til umráða. Jeg hygg, að það ætti að aðskilja meira en gjört hefir verið þetta þrent, veðdeild, sparisjóð og almennan banka. Við þetta bætist, að not af bankanum hafa í rauninni að eins þeir, sem búa næst bankanum eða útibúum hans. Þessu þarf að breyta í það horf, að mönnum sje gjört hægt fyrir, að nota bankann sem viðast á landinu. Hjer liggur fyrir landsstjórninni mikið og alvarlegt mál. Og enn fremur það, sem engu er minna um vert, að skapa landinu í útlöndum það lánstraust, sem það á skilið og ætti að geta haft. Eins og kunnugt er, hefir landið hvergi lánstraust nema í Danmörku, og það mjög af skornum skamti.

Með því að þetta er skoðun mín, hlýt jeg að hallast að dagskrártillögu meira hlutans. Hún er víðtækari en hin tillagan, sem að mínu áliti fer alt of skamt. Landsstjórnin þarf að fá heimild til miklu yfirgripsmeiri ráðstafana en þar er gjört ráð fyrir.