12.08.1915
Neðri deild: 31. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

95. mál, stofnun Landsbanka

Björn Kristjánsson :

Með því að hjer er um frumv. að ræða, sem fer fram á að breyta fyrirkomulagi Landsbankans, þá finn jeg mjer skylt, að upplýsa fyrirkomulagið, eins og það er nú, og getur það skýrt málið fyrir háttv. deild.

Sem stendur eru nú tveir bankastjórar við Landsbankann, — áður var bankastjórinn einn, — tveir meðstjórnendur, gæslustjórar svo kallaðir, eru þar, og þannig er hagað meðferð stjórnarinnar, að þegar um stærri mál er að ræða eða vafamál, þá eru þau borin undir alla stjórnina. Daglegum störfum sinna bankastjórarnir mestmegnis, og ráða þeim, ef þeir eru sammála. Jeg er þess vegna hræddur um, að menn villist oft á gæslustjóranafninu, og haldi að þeir sjeu að eins endurskoðendur. En þetta er algjörður misskilningur, því að þeir eru meðstjórnendur, og atkvæði þeirra sker úr til jafns við atkvæði bankastjóranna. Til þess að bankastjórnin sje vel skipuð, þá þurfa meðlimir hennar um fram alt að þekkja sem best öll verslunar- og atvinnumál þjóðarinnar. Lögfræðisþekking er auðvitað góð, en er að eins aukaatriði hjer í Reykjavík, þar sem bankastjórnin getur alt af fengið lögfræðislega aðstoð, samstundis, ef á þarf að halda. Nú er fyrirkomulagið þannig, að stjórnin velur framkvæmdarstjórana, Alþingi kýs meðstjórnendur, en stjórn og Alþingi velur endurskoðendur í sameiningu. Jeg get ekki sjeð annað en að á þessu fari í alla staði vel. Ef frumvarpið fær fram að ganga, þá verður það einn einstakur maður, sem ræður alla bankastjórnina, og með því er alt vald dregið úr höndum þingsins.

Jeg fæ ekki sjeð annað en að fyrirkomulagið, eins og það er nú, sje miklu betra og tryggara, að stjórn og þing velji bankastjórnina í sameiningu. Þetta er líkt því fyrirkomulagi, sem Þjóðverjar hafa hjá sjer. Þar velur stjórnin framkvæmdastjórana, en hluthafar meðstjórnendur. Tryggingin er því meiri eins og nú stendur, því það verður aldrei varið, að meðan flokkapólitíkin lifir í landinu, þá verður það alt af stjórn einhvers flokksins, sem ræður bankastjórnina, og reynslan hefir margsýnt og sannað, að slíkt er ekki heppilegt. Fari nú svo, að bankastjórar yrðu þrír, og t. d. einn lögfræðingur, þá er áreiðanlegt, að stjórn bankans yrði veikari, bæði að þekkingu og starfskröftum, heldur en bankastjórnin, sem nú er við stýrið. Nú eru í henni fjórir menn. Þrír af þeim eru verslunarfróðir og kunnugir sjávarútveginum, og fjórði maðurinn (síra Vilhjálmur Briem) er nákunnugur landbúnaði í alla staði. Jeg ýki þess vegna ekkert, þó jeg segi, að núverandi stjórn þekki í alla staði vel til atvinnumála landsmanna. Nú, þegar þar við bætist, að annar gæslustjóranna vinnur í bankanum allan daginn, eða sjö klukkutíma á dag, þá er það vitanlegt, að starfskraftarnir rýrna að miklum mun, ef fjórði maðurinn missist frá úr stjórninni.

Lögin ákveða, að til þess að skuldbindingar, er snerta bankann, sjeu gildar, þá skuli minst tveir menn úr stjórninni skrifa undir þær. Þetta er hægara að uppfylla þegar fjórir menn sitja í stjórninni, en verði þeim fækkað, þá er oft hætt við að svo fari, að ekki verði við höndina nema einn maður, ef ferðalög og veikindi hindra. Það hefir jafnvel stundum komið fyrir með fjögra manna stjórn, að engu hefir mátt muna, svo að gildandi undirskrift fengist. Og til þess að breyta þessu þarf nýtt lagaákvæði viðvíkjandi fullgilding undirskriftarinnar. Jeg hefi tekið þetta fram stjórn og þingi til leiðbeiningar síðar. Sú breyting, að fela stjórninni að velja bæði bókara og gjaldkera, er að mínu áliti illverjandi. Það er að veikja til stórra muna hið sjálfsagða tillöguvald bankastjórnarinnar, því hún verður að geta haft fult vald yfir þeim mönnum, alveg eins og öðrum starfsmönnum bankana, þar sem hún ber alla ábyrgðina. Annað væri óhæfilegt. Einmitt af því, að stjórnin hefir haft þetta vald, þá hafa þessir tveir embættismenn bankans, bókari og gjaldkeri, oft verið óheppilega valdir, og jafnvel orðið óþægir bankastjórninni, því þeir hafa ekki talið sig undir hana gefna. Þetta er nú reyndar ekki allskostar óeðlilegt. Menn rekur víst minni til þess, að það kom fyrir hjer um árið, að stjórnin var í vafa um, hvort hún ætti heldur að víkja frá saklausum bankastjórunum eða sekum gjaldkera. Í næstu löggjöf um þetta, væri eflaust æskilegt, að bankastjórninni yrði falið að ráða þessa menn og víkja þeim frá. Annað er óhjákvæmilegt. Jeg skal taka það fram, af því er kom fram við 1. umr., að óheppilegt væri að gæslustjórarnir hefðu aukastörf á hendi, að jeg álít einmitt heppilegt, að sá gæslustjórinn, sem hefir meiri tíma til umráða, vinni meira við bankann en hinn ákveðna skyldutíma, sökum þess, að þegar hann vinnur með allan daginn, þá verður hann fyrir bragðið miklu kunnugri bankamálum, fylgist með í þeim og er meðráðandi í öllu. Það má því í raun rjettri segja, að bankastjórarnir sjeu þrír. Hann vinnur líka þetta verk sitt fyrir svo afarlága borgun, að það er ekkert líkt því, að það sjeu full laun, svo að landið græðir líka beinlínis á því. Þetta gjörir stjórnina eðlilega tryggari og ábyggilegri; þar við bætist svo hans nauðsynlega og nákvæma landbúnaðarþekking. (Ráðhera: Hana hefir háttv. 1. þm.

G.-K. (B. K.) sjálfur). Ja, jeg var einu sinni smali, en þrátt fyrir það þekki jeg ekki nógu mikið til landbúnaðar.

Jeg hefi tekið alt þetta fram til leiðbeiningar fyrir stjórnina, ef hún vill breyta bankalögunum. Ef stjórninni er endilega svo fjarska ant um að fjölga bankastjórunum, sem jeg reyndar tel öldungis ónauðsynlegt, ef bankastjórnin beitir sínum kröftum sem stjórn, en ekki sem vinnuvjel. En ef svo er, segi jeg, þá ætti fyrirkomulagið að verða þannig, að bankastjórarnir yrðu þrír og gæslustjórunum haldið samt kyrrum.

Jeg ætla ekki að svara minnihlutanum. Að eina vildi jeg benda á það, að starfsfjeð, sem bankinn nú hefir, var þegar fengið árið 1909 og kom í umferð ½ miljón af því það ár og 1 miljón árið 1910 og ½ miljón 1911. Það er því ekki um neitt nýtt aukið starfsfje að ræða, sem gæfi tilefni til þess, að þriðja bankastjóranum yrði bætt við, því þetta fje var þegar útlánað á árunum 1909–1911.

Öðru atriði hjá minni hlutanum man jeg líka eftir, sem jeg vildi minnast á. Það er um það, að sjeð verði um að koma bankanum í bein viðskiftasambönd við útlendar peningastofnanir. Jeg skal taka það fram, að þetta er ekki nauðsynlegt, vegna þess, að Landsbankinn breytti svo til frá nýári 1914, að nú hefir hann fengið bein viðskiftasambönd við þær stofnanir erlendis, er hann hefir gagn af að skifta við. Áður hafði bankinn Landmandsbankann fyrir milligöngumann. Beinu viðakiftin eru því þegar komin á, en minni hl. er ekki ámælisverður fyrir það, þó hann kann ske hafi ekki vitað um þessa ráðstöfun.

Önnur atriði í minnihlutaálitinu get jeg alveg leitt hjá mjer að þessu sinni. Það var alveg rjett hjá háttv. 2. þm. Rvík. (J. M.), að óvíst er hve lengi gæslustjórarnir sitja og óvíst að þeir verði stöðugir í því embætti. En það er mein, ef svo verður ekki, og er það algjörlega á þingsins valdi, hvort þeir eru endurkosnir eða ekki. Auðvitað er ákjósanlegast að svo verði gjört, meðan unt er, vegna þess, hve þekkingin á viðskiftum bankans er nauðsynleg, og hún fæst aldrei í fljótri svipan. Líka er það alveg rjett, að gæslustjórarnir þurfi að gefa sig alla við störfum sínum, enda gjörir annar þeirra það nú þegar.

Þetta, sem jeg hefi sagt, hefir að eins verið til þess að upplýsa sem best ástandið eins og það er nú, eina og jeg þegar hefi tekið fram. Jeg hefi engar kvartanir sjeð um það, að bankastjórnin, sem nú er við Landsbankann, afkastaði ekki störfum sínum eða að hún stjórnaði hag bankana svo illa, að þörf væri á breytingum þess vegna. En meðan að ekki koma fram kvartanir um þetta, þó álít jeg og verð að halda því fastlega fram, að frumkvæðið um að fjölga bankastjórunum eigi að koma frá bankastjórninni sjálfri.