12.07.1915
Neðri deild: 4. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

139. mál, fjölgun ráðherra

Guðmundur Hannesson:

Mjer líst að það muni vera óheilladagur í dag, því að flest frumv. á dagskránni eru ekki að mínu skapi, og að ýmsu leyti athugaverð. Jeg skal þó ekki tefja umræðurnar lengi, en að eins gjöra fáar almennar athugasemdir við frumv. það, sem hjer liggur fyrir.

Margir munu sammála stjórninni um það, að skipulagið á æðstu stjórn landsins sje ekki allskostar heppilegt, og að svo miklu leyti er nokkur ástæða til, að reyna til að bæta úr því. Hitt er annað mál, hvort frumv. þetta ræður verulega bót á göllunum.

Hvað er þá. það, sem einkum er athugavert í stjórnarfari voru? Í mínum augum er það einkum tvent: Festuleysi stjórnarinnar, tíðu stjórnarskiftin með öllu því trufli, er þau valda, og hins vegar að öll stjórn landsins er einhliða flokksstjórn. Þetta tvent virðist mjer mestu skifta, þó að ilt sje líka, að störf ráðherra eru svo margbrotin, og flest þess eðlis, að engir aðrir en lögfróðir menn eiga auðvelt með að taka þau að sjer. Þá vil jeg ekki bera á móti því, að hjer er einum manni trúað fyrir miklu, og mikil ábyrgð á hann lögð, en þess ber að gæta að honum er venjulega kunnugt um afstöðu stjórnarflokksins, og að hann hefir ýmsa góða menn til að ráðgast við, skrifstofustjóra sina o. fl.

En bætir þá frumv. þetta úr helstu vandkvæðunum? Ekki verður stjórnin fastari í sessi, því að eftir sem áður stendur hún eða fellur með flokknum. Ekki er á neinn hátt bætt úr misfellum þeim og viðsjám, sem leiða af því, að stjórnin er algjör flokksstjórn. Helstu gallarnir á stjórnarfarinu eru að engu bættir.

Þá skal jeg að eins drepa lauslega á nokkur atriði í athugasemdunum við stjórnarfrumv. Þar er þess getið, að enginn einn maður sje fær um að kynna sjer till þau mál, er snerta stjórn landsins, og inna þau verk af hendi, sem af stjórninni eru heimtuð. Þetta er aldrei nema satt. En engir tveir menn eru færir um þetta heldur. Þekkinguna mun ávalt bresta, meðan stjórnin er ekki fastari í sessi en nú er. Annara bjóst jeg ekki við því, að háttv. núverandi ráðherra, sem allir telja sjerstakan dugnaðarmann, yrði fyrstur til að kvarta undan erfiðinu við stjórnarstörfin, og að hann treysti sjer ekki til að leysa þau af hendi. Hannes Hafstein hefir borið þessa byrði í mörg ár, komist vel út af því öllu og ekki kvartað. Það gjörði síðasti ráðherra ekki heldur.

Þá er minst á það í athugasemdunum, að þessi breyting leiði til þess, að stjórnin eigi hægara með að undirbúa mál undir Alþingi en áður. Það má vel vera. Reyndar skilst mjer, að stjórnarfrumv. sjeu í þetta skifti fleiri en nauðsynlegt er.

Seinast er getið um það, að útgjaldaauki verði þetta ekki. Það er bygt á því, að eftirlaun ráðherra falla nú úr sögunni. Jeg sje ekki, að oss sje endilega skylt að eta upp þann hagnað, sem það hefir í för með sjer, með því, að fjölga ráðherrum. En kostnaðurinn út af fyrir sig skiftir ekki mestu máli. Hitt er aðalatriðið, að breytingin er ekki til neinna bóta, nema síður sje. Nú situr þó einn maður í stjórnarráðinu, sem er vel kunnugur og hefir yfirlit yfir öll stjórnarstörfin. Það er landritarinn. Þegar hann er farinn, þá hefir enginn það yfirlit.

Hæstv. ráðherra ljet svo sem þetta mál mundi hafa mikið fylgi. Jeg hefi orðið var við annað. Mjer er kunnugt, að Alþingi er því lítt fylgjandi, og jeg hygg, að fjölgun ráðherra mælist illa fyrir úti um land. Að minsta kosti var kjósendum í mínu kjördæmi lítið um þetta gefið.