16.07.1915
Neðri deild: 8. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

11. mál, verðtollur

Magnús Kristjánsson :

Jeg býst ekki við, að það verði sagt, að við háttv. þm. Dal. (B. J.) og jeg höfum ætið verið sammála. En nú vill svo til, að skoðanir okkar falla saman að vissu leyti. Jeg hefi frá því fyrsta verið verðtollsmaður, og tel óyggjandi rök fyrir því, að sá tollur sje miklu rjettlátari en vörutollur. Eins og kunnugt er, voru vörutollslögin samþykt út úr neyð, og ekki var þar langur undirbúningstími, svo að eigi síður mætti heimfæra það upp á þau lög, sem hæstv. ráðherra finnur að þessu frumv., að þau væru illa undirbúin, því að þau voru flaustraverk. Og þó er annað verra í efni. Svo hefir litið út, sem einstöku menn hafi skoðað vörutollalögin sem eins konar helgan dóm, sem ekki mætti hagga. Að vísu voru lögin bætt 1913, en á þingi 1914 var þeim aftur breytt til hina lakara. Nú sje jeg ekki, að fært sje að breyta þeim enn af nýju, enda eru flestir sammála um það, að þau eigi að hverfa, og í annan stað fer mjög illa á því, að vera alt af að hringla til með lögin, því það leiðir til þess, að menn eru í vafa um, hvað gildir. Þess vegna eru það orð í tíma töluð, að byggja nú tollana á annari undirstöðu, sem að mínu áliti og margra annarra er miklu eðlilegri og rjettlátari.

Hæstv. ráðherra fann það til foráttu frumvarpinu, að tollurinn hækkaði og lækkaði í hlutfalli við verð vörunnar á hverjum tíma sem er. Mjer finst auðvelt að finna ráð við því. Ekki þarf annað en að hafa ákveðið hundraðsgjald fyrir t. d. hvert fjárhagstímabil, þó svo, að stjórnin geti breytt því lítið eitt, ef nauðsyn krefði, einkum ef varan kæmist í geipiverð, og yfirleitt á að sníða lögin eftir þörfum landsins. Þess er líka vert að gæta, að það er örsjaldan, að verð verði svo breytilegt sem nú.

Jeg verð því að telja frumv, stefna í rjetta átt; hitt er annað mál, að frumv. má laga, og enn fremur, hvort þinginu líst að taka upp þessa stefnu nú þegar.

Dæmi því, er hæstv. ráðherra tók um gullinnflutning, gjöri jeg ekki mikið úr. Úr því að honum hefir hugkvæmst þetta svo snemma, þá er hægur nærri að laga það.

Jeg vona að mönnum skiljist það, að það er stefnan, sem nú er um að ræða, en ekki einstök atriði, því þau má alt af laga.