19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

24. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Flutningsm. (Sig. Sigurðsson):

Jeg get gjört mönnum það til geðs að vera stuttorður að þessu sinni. Þetta frumv. er ekki nýr gætur hjer á þingi. Á þinginu 1909 fluttu þeir þm. N.-Þing. (B. S.) og 2. þm. S.-Múl., sem þá var Jón Ólafsson, frumv. um breytingu á þjóðjarðasölulögunum, sem fóru í svipaða átt. Sömuleiðis flutti þm. Eyf. (St. St.) frumv. um líkt efni á þinginu 1912.

Þetta frv., sem hjer er um að ræða, fer í líka átt og frumv. þau, sem jeg gat þegar um en gengur þó nokkuð lengra og er fyllra.

Aðalástæðan fyrir því, að jeg ber þetta frumv. fram, er sú að það er vitanlegt, að margar þjóðjarðir og kirkjujarðir komast á örstuttum tíma eftir sölu þeirra í eigu annarra manna en þeirra, er ábúendur voru, þegar kaupin gjörðust. Og eru dæmi til þess að ábúendurnir hafa verið fengnir til þess að kaupa jarðirnar, en á bak við þá hafa staðið alt aðrir menn, en síðan hafa orðið eigendur. Það má því fullyrða, að lögin hafi ekki náð tilgangi sínum, þeim, að efla sjálfsábúð í landinu. Þegar svo jarðirnar, einkum þær betri, hafa komist úr sjálfsábúð, þá hafa þær oft og tíðum lent í höndum kaupbrallara, sem svo hafa haldið þeim í svo háu verði, að ekkert viðlit hefir verið fyrir bændur, að kaupa þær til að búa á þeim.

Afleiðingin getur líka orðið sú að jarðirnar lendi þá í eigu útlendinga en það mætti telja illa farið, og það því fremur, sem það mundu oft verða hinar betri jarðir, er þannig gengu bæði úr sjálfsábúð og eigu landamanna, svo sem dæmi eru til.

Það segir sig sjálft, að með frv. er engin skylda lögð á landssjóð til að kaupa jarðirnar, heldur er landssjóði að eins gefinn kostur á að kaupa þær, ef þær losna úr sjálfsábúð eða ganga kaupum og sölum. Þetta getur verið nauðsynlegt, t, d. ef um jörð er að ræða, sem mikla framtíð þykir eiga fyrir sjer, vegna verslunar eða viðskifta, eða þyki vel fallin til skólaseturs eða annars því líka. Og þar með væri landssjóði trygður kaupsrjetturinn og varnagli sleginn við því, að jarðirnar kæmust í hendur útlendinga, þaðan sem þær ef til vill ættu ekki afturkvæmt.

Frumvarpið, sem lá fyrr þinginu 1912, og var líka efnis og þetta, komst heilu og höldnu gegn um Nd, en dagaði uppi í Ed.

Án þess, að jeg gjöri það að nokkru kappsmáli, legg jeg það til, að frumv. sje vísað til landbúnaðarnefanar. En vera kynni ástæða til að skipa sjerstaka nefnd í það, sökum þess, að það er sjerstaks eðlis og þess, að skylt frv., frv. um frestun á sölu þjóðgarða og kirkjujarða, liggur nú fyrir, og yrði því þá vísað til sömu nefndar.