19.07.1915
Neðri deild: 10. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

24. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Flutnm. (Sig. Sigurðsson):

Jeg skal geta þess út af athugasemdum háttv. 1. þm. Húnv. (G. H.), sem áleit, að lög þyrfti að setja um bygging jarða landssjóða, áður en hann færi að kaupa jarðir svo nokkru næmi, að á Alþingi 1913 kom fram tillaga um að skora á stjórnina, að semja frumvarp um erfðafestuábúð á þjóðjörðum og kirkjujörðum; en tillagan var sama sem feld. Jeg hafði hugsað mjer, ef þetta frumvarp fengi góðan byr, að bera fram þingsályktunartillögu, sem skori á stjórnina, að undirbúa frumv. um erfðafestuábúð. En ef frumv. fellur, þá er sjálfsagt að gjöra tillöguna enn víðtækari, svo að hún nái einnig til forkaupsrjettar landssjóðs á seldum þjóðjörðum, kirkjujörðum og öðrum jörðum, er ganga kaupum og sölum.

Það er rjett hjá háttv. þm. (G. H.), að mjög brestur ýmsar skýrslur um landshagi hjer. En þó hygg jeg, að fleiri jarðir sjeu í sjálfsábúð að nafninu til en fyrir 10-20 árum. Bæði hafa margar þjóðjarðir og kirkjujarðir verið seldar á þeim tíma, og eins hafa ýmsir leiguliðar keypt jarðir, sem voru í eigu einstakra manna. Jeg hygg, að sjálfseignarbændur muni nema um 60%, eða því nær.

Um hitt er jeg samdóma háttv. þingm., að sjálfsábúð er oft ótrygg. Bæði hverfa jarðir oft úr sjálfsábúð við fráfall eigenda, og stundum eru kaupendur þjóðjarða og kirkjujarða að eina »leppar« annarra.