21.07.1915
Neðri deild: 12. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

34. mál, stofnun kennaraembættis

Flutnm. (Guðm. Hannesson) :

Jeg hefi flutt þetta frumvarp eftir ósk læknadeildar Háskólans, með því að hún hefir álitið það rangt, að segja ekki til þarfa sinna og láta svo þingið skera úr, hvort það hefir fje til að bæta úr þeim.

Jeg veit, að öllum muni vera það ljóst, að læknadeildin hefir athugað málið rækilega og að hún hefir ríkan áhuga á því, að fá þessari kenslu komið á fót. Áður hefir verið farið fram á að stofna prófessoraembætti í þessu skyni, en af sparnaðarástæðum er hjer nú að eins beðið um »dócent«.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið að sinni. Jeg gjöri ráð fyrir, að rjett þyki, að setja það í nefnd, og vil þá stinga upp á 5 manna nefnd. Það mun þá gefast tækifæri til að skýra það nánar, þegar nefndarálitið kemur fram.